Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?

Sigurður J. Grétarsson

  • Af hverju er hægt að vera gáfaðri en aðrir?
  • Fæðast allir sem eru heilbrigðir með sömu möguleika á að verða jafngáfaðir?
  • Er hægt að auka greind sína á einhvern hátt?
  • Er einhver gáfaðri en annar eða bara alinn upp við jákvæðari skilyrði?
Ofangreindar spurningar, sem borist hafa Vísindavefnum, snúast allar um eitt af þrástefjum þroskasálfræðinnar á 20. öld, spurninguna um hvort greind sé ásköpuð eða áunnin. Náskyld spurning er svo hvort unnt sé að auka greind fólks með þjálfun og með því að koma því fyrir í hagfelldu umhverfi.



Frægustu tilraunir til að svara spurningunni um hvort vegi meira, upplag eða uppeldi, eru svonefndar tvíburarannsóknir. Þar eru lögð greindarpróf fyrir hópa fólks sem eru ýmist fjarskyldir eða náskyldir og eru fylgnistuðlar innan hópanna svo skoðaðir og af þeim ráðið hvort meira máli skipti með tilliti til greindar að vera náskyldur greindu fólki eða að alast upp í hagstæðu umhverfi. Þannig er athugað hvort greindartölur para af eineggja tvíburum hafi meiri innbyrðis fylgni en hjá tvíeggja tvíburum, systkinum, hálfsystkinum og svo framvegis.

Þessar niðurstöður eru allmargar og niðurstöður þeirra eru á einn veg. Hæst er fylgni hjá eineggja tvíburum þannig að auðvelt er að spá fyrir um greind eins tvíburans þegar greind hins er þekkt. Fylgnin er há. Ef annar er greindur eru miklar líkur á að hinn sé það líka, og öfugt. Fylgnin er síðan lægri en þó allhá milli tvíeggja tvíbura og sama má segja um fylgni milli greindar alsystkina. Fylgnin er síðan lægri milli hálfsystkina og þannig áfram eftir því sem skyldleiki minnkar. Það fer, með öðrum orðum, mjög eftir því hve mikið erfðaefni er fólki sameiginlegt, hvort greind þess sé svipuð. Ef það er náskylt er líklegast að það sé svipað að greind. Ef það er fjarskylt er erfitt að spá um það.

Þessar niðurstöður benda eindregið til þess að erfðir skipti miklu máli þegar greind verður til og svarið við fyrstu tveimur spurningunum hér að ofan um hvers vegna fólk er misgáfað verður í þessu samhengi frekar ófrumlegt. Þetta er sem sé af svipuðum ástæðum og fólk er misjafnt í svo mörgu tilliti - erfðaefni frá forfeðrum ræður miklu um það.

En síðan þarf að setja fyrirvara við þessa niðurstöðu af mörgum athyglisverðum ástæðum.

Í fyrsta lagi er þáttur erfða ekki alger í þessu efni. Fylgni milli greindar eineggja tvíbura er ekki fullkomin. Í allmörgum rannsóknum hefur til dæmis tekist að bera saman hópa eineggja tvíbura, sem hafa alist upp saman, við annan hóp eineggja tvíbura sem alist hafa upp hvor í sínu lagi. Þá sést að uppeldi hefur sitt að segja, vegna þess að greindarfylgnin er hærri hjá þeim sem alast upp saman - búa sem sagt við sama umhverfi - en hjá þeim sem alist hafa upp hvor í sínu lagi. Með öðrum orðum: Þó að þáttur erfða sé mikill og eindreginn þá er þáttur umhverfis líka allnokkur. Tölfræðilega er það orðað þannig að um það bil fjórðung dreifingar megi skýra með umhverfisþáttum, en í Njálu orða menn það þannig að fjórðungi bregði til fósturs. Áður en Sigmundur Lambason vegur Þórð fóstra Njálssona að áeggjan Hallgerðar lætur hann þessi orð falla:
En eigi er kynlegt að Skarphéðinn sé hraustur því að það er mælt að fjórðungi bregði til fósturs. (42. kafli)
Í öðru lagi er rétt að athuga að tvíburarannsóknir eru gerðar á fólki sem býr í afar svipuðu umhverfi. Langflestir sem slíkar rannsóknir beinast að eru úr vestrænu miðstéttarumhverfi, þannig að þegar athugaðir eru tvíburar sem alist hafa upp á ólíkum stöðum, er munurinn á umhverfi þeirra ekki geysilega mikill. Annar býr kannski í amerískri hliðstæðu Breiðholts, hinn í amerísku Árbæjarhverfi. Sá litli breytileiki í umhverfi nægir kannski ekki til þess að umhverfisþættir nái að setja mark sitt á fylgnistuðlana. Ef hópur eineggja tvíbura væri alinn upp í fátæktarbælum eða í einhverjum þeim uppeldishelvítum sem Charles Dickens lýsir í sögum sínum, en tvíburabræður þeirra og systur væru alin upp í örvandi og alúðlegu uppeldishimnaríki, þá er afar líklegt að þáttur umhverfis hefði miklu eindregnari áhrif á fylgnistuðlana en greinilegt er á þeim rannsóknum sem algengastar eru. Vonandi er engin leið til að gera slíka rannsókn - en möguleikinn á henni minnir á að þótt uppeldi komi fram veikar en erfðir í þessum rannsóknum, er alls ekki þar með sagt að uppeldi skipti ekki máli. Við allt önnur skilyrði gæti þáttur umhverfis virst eindregnari en erfðanna.

Þessi tvö atriði ættu að nægja til að minna á að erfðaþáttur greindar er ekki alger þó að hann sé eindreginn. Einnig hefur mest af sálfræði 20. aldar verið mjög þeirrar gerðar að halda fram hlut umhverfis, og þar með möguleikanum á því að unnt væri að koma til aðstoðar þar sem eitthvað bjátaði á.



Þegar kemur að spurningunni um hvort greindarmunur sé einhlítur og hvort allir séu í raun jafngáfaðir, en búi bara við ólík skilyrði, má fá hluta svarsins í því sem þegar hefur verið sagt, en nokkrum atriðum má bæta við.

Í fyrsta lagi er það að nokkru háð gildismati hvað teljist til greindar. Greindarmælingar nútímans, þó nákvæmar séu, eru ekki endanlegur mælikvarði á manngildi, ágæti og möguleika eins eða neins. Það fer mjög eftir aðstæðum hvað teljist til greindar, og hvernig greind nýtist fólki. Í öðrum svörum undirritaðs á Vísindavefnum við spurningunum 'Hvað er greind?' og 'Er sannað að greindarpróf verki?' er fjallað um fyrirvara sem gera þarf við greindarmælingar. Þeir fyrirvarar minna á að greindarhugtak nútímans miðar við tiltekin lífsskilyrði og það sem vísindamenn hafa hingað til kallað umhverfi í þessu samhengi er harla einsleitt. Það má hugsa sér, að við gerólík skilyrði þeim sem við búum nú við, til dæmis ef mannkynið þyrfti að aðlagast þyngdarleysi eða að búa í þunnu lofti, svo öfgakennd dæmi séu tekin, mundu einhverjir eiginleikar sem nú þykja litlu máli skipta, verða að aðalatriðum. Þá væri greind kannski skilgreind öðru vísi en nú er. Jafnvel þarf ekki ímyndaðar öfgaaðstæður til. Nú þegar er ljóst að fræðimenn úr ólíkum greinum meta ólíka hluti þegar þeir huga að greind fólks, og það er margsýnt og sannað að venjulegt fólk sem ekki er vant nútíma skólagöngu og nútímalegum lífsskilyrðum stendur sig lakar á nútíma greindarprófum en aðrir. Allt minnir það á að greindarmælingar eru að nokkru háðar gildismati.



Á svipuðum nótum efast enginn um að farsæld í samskiptum við aðra, hæfni í íþróttum, tónlistargáfa og annað því líkt geti verið hluti þess sem við vildum telja til greindar, þó að þeir eiginleikar mælist illa á greindarprófum. Samanburður á fólki með greindarprófum er því ekki endanlegur eða einhlítur mælikvarði á mismunandi greind þess eða hæfni þegar á reynir.

Því má svara spurningum um hvort allir fæðist jafngreindir, eða hvort meðfæddur greindarmunur sé einhlítur með því að minna á að greind er afar fjölbreytt. Hún skilgreinist af notagildi hennar við ólíkar aðstæður. Þar nægir því ekki að huga einvörðungu að útkomu á greindarprófum. Miðað við staðlaðar miðlungsaðstæður og núverandi greindarprófahugtak má þó segja að erfðir skipti miklu máli - og umhverfi örugglega líka.

Þetta segir strax eitthvað um síðari hluta spurningar, sem sagt um hvort hægt sé að bæta greind sína með einhverjum hætti. Greind er ekki algerlega óbreytanlegt eða algilt fyrirbæri. Þannig er bæði unnt að efla hæfileika sína með æfingu og þjálfun af fjölmörgum toga - og velja sér umhverfi þar sem hæfileikar manns nýtast. Ofurgreindur prófessor í hringhjólaverkfræði væri ekki endilega snillingur á vettvangi stjórnmála ef hann reyndi að hasla sér þar völl. Góður stjórnmálamaður er ekki endilega snjall fræðimaður þó að engin efist um afburðaskarpleik hans á sínu sviði. Þar reynir kannski á aðrar gáfur.

Í sálfræði og menntunarfræði úir allt og grúir af dæmum þar sem umhverfisþættir, þjálfun, kennsla eða meðferð af einhverju tagi breytir getustigi fólks, þannig að það megi í mikilvægum skilningi teljast greindara en áður. Barni, sem ekki nýtur góðrar skólagöngu, hrakar í greind, börnum sem fá of litla athygli hrakar líka, tilraunadýr sem fá að kljást við ýmis verkefni hafa þyngri heilabörk en þau sem alast upp í myrkri, fólk sem fæst við viðeigandi verkefni fram eftir aldri bætir oft við greind sína, en hinir sem ekki takast á við umhverfi sitt sitja eftir. Reyndar er það í samræmi við áherslur 20. aldar sálfræði á réttlæti, meðferð og aðstoð af ýmsum toga að slíkar rannsóknaniðurstöður fylla heilu bindin, og verður varla gerð nein skil hér.

Ég bendi á þrennt að lokum.

Í fyrsta lagi er sú sjálfsagða staðreynd - sem furðu mörgum yfirsést - að það eru samfelld áhrif í langan tíma sem skipta sköpum í flestum tilvikum, ekki einstakir atburðir eða afmörkuð reynsla. Lestrarkennsla og áralöng æfing í margvíslegum lestri hefur til dæmis meiri áhrif á rökvísi en stutt námskeið í rökfræði sem ekki er fylgt eftir. Það ákvarðast af heildaraðstæðum og þar með af menningu hvort menntun sé vel heppnuð, ekki af einstökum átaksverkefnum eða mjög afmörkuðum tækniatriðum.

Í öðru lagi er erfitt að stytta sér leið til greindar með einhverjum snilldarbrögðum. Eins og fyrr segir skipta erfðir allmiklu máli. En þeir sem vilja verða snjallir í eðlisfræði þeir þurfa að læra eðlisfræði, sama hvað þeir hafa dásamlegt erfðaefni. Þeir sem ætla sér að verða góðir í málaralist eða tónlist, þeir læri málaralist eða tónlist. Stærðfræðiþjálfun þjálfar mann í stærðfræði, tölvukennsla gerir mann góðan á tölvur. -- Fá ráð eru þekkt til þess að þjálfa almenna greind. Hún virðist einhvers konar fylgifiskur sérhæfðara náms. Hún er kannski líkt og hamingja eða sjálfstraust - heimsækir okkur ekki svo glatt ef við sækjumst eftir henni einni og sér án annarra starfa eða markmiða.



Í þriðja lagi er rétt að muna að fyrri reynsla ákvarðar ekki algerlega það sem á eftir kemur. Auðvitað mótast sérhvert líf að verulegu marki af fortíð og erfðum, en sálfræðingar telja ástæðu til að vara menn við nauðhyggju í þeim efnum. Engin ein leið er hárrétt eða nauðsynleg í námi og þroska. Að því gefnu að fólk búi ekki við skilyrði sem beinlínis eru ill eða þvingandi má segja að möguleikar mannsandans - þegar kemur að námi og þjálfun - séu margir og fjölbreyttir, hvað sem fortíðinni líður.

Myndir eftir M.C. Escher: World of Escher

Höfundur

Sigurður J. Grétarsson

prófessor í sálarfræði við HÍ

Útgáfudagur

16.9.2002

Spyrjandi

Hafrún Guðbrandsdóttir o.fl.

Tilvísun

Sigurður J. Grétarsson. „Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?“ Vísindavefurinn, 16. september 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2699.

Sigurður J. Grétarsson. (2002, 16. september). Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2699

Sigurður J. Grétarsson. „Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2699>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru sumir gáfaðri en aðrir?

  • Af hverju er hægt að vera gáfaðri en aðrir?
  • Fæðast allir sem eru heilbrigðir með sömu möguleika á að verða jafngáfaðir?
  • Er hægt að auka greind sína á einhvern hátt?
  • Er einhver gáfaðri en annar eða bara alinn upp við jákvæðari skilyrði?
Ofangreindar spurningar, sem borist hafa Vísindavefnum, snúast allar um eitt af þrástefjum þroskasálfræðinnar á 20. öld, spurninguna um hvort greind sé ásköpuð eða áunnin. Náskyld spurning er svo hvort unnt sé að auka greind fólks með þjálfun og með því að koma því fyrir í hagfelldu umhverfi.



Frægustu tilraunir til að svara spurningunni um hvort vegi meira, upplag eða uppeldi, eru svonefndar tvíburarannsóknir. Þar eru lögð greindarpróf fyrir hópa fólks sem eru ýmist fjarskyldir eða náskyldir og eru fylgnistuðlar innan hópanna svo skoðaðir og af þeim ráðið hvort meira máli skipti með tilliti til greindar að vera náskyldur greindu fólki eða að alast upp í hagstæðu umhverfi. Þannig er athugað hvort greindartölur para af eineggja tvíburum hafi meiri innbyrðis fylgni en hjá tvíeggja tvíburum, systkinum, hálfsystkinum og svo framvegis.

Þessar niðurstöður eru allmargar og niðurstöður þeirra eru á einn veg. Hæst er fylgni hjá eineggja tvíburum þannig að auðvelt er að spá fyrir um greind eins tvíburans þegar greind hins er þekkt. Fylgnin er há. Ef annar er greindur eru miklar líkur á að hinn sé það líka, og öfugt. Fylgnin er síðan lægri en þó allhá milli tvíeggja tvíbura og sama má segja um fylgni milli greindar alsystkina. Fylgnin er síðan lægri milli hálfsystkina og þannig áfram eftir því sem skyldleiki minnkar. Það fer, með öðrum orðum, mjög eftir því hve mikið erfðaefni er fólki sameiginlegt, hvort greind þess sé svipuð. Ef það er náskylt er líklegast að það sé svipað að greind. Ef það er fjarskylt er erfitt að spá um það.

Þessar niðurstöður benda eindregið til þess að erfðir skipti miklu máli þegar greind verður til og svarið við fyrstu tveimur spurningunum hér að ofan um hvers vegna fólk er misgáfað verður í þessu samhengi frekar ófrumlegt. Þetta er sem sé af svipuðum ástæðum og fólk er misjafnt í svo mörgu tilliti - erfðaefni frá forfeðrum ræður miklu um það.

En síðan þarf að setja fyrirvara við þessa niðurstöðu af mörgum athyglisverðum ástæðum.

Í fyrsta lagi er þáttur erfða ekki alger í þessu efni. Fylgni milli greindar eineggja tvíbura er ekki fullkomin. Í allmörgum rannsóknum hefur til dæmis tekist að bera saman hópa eineggja tvíbura, sem hafa alist upp saman, við annan hóp eineggja tvíbura sem alist hafa upp hvor í sínu lagi. Þá sést að uppeldi hefur sitt að segja, vegna þess að greindarfylgnin er hærri hjá þeim sem alast upp saman - búa sem sagt við sama umhverfi - en hjá þeim sem alist hafa upp hvor í sínu lagi. Með öðrum orðum: Þó að þáttur erfða sé mikill og eindreginn þá er þáttur umhverfis líka allnokkur. Tölfræðilega er það orðað þannig að um það bil fjórðung dreifingar megi skýra með umhverfisþáttum, en í Njálu orða menn það þannig að fjórðungi bregði til fósturs. Áður en Sigmundur Lambason vegur Þórð fóstra Njálssona að áeggjan Hallgerðar lætur hann þessi orð falla:
En eigi er kynlegt að Skarphéðinn sé hraustur því að það er mælt að fjórðungi bregði til fósturs. (42. kafli)
Í öðru lagi er rétt að athuga að tvíburarannsóknir eru gerðar á fólki sem býr í afar svipuðu umhverfi. Langflestir sem slíkar rannsóknir beinast að eru úr vestrænu miðstéttarumhverfi, þannig að þegar athugaðir eru tvíburar sem alist hafa upp á ólíkum stöðum, er munurinn á umhverfi þeirra ekki geysilega mikill. Annar býr kannski í amerískri hliðstæðu Breiðholts, hinn í amerísku Árbæjarhverfi. Sá litli breytileiki í umhverfi nægir kannski ekki til þess að umhverfisþættir nái að setja mark sitt á fylgnistuðlana. Ef hópur eineggja tvíbura væri alinn upp í fátæktarbælum eða í einhverjum þeim uppeldishelvítum sem Charles Dickens lýsir í sögum sínum, en tvíburabræður þeirra og systur væru alin upp í örvandi og alúðlegu uppeldishimnaríki, þá er afar líklegt að þáttur umhverfis hefði miklu eindregnari áhrif á fylgnistuðlana en greinilegt er á þeim rannsóknum sem algengastar eru. Vonandi er engin leið til að gera slíka rannsókn - en möguleikinn á henni minnir á að þótt uppeldi komi fram veikar en erfðir í þessum rannsóknum, er alls ekki þar með sagt að uppeldi skipti ekki máli. Við allt önnur skilyrði gæti þáttur umhverfis virst eindregnari en erfðanna.

Þessi tvö atriði ættu að nægja til að minna á að erfðaþáttur greindar er ekki alger þó að hann sé eindreginn. Einnig hefur mest af sálfræði 20. aldar verið mjög þeirrar gerðar að halda fram hlut umhverfis, og þar með möguleikanum á því að unnt væri að koma til aðstoðar þar sem eitthvað bjátaði á.



Þegar kemur að spurningunni um hvort greindarmunur sé einhlítur og hvort allir séu í raun jafngáfaðir, en búi bara við ólík skilyrði, má fá hluta svarsins í því sem þegar hefur verið sagt, en nokkrum atriðum má bæta við.

Í fyrsta lagi er það að nokkru háð gildismati hvað teljist til greindar. Greindarmælingar nútímans, þó nákvæmar séu, eru ekki endanlegur mælikvarði á manngildi, ágæti og möguleika eins eða neins. Það fer mjög eftir aðstæðum hvað teljist til greindar, og hvernig greind nýtist fólki. Í öðrum svörum undirritaðs á Vísindavefnum við spurningunum 'Hvað er greind?' og 'Er sannað að greindarpróf verki?' er fjallað um fyrirvara sem gera þarf við greindarmælingar. Þeir fyrirvarar minna á að greindarhugtak nútímans miðar við tiltekin lífsskilyrði og það sem vísindamenn hafa hingað til kallað umhverfi í þessu samhengi er harla einsleitt. Það má hugsa sér, að við gerólík skilyrði þeim sem við búum nú við, til dæmis ef mannkynið þyrfti að aðlagast þyngdarleysi eða að búa í þunnu lofti, svo öfgakennd dæmi séu tekin, mundu einhverjir eiginleikar sem nú þykja litlu máli skipta, verða að aðalatriðum. Þá væri greind kannski skilgreind öðru vísi en nú er. Jafnvel þarf ekki ímyndaðar öfgaaðstæður til. Nú þegar er ljóst að fræðimenn úr ólíkum greinum meta ólíka hluti þegar þeir huga að greind fólks, og það er margsýnt og sannað að venjulegt fólk sem ekki er vant nútíma skólagöngu og nútímalegum lífsskilyrðum stendur sig lakar á nútíma greindarprófum en aðrir. Allt minnir það á að greindarmælingar eru að nokkru háðar gildismati.



Á svipuðum nótum efast enginn um að farsæld í samskiptum við aðra, hæfni í íþróttum, tónlistargáfa og annað því líkt geti verið hluti þess sem við vildum telja til greindar, þó að þeir eiginleikar mælist illa á greindarprófum. Samanburður á fólki með greindarprófum er því ekki endanlegur eða einhlítur mælikvarði á mismunandi greind þess eða hæfni þegar á reynir.

Því má svara spurningum um hvort allir fæðist jafngreindir, eða hvort meðfæddur greindarmunur sé einhlítur með því að minna á að greind er afar fjölbreytt. Hún skilgreinist af notagildi hennar við ólíkar aðstæður. Þar nægir því ekki að huga einvörðungu að útkomu á greindarprófum. Miðað við staðlaðar miðlungsaðstæður og núverandi greindarprófahugtak má þó segja að erfðir skipti miklu máli - og umhverfi örugglega líka.

Þetta segir strax eitthvað um síðari hluta spurningar, sem sagt um hvort hægt sé að bæta greind sína með einhverjum hætti. Greind er ekki algerlega óbreytanlegt eða algilt fyrirbæri. Þannig er bæði unnt að efla hæfileika sína með æfingu og þjálfun af fjölmörgum toga - og velja sér umhverfi þar sem hæfileikar manns nýtast. Ofurgreindur prófessor í hringhjólaverkfræði væri ekki endilega snillingur á vettvangi stjórnmála ef hann reyndi að hasla sér þar völl. Góður stjórnmálamaður er ekki endilega snjall fræðimaður þó að engin efist um afburðaskarpleik hans á sínu sviði. Þar reynir kannski á aðrar gáfur.

Í sálfræði og menntunarfræði úir allt og grúir af dæmum þar sem umhverfisþættir, þjálfun, kennsla eða meðferð af einhverju tagi breytir getustigi fólks, þannig að það megi í mikilvægum skilningi teljast greindara en áður. Barni, sem ekki nýtur góðrar skólagöngu, hrakar í greind, börnum sem fá of litla athygli hrakar líka, tilraunadýr sem fá að kljást við ýmis verkefni hafa þyngri heilabörk en þau sem alast upp í myrkri, fólk sem fæst við viðeigandi verkefni fram eftir aldri bætir oft við greind sína, en hinir sem ekki takast á við umhverfi sitt sitja eftir. Reyndar er það í samræmi við áherslur 20. aldar sálfræði á réttlæti, meðferð og aðstoð af ýmsum toga að slíkar rannsóknaniðurstöður fylla heilu bindin, og verður varla gerð nein skil hér.

Ég bendi á þrennt að lokum.

Í fyrsta lagi er sú sjálfsagða staðreynd - sem furðu mörgum yfirsést - að það eru samfelld áhrif í langan tíma sem skipta sköpum í flestum tilvikum, ekki einstakir atburðir eða afmörkuð reynsla. Lestrarkennsla og áralöng æfing í margvíslegum lestri hefur til dæmis meiri áhrif á rökvísi en stutt námskeið í rökfræði sem ekki er fylgt eftir. Það ákvarðast af heildaraðstæðum og þar með af menningu hvort menntun sé vel heppnuð, ekki af einstökum átaksverkefnum eða mjög afmörkuðum tækniatriðum.

Í öðru lagi er erfitt að stytta sér leið til greindar með einhverjum snilldarbrögðum. Eins og fyrr segir skipta erfðir allmiklu máli. En þeir sem vilja verða snjallir í eðlisfræði þeir þurfa að læra eðlisfræði, sama hvað þeir hafa dásamlegt erfðaefni. Þeir sem ætla sér að verða góðir í málaralist eða tónlist, þeir læri málaralist eða tónlist. Stærðfræðiþjálfun þjálfar mann í stærðfræði, tölvukennsla gerir mann góðan á tölvur. -- Fá ráð eru þekkt til þess að þjálfa almenna greind. Hún virðist einhvers konar fylgifiskur sérhæfðara náms. Hún er kannski líkt og hamingja eða sjálfstraust - heimsækir okkur ekki svo glatt ef við sækjumst eftir henni einni og sér án annarra starfa eða markmiða.



Í þriðja lagi er rétt að muna að fyrri reynsla ákvarðar ekki algerlega það sem á eftir kemur. Auðvitað mótast sérhvert líf að verulegu marki af fortíð og erfðum, en sálfræðingar telja ástæðu til að vara menn við nauðhyggju í þeim efnum. Engin ein leið er hárrétt eða nauðsynleg í námi og þroska. Að því gefnu að fólk búi ekki við skilyrði sem beinlínis eru ill eða þvingandi má segja að möguleikar mannsandans - þegar kemur að námi og þjálfun - séu margir og fjölbreyttir, hvað sem fortíðinni líður.

Myndir eftir M.C. Escher: World of Escher...