Talið er að rúmlega 10% af þurrlendi Íslands sé hulið jöklum. Vatnajökull, sem er stærsti jökull í Evrópu og eitt stærsta jökulhvel utan heimskautalanda, er um 8300 km2 og hylur um 8% landsins. Langjökull er annar stærsti jökull Íslands, um 950 km2 og Hofsjökull er á þriðji stærsti, um 900 km2. Stærsti jökull jarðar er á Suðurskautslandinu um 12,6 milljónir km2.

Stærð jökla getur tekið töluverðum breytingum og hún er nátengd veðurfari. Hærra hitastig getur leitt til þess að jöklar bráðna meira en venjulega en ef veðurfar kólnar mikið þá stækka jöklar vegna snjólaga sem setjast fyrir á yfirborði þeirra. Fyrir um 24.000 árum, á hámarki síðasta jökulskeiðs ísaldar, var allt landið ásamt Skandinavíu, Norður-Evrópu og hálfri Norður-Ameríku hulið jökli. Skömmu síðar tóku jöklarnir að bráðna hratt og voru að mestu leyti horfnir fyrir um 7000 árum. Grænlandsjökull er einn eftir af þessum stóru jöklum.
Skoðið einnig svör við eftirfarandi spurningum
- Hvað gerist þegar jöklar hopa? eftir Sigurð Steinþórsson
- Ef Vatnajökull myndi hverfa á morgun hvað mundi land undir honum rísa mikið og á hvað löngum tíma? eftir Freystein Sigmundsson
- Ef allir jöklar og bæði heimskautin mundu bráðna, hve mikið mundi sjávarborð þá hækka? eftir Harald Ólafsson og Tómas Jóhannesson