Lyktarskynið getur tapast skyndilega til dæmis við högg á höfuðið, sérstaklega við harkalegan skell á enni eða hnakka. Lyktartaugarnar ganga í gegnum þunna beinplötu sem skilur að nefhol og heilahvolf. Við þungt högg getur þessi beinplata brotnað og lyktartaugarnar rofnað. Slíkur skaði er varanlegur og mun þetta vera algengasta orsök fyrir tapi á lyktarskyni.
Lyktarskynið getur einnig tapast við veirusýkingar, til dæmis inflúensu. Það þarf ekki að vera varanlegt, en getur verið það. Algengasta orsökin fyrir því að lyktarskynið dofnar er kvef, en vegna slímhúðarbólgu kemst innöndunarloftið verr að lyktarskynfærinu, sem er efst í nefholinu.
Skoðið einnig önnur svör um lykt á Vísindavefnum:- Hvað er lykt? eftir Einar Karl Friðriksson
- Ef sjón og heyrn eru bylgjur, hvað er lykt þá? eftir Ólaf Pál Jónsson
- Af hverju hafa konur betra lyktarskyn en karlar? eftir Friðrik Pál Jónsson
- Hvers vegna hverfur lyktarskynið? eftir Magnús Jóhannsson
Mynd: chembytes e-zine