Það virðist vera nokkuð augljóst að dýr sýna tilfinningar eins og reiði, gleði og hryggð, en í stað þess að gráta tjá þau sorg sína með hljóðum. Í bókinni When Elephants Weep, merkustu bók sem skrifuð hefur verið um tilfinningalíf dýra síðan Charles Darwin fjallaði um það efni á 19. öld, segir bandaríski sálfræðingurinn Jeffrey Masson frá sorgarviðbrögðum dýra. Hann fjallar þar um fjölda tilvika þar sem dýr sýna greinilega hryggð og gefa frá sér regluleg hljóð sem líkjast snökti barna.
Rökin fyrir tilfinningaleysi dýra hafa snúist um það að með því að eigna dýrum ákveðnar tilfinningar sé verið að manngera þau. Með þess háttar röksemdafærslu er algjörlega litið fram hjá því að grunngeðshræringar eins og sorg og reiði, eru eflaust upprunnar hjá einhverjum forföður okkar í dýraríkinu en ekki hjá manninum.
Skoðið einnig svar Jakobs Smára við spurningunni Hvers vegna reiðist fólk?
Heimildir, mynd og frekara lesefni
- Masson, Jeffrey Moussaieff og McCarthy, Susan, When Elephants Weep: The Emotional Lives of Animals, Cape, London, 1994.
- Discover
- WonderQuest