Elsta fótboltalið í heimi er hið enska Sheffield FC sem var stofnað 24. október árið 1857 í Sheffieldborg. Sheffield FC hafði mikil áhrif á þróun knattspyrnunnar og meðal nýjunga sem félagar þess tóku upp og reyndust farsælar, má nefna hornspyrnur, aukaspyrnur og þverslár – áður hafði aðeins verið strengt reipi, eða borði límdur á milli stanganna.
Sheffield FC var mikill áhrifavaldur í stofnun enska knattspyrnusambandsins (FA, The Football Association) og frumkvöðull í að samræma reglur fótboltans sem höfðu verið mjög staðbundnar langt fram eftir 19. öld á Englandi. Reglubók félagsins er sú elsta í heiminum. Fyrir þetta mikilvæga hlutverk var félagið heiðrað árið 2004 af FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandinu, í tilefni af aldarafmæli sambandsins.
Félagið tók virkan þátt í að útbreiða knattspyrnuíþróttina upp úr miðri 19. öld, og ferðaðist um Bretland til að leika á móti öðrum nýstofnuðum liðum. Árið 1875 hélt Sheffield til Lundúna og mætti London City, í fyrsta leiknum milli borgarliða. Mikla kátínu vakti meðal áhorfenda í höfuðborginni að leikmenn Sheffield skyldu nota höfuðið og skalla boltann – þar var á ferð enn ein nýjungin sem Sheffield gerði að sjálfsögðum hlut í fótbolta.
Þegar tíðkast fór á Englandi að leikmenn fengju greitt fyrir að spila fótbolta í lok 19. aldar, ákvað Sheffield FC að halda sem fastast í hugsjón áhugamennskunnar. Það þýddi hins vegar að vegur félagsins fór hnignandi og þegar enska deildin var sett á fót árið 1888, var Sheffield FC hvergi nærri. Liðið hefur alla tíð haldið sig í utandeildinni og í vetur (2008-2009) leikur það í UniBond-deildarkeppninni í syðri hluta 1. deildar. Stærsta stund Sheffield FC rann upp árið 1904, þegar félagið vann áhugamannabikarinn, FA Amateur Cup. Í kjölfar þess að félagið eignaðist sinn eigin leikvang í fyrsta sinn árið 2001, hefur stefnan svo verið tekin upp á við og nú eru liðsmenn þess hálfatvinnumenn og hafa knattspyrnuiðkun að hlutastarfi. En þótt frami liðsins hafi hingað til ekki verið mikill á velli, á það öruggan sess í sögu knattspyrnunnar.
Elsta atvinnumannafélagið, og um leið það elsta í ensku knattspyrnudeildinni, er Notts County frá Nottingham-borg, sem stofnað var formlega 7. desember 1864. Notts County hafði starfað óformlega frá árinu 1862 og rekur upphaf sitt til þess árs. Keppnistímabilið 2008-2009 leikur liðið í 2. kókdeildinni (Coca-Cola League 2), fjórðu efstu deildinni í Englandi.
Nú eru tvö atvinnumannalið í borginni Sheffield, Sheffield United og Sheffield Wednesday. Fyrsti leikur Sheffield FC var veturinn 1864-1865 við Notts County.
Elsta félagið í Skotlandi er Queen’s Park, stofnað þann 9. júlí 1867. Queen’s Park hefur, líkt og Sheffield FC, haldið tryggð við áhugamennskuna, en það hefur ekki komið í veg fyrir að félagið keppi við atvinnumennina. Keppnistímabilið 2008-2009 leikur Queen’s Park í þriðju efstu deild í Skotlandi, Irn-Bru League Division 2.
Hér er hægt að komast inn á heimasíður nokkurra fótboltafélaga sem nefnd eru í svarinu:
Á vefsíðu Kens Aston, History of the Game Football (skoðað 20.11.2002), má lesa um uppruna fótboltans og upphafsár ensku knattspyrnunnar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hver fann upp fótboltann? eftir Unnar Árnason
- Hver fann upp boltann sem menn nota í fótbolta og hvernig er hann búinn til? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvernig er styrkleikalisti FIFA reiknaður út? eftir JGÞ
- Hvað eru mörg fótboltalandslið í heiminum? eftir Þorstein Gunnar Jónsson
- Dale Johnson, ESPN Soccernet – The original football club.
- Wikipedia.org
- Sheffield FC - The Oldest Football Club In The World
- This is United. Sótt 20.11.2002.
Þetta svar er eftir grunnskólanemanda á námskeiði Vísindavefsins sem haldið er í samvinnu við samtökin Heimili og skóla og Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar vegna bráðgerra barna.