Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyrirbæri?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson

Í Íslenskri orðabók frá 2002 er eftirfarandi skýring gefin á orðinu yfirnáttúrlegur:
sem er (virðist) óháður lögmálum náttúrunnar – yfirskilvitlegur, sem samræmist ekki almennri þekkingu á náttúrulögmálum
Þar sem lögmál náttúru og samfélags eru rauði þráðurinn í vísindum felst þannig nánast í orðunum að svokölluð yfirnáttúrleg fyrirbæri séu einmitt þau sem vísindin geta ekkert sagt um, nema þá það helst að útskýra af hverju viðkomandi fyrirbæri sé yfirnáttúrlegt.

Þrátt fyrir þetta er auðvitað ekkert við því að segja að fólk spyrji vísindamenn og Vísindavefinn um ýmis yfirnáttúrleg fyrirbæri, meðal annars til að fá skýringarnar sem hér voru nefndar. Ef grannt er skoðað má líka sjá að nokkrum spurningum af þessu tagi hefur þegar verið svarað hér á Vísindavefnum. Hins vegar má vel vera að við höfum ekki verið sérlega dugleg að svara þessum spurningum og höfum þannig valdið spyrjendum vonbrigðum. En þetta stafar af því að þessar spurningar eru satt að segja ekkert óskaverkefni vísinda enda er varla hægt að lá vísindamönnum að þeir biðjist undan að fjalla um hluti sem þeir hafa einmitt ekki valið sér að vinna við!

Önnur ástæða til þess að svör af þessu tagi kunna að vera fá er sú að umræða um hluti sem sumir telja yfirnáttúrlega vill oft enda í ófrjóu karpi áður en varir. Þetta stafar meðal annars af því að okkar mati að svör vísindanna eru gefin út frá heildarmynd sem byggist meðal annars á langri þjálfun í vinnubrögðum og hugsanagangi vísinda en á hinn bóginn í umræðunni er oft fólk sem hefur lítil kynni af slíku. Deilur milli fólks eða hópa verða oft sérlega heiftúðugar, leiðinlegar og ófrjóar þegar þeir hafa lítinn sem engan skilning á forsendum hvor annars.

Meðal þeirra spurninga um yfirnáttúrlega hluti sem Vísindavefnum hafa borist en hefur ekki verið svarað fram að þessu má nefna eftirtaldar:

  • Er virkilega hægt að fullsanna að vampírur, varúlfar og yfirnáttúrlegar verur næturinnar séu ekki til?
  • Er eitthvað að marka rithandarfræði eða lófalestur?
  • Hverjar eru taldar hugsanlegar skýringar á sálnaflakki?
  • Er eitthvert mark takandi á spádómum, draumaráðningum og þess háttar?
  • Geta draumar verið viðvörun, ef fleiri en einn dreymir sama drauminn?

Í stuttu máli má segja að þeir “hlutir” sem hér er spurt um falla ekki inn í kerfi vísindanna og lúta ekki þeim lögmálum sem vísindamenn fást við (sjá til dæmis svar við spurningunni Hvað er raunverulegt?). Hvort einhver þessara fyrirbæra eru samt sem áður til í einhverjum skilningi er svo annað mál.

Stundum hafa fylgismenn tiltekinna kenninga um yfirnáttúrleg fyrirbæri haldið því fram að kenningarnar ættu sér vísindalega stoð. Í raun hafa þeir þá neitað því að viðkomandi hlutir eða lögmál væru yfirnáttúrleg. Til dæmis hafa margir áhangendur stjörnuspeki haldið því á lofti að hún væri hávísindaleg. Eins og fram kemur í svari Sævars Helga Bragasonar við spurningunni Eru stjörnuspár sannar? er sú fullyrðing ekki sönn; staðhæfingar stjörnuspeki samrýmast ekki þeirri þekkingu sem stjörnufræðingar og eðlisfræðingar hafa aflað um fyrirbærin sem þar er um fjallað.

Þegar tiltekið efni er kynnt sem vísindi án þess að það standist í raun kröfur vísindanna eða sé í samræmi við þau lögmál sem vísindin miða við er talað um gervivísindi. Misjafnt getur verið hvaða ástæður liggja að baki gervivísindum. Í sumum tilfellum er sennilegt að þeir sem eru að koma efninu á framfæri vilji nota sér það traust sem almenningur hefur á vísindum. Fólk lítur oft á vísindi sem tryggingu fyrir áreiðanleika og því getur verið hagkvæmt að hafa vísindastimpil. Í öðrum tilfellum má ætla að fylgismenn kenningarinnar viti einfaldlega ekki betur en að hún standist vísindalegar kröfur, kannski vegna vanþekkingar á því hvað vísindi eru í raun og veru eða hvernig vísindastarf fer fram.

Að sjálfsögðu getur verið að einhverjar vísindauppgötvanir í framtíðinni eigi eftir að leiða í ljós vísindalegar skýringar á hlutum sem nú á dögum eru ekki meðal þess sem vísindin viðurkenna. Þannig er mögulegt að eitthvað sem í dag er flokkað sem “yfirnáttúrlegt” sé þegar allt kemur til alls ekki yfirnáttúrlegt. Saga vísinda og þekkingar bendir raunar til þess að svo kunni að vera. En svar sem skrifað er í dag getur auðvitað bara tekið mið af þeirri þekkingu sem er til í dag. Í ljósi vísindaþekkingar nútímans viðurkenna vísindamenn engin þeirra fyrirbæra sem spurt er um hér á undan.

Hitt getur líka verið að vísindamenn hafi stundum vísindalegar skýringar á reiðum höndum á hlutum sem sumu fólki virðast yfirnáttúrlegir. Til dæmis væri vísindaleg skýring á hreyfingu andaglass líklega sú að einhver viðstaddra sé í rauninni að færa glasið. Einnig má vel hugsa sér að flókið samspil þeirra sem taka þátt í andaglasinu geti leitt til óvæntra fyrirbæra, án þess að það þurfi að vera yfirnáttúrlegt. Ef fólk er ekki ánægt með slíka skýringu þarf það líklega að leita annað en til vísindamanna.

Að lokum er rétt að geta þess að margir hlutir í okkur og í kringum okkur eru í rauninni stórfurðulegir án þess að þeir þurfi þess vegna að vera yfirnáttúrlegir. Bæði í óravíddum alheimsins og í innviðum smæstu efniseinda finnum við mörg undrunarefni og ekki síður í furðum lífs og dauða, samfélags og mannlegrar hegðunar. Við höfum þannig alveg nóg af tilefnum til að rækta forvitni okkar og velta fyrir okkur hinu óvænta án þess að leita á náðir hins yfirnáttúrlega.

Mynd: SandlotScience.com

Höfundar

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

21.1.2003

Spyrjandi

Ýmsir spyrjendur

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyrirbæri?“ Vísindavefurinn, 21. janúar 2003. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3026.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 21. janúar). Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyrirbæri? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3026

Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyrirbæri?“ Vísindavefurinn. 21. jan. 2003. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3026>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað segja vísindin um yfirnáttúrleg fyrirbæri?
Í Íslenskri orðabók frá 2002 er eftirfarandi skýring gefin á orðinu yfirnáttúrlegur:

sem er (virðist) óháður lögmálum náttúrunnar – yfirskilvitlegur, sem samræmist ekki almennri þekkingu á náttúrulögmálum
Þar sem lögmál náttúru og samfélags eru rauði þráðurinn í vísindum felst þannig nánast í orðunum að svokölluð yfirnáttúrleg fyrirbæri séu einmitt þau sem vísindin geta ekkert sagt um, nema þá það helst að útskýra af hverju viðkomandi fyrirbæri sé yfirnáttúrlegt.

Þrátt fyrir þetta er auðvitað ekkert við því að segja að fólk spyrji vísindamenn og Vísindavefinn um ýmis yfirnáttúrleg fyrirbæri, meðal annars til að fá skýringarnar sem hér voru nefndar. Ef grannt er skoðað má líka sjá að nokkrum spurningum af þessu tagi hefur þegar verið svarað hér á Vísindavefnum. Hins vegar má vel vera að við höfum ekki verið sérlega dugleg að svara þessum spurningum og höfum þannig valdið spyrjendum vonbrigðum. En þetta stafar af því að þessar spurningar eru satt að segja ekkert óskaverkefni vísinda enda er varla hægt að lá vísindamönnum að þeir biðjist undan að fjalla um hluti sem þeir hafa einmitt ekki valið sér að vinna við!

Önnur ástæða til þess að svör af þessu tagi kunna að vera fá er sú að umræða um hluti sem sumir telja yfirnáttúrlega vill oft enda í ófrjóu karpi áður en varir. Þetta stafar meðal annars af því að okkar mati að svör vísindanna eru gefin út frá heildarmynd sem byggist meðal annars á langri þjálfun í vinnubrögðum og hugsanagangi vísinda en á hinn bóginn í umræðunni er oft fólk sem hefur lítil kynni af slíku. Deilur milli fólks eða hópa verða oft sérlega heiftúðugar, leiðinlegar og ófrjóar þegar þeir hafa lítinn sem engan skilning á forsendum hvor annars.

Meðal þeirra spurninga um yfirnáttúrlega hluti sem Vísindavefnum hafa borist en hefur ekki verið svarað fram að þessu má nefna eftirtaldar:

  • Er virkilega hægt að fullsanna að vampírur, varúlfar og yfirnáttúrlegar verur næturinnar séu ekki til?
  • Er eitthvað að marka rithandarfræði eða lófalestur?
  • Hverjar eru taldar hugsanlegar skýringar á sálnaflakki?
  • Er eitthvert mark takandi á spádómum, draumaráðningum og þess háttar?
  • Geta draumar verið viðvörun, ef fleiri en einn dreymir sama drauminn?

Í stuttu máli má segja að þeir “hlutir” sem hér er spurt um falla ekki inn í kerfi vísindanna og lúta ekki þeim lögmálum sem vísindamenn fást við (sjá til dæmis svar við spurningunni Hvað er raunverulegt?). Hvort einhver þessara fyrirbæra eru samt sem áður til í einhverjum skilningi er svo annað mál.

Stundum hafa fylgismenn tiltekinna kenninga um yfirnáttúrleg fyrirbæri haldið því fram að kenningarnar ættu sér vísindalega stoð. Í raun hafa þeir þá neitað því að viðkomandi hlutir eða lögmál væru yfirnáttúrleg. Til dæmis hafa margir áhangendur stjörnuspeki haldið því á lofti að hún væri hávísindaleg. Eins og fram kemur í svari Sævars Helga Bragasonar við spurningunni Eru stjörnuspár sannar? er sú fullyrðing ekki sönn; staðhæfingar stjörnuspeki samrýmast ekki þeirri þekkingu sem stjörnufræðingar og eðlisfræðingar hafa aflað um fyrirbærin sem þar er um fjallað.

Þegar tiltekið efni er kynnt sem vísindi án þess að það standist í raun kröfur vísindanna eða sé í samræmi við þau lögmál sem vísindin miða við er talað um gervivísindi. Misjafnt getur verið hvaða ástæður liggja að baki gervivísindum. Í sumum tilfellum er sennilegt að þeir sem eru að koma efninu á framfæri vilji nota sér það traust sem almenningur hefur á vísindum. Fólk lítur oft á vísindi sem tryggingu fyrir áreiðanleika og því getur verið hagkvæmt að hafa vísindastimpil. Í öðrum tilfellum má ætla að fylgismenn kenningarinnar viti einfaldlega ekki betur en að hún standist vísindalegar kröfur, kannski vegna vanþekkingar á því hvað vísindi eru í raun og veru eða hvernig vísindastarf fer fram.

Að sjálfsögðu getur verið að einhverjar vísindauppgötvanir í framtíðinni eigi eftir að leiða í ljós vísindalegar skýringar á hlutum sem nú á dögum eru ekki meðal þess sem vísindin viðurkenna. Þannig er mögulegt að eitthvað sem í dag er flokkað sem “yfirnáttúrlegt” sé þegar allt kemur til alls ekki yfirnáttúrlegt. Saga vísinda og þekkingar bendir raunar til þess að svo kunni að vera. En svar sem skrifað er í dag getur auðvitað bara tekið mið af þeirri þekkingu sem er til í dag. Í ljósi vísindaþekkingar nútímans viðurkenna vísindamenn engin þeirra fyrirbæra sem spurt er um hér á undan.

Hitt getur líka verið að vísindamenn hafi stundum vísindalegar skýringar á reiðum höndum á hlutum sem sumu fólki virðast yfirnáttúrlegir. Til dæmis væri vísindaleg skýring á hreyfingu andaglass líklega sú að einhver viðstaddra sé í rauninni að færa glasið. Einnig má vel hugsa sér að flókið samspil þeirra sem taka þátt í andaglasinu geti leitt til óvæntra fyrirbæra, án þess að það þurfi að vera yfirnáttúrlegt. Ef fólk er ekki ánægt með slíka skýringu þarf það líklega að leita annað en til vísindamanna.

Að lokum er rétt að geta þess að margir hlutir í okkur og í kringum okkur eru í rauninni stórfurðulegir án þess að þeir þurfi þess vegna að vera yfirnáttúrlegir. Bæði í óravíddum alheimsins og í innviðum smæstu efniseinda finnum við mörg undrunarefni og ekki síður í furðum lífs og dauða, samfélags og mannlegrar hegðunar. Við höfum þannig alveg nóg af tilefnum til að rækta forvitni okkar og velta fyrir okkur hinu óvænta án þess að leita á náðir hins yfirnáttúrlega.

Mynd: SandlotScience.com...