Margir uppfinningamenn voru að þróa og hanna vélmenni á þessum tíma og því erfitt að segja til um það með vissu hver þeirra hafi í raun og veru orðið fyrstur. Menn kann einnig að greina á um það hvað teljist til vélmenna og hvað ekki. Þannig hafa sjálfvirkar vélar verið til frá því á miðöldum. Til dæmis voru til klukkur þar sem litlar vélknúnar afsteypur af mönnum eða dýrum hreyfðust sjálfvirkt. Þá þróaði bandaríski uppfinningamaðurinn Grey Walter sjálfvirka vél á þremur hjólum sem leit út eins og skjaldbaka á fimmta áratug síðustu aldar sem hann kallaði Machina. Stanford Research Institute í Kaliforníu bjó á sjöunda áratugnum til lítinn kassa á hjólum sem notaði minni þegar hann ferðaðist um. Á sama tíma smíðaði General Electric Corporation í Bandaríkjunum stóran kassa með tölvukubbi og fjórum löppum sem gat gengið um.

Meira en 700 000 vélmenni voru notuð í iðnaði í heiminum árið 1995. Mikill meirihluti þeirra eða 70 prósent voru við störf í Japan en afgangurinn á Vesturlöndum. Vélmenni eru sérstaklega mikið notuð í bílaiðnaði því innan hans eru mörg störf sem eru of hættuleg eða erfið fólki. Einnig eru vélmenni mikið notuð til þess að fara í rannsóknarferðir út í geiminn. Heimildir og myndir
- Encarta
- The History of Robotics
- Mynd af Joseph F. Engelberger: Vísinda og tæknistofnun Japans (JSTF)
- Mynd af Grey Walter: Carnegie Mellon University - Field Robotics Center