Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvernig myndast nornabaugar eða nornahringir í mosa?

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir

Svokallaðir nornabaugar eða sveppabaugar verða til vegna áhrifa frá þráðum svepps sem liggur í jarðvegi undir mosanum og verður til þess að mosinn yfir sveppnum vex illa eða jafnvel drepst. Þá sést hringur af dauðum eða veikluðum mosa í mosabreiðunni. Á baugnum eða við hann ber sveppurinn síðan aldin sín og eru þau eini hluti sveppsins sem er sýnilegur. Hins vegar sjást þau oftast aðeins í stuttan tíma og baugurinn því oftar en ekki aldinlaus. Því getur verið erfitt að gera sér grein fyrir um hvaða svepp er að ræða.

Skýringin á því að sveppurinn er hringlaga þar sem hann vex efst í jarðvegi er sú að hann er ofinn úr lifandi sveppþráðum sem vaxa í allar áttir út frá miðpunkti. Þræðirnir troða sér sífellt á milli ferskra korna í jarðvegi og komast þannig í æti, en gefa jafnframt frá sér ýmis efni út í jarðveginn og breyta honum. Hvaða efni þetta eru fer eftir því hvaða tegund svepps er um að ræða.

Sveppurinn hefur líklega borist á svæðið þegar gró hans féll í frjóa jörð þar sem nú er miðja hringsins. Gróið hefur spírað þannig að út úr því óx þráðarendi sem greindist hvað eftir annað þar til þráðarendar sveppsins vísuðu út frá miðjunni í allar áttir. Þráðarendarnir hafa svo haldið áfram að þoka sér áfram með stöðugum vexti yfir sumartímann um nokkra sentimetra á ári hverju.

Þvermál alls hringsins fer því eftir aldri og vaxtarhraða sveppsins. Eins og áður sagði er sveppurinn úr þráðum og er hver meðalþráður um 4-10 míkrómetrar í þvermál (en 1000 míkrómetrar eru í einum millimetra). Þræðirnir eru eins og örfín lifandi rör með sterkan vegg yst og frumuhimnu þar innan við og oftast með styrktarlista í formi þverveggja með gati með reglulegu millibili. Um götin í þverveggjunum flæðir frymi og frumulíffæri á milli hólfa í þræðinum. Við gatið er síðan neyðarloka til taks ef svo illa færi að loka þyrfti gatinu.

Um þetta rörakerfi sem sveppurinn í rauninni er, færist svo næring í áttina til vaxtarstaða (þráðarenda) og úrgangur er fluttur til geymslu þar sem minna er um að vera í eldri hlutum þráðanna. Ungur sveppur er fyrst sem hringlaga skífa en svo deyr elsti hlutinn úr elli eins og gengur. Þá verður gat í miðjunni og hringur myndast, fyrst smár en þokast utar og víkkar á hverju ári sem nemur ársvexti sveppþráðanna. Eftir nokkurra áratuga vöxt geta verið komin stór skörð í hringinn og baugurinn orðinn nokkuð beinn. Það sem kemur upp um að þetta sé sveppur er þegar hann ber aldin og hattsveppir eða önnur sveppaldin spretta upp í boga á þessum hring eða baug. Þá fyrst er hægt að sjá á auðveldan hátt hvaða sveppur það er sem myndar bauginn.

Frekari upplýsingar má fá í grein Helga Hallgrímssonar (1987) „Sveppabaugar og huldurendur“ í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands 84:68-80.

Mynd: Hathaway's Virtual Trail

Höfundur

sveppafræðingur, Náttúrufræðistofnun, Akureyrarsetri

Útgáfudagur

22.10.2002

Spyrjandi

Hávarður Tryggvason

Tilvísun

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. „Hvernig myndast nornabaugar eða nornahringir í mosa?“ Vísindavefurinn, 22. október 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2809.

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. (2002, 22. október). Hvernig myndast nornabaugar eða nornahringir í mosa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2809

Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir. „Hvernig myndast nornabaugar eða nornahringir í mosa?“ Vísindavefurinn. 22. okt. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2809>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig myndast nornabaugar eða nornahringir í mosa?
Svokallaðir nornabaugar eða sveppabaugar verða til vegna áhrifa frá þráðum svepps sem liggur í jarðvegi undir mosanum og verður til þess að mosinn yfir sveppnum vex illa eða jafnvel drepst. Þá sést hringur af dauðum eða veikluðum mosa í mosabreiðunni. Á baugnum eða við hann ber sveppurinn síðan aldin sín og eru þau eini hluti sveppsins sem er sýnilegur. Hins vegar sjást þau oftast aðeins í stuttan tíma og baugurinn því oftar en ekki aldinlaus. Því getur verið erfitt að gera sér grein fyrir um hvaða svepp er að ræða.

Skýringin á því að sveppurinn er hringlaga þar sem hann vex efst í jarðvegi er sú að hann er ofinn úr lifandi sveppþráðum sem vaxa í allar áttir út frá miðpunkti. Þræðirnir troða sér sífellt á milli ferskra korna í jarðvegi og komast þannig í æti, en gefa jafnframt frá sér ýmis efni út í jarðveginn og breyta honum. Hvaða efni þetta eru fer eftir því hvaða tegund svepps er um að ræða.

Sveppurinn hefur líklega borist á svæðið þegar gró hans féll í frjóa jörð þar sem nú er miðja hringsins. Gróið hefur spírað þannig að út úr því óx þráðarendi sem greindist hvað eftir annað þar til þráðarendar sveppsins vísuðu út frá miðjunni í allar áttir. Þráðarendarnir hafa svo haldið áfram að þoka sér áfram með stöðugum vexti yfir sumartímann um nokkra sentimetra á ári hverju.

Þvermál alls hringsins fer því eftir aldri og vaxtarhraða sveppsins. Eins og áður sagði er sveppurinn úr þráðum og er hver meðalþráður um 4-10 míkrómetrar í þvermál (en 1000 míkrómetrar eru í einum millimetra). Þræðirnir eru eins og örfín lifandi rör með sterkan vegg yst og frumuhimnu þar innan við og oftast með styrktarlista í formi þverveggja með gati með reglulegu millibili. Um götin í þverveggjunum flæðir frymi og frumulíffæri á milli hólfa í þræðinum. Við gatið er síðan neyðarloka til taks ef svo illa færi að loka þyrfti gatinu.

Um þetta rörakerfi sem sveppurinn í rauninni er, færist svo næring í áttina til vaxtarstaða (þráðarenda) og úrgangur er fluttur til geymslu þar sem minna er um að vera í eldri hlutum þráðanna. Ungur sveppur er fyrst sem hringlaga skífa en svo deyr elsti hlutinn úr elli eins og gengur. Þá verður gat í miðjunni og hringur myndast, fyrst smár en þokast utar og víkkar á hverju ári sem nemur ársvexti sveppþráðanna. Eftir nokkurra áratuga vöxt geta verið komin stór skörð í hringinn og baugurinn orðinn nokkuð beinn. Það sem kemur upp um að þetta sé sveppur er þegar hann ber aldin og hattsveppir eða önnur sveppaldin spretta upp í boga á þessum hring eða baug. Þá fyrst er hægt að sjá á auðveldan hátt hvaða sveppur það er sem myndar bauginn.

Frekari upplýsingar má fá í grein Helga Hallgrímssonar (1987) „Sveppabaugar og huldurendur“ í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands 84:68-80.

Mynd: Hathaway's Virtual Trail...