Rannsóknir á lífeðlisfræðilegum þáttum í sambandi við svefninn benda til þess að hann sé á einhvern hátt hreinsandi, meðan á honum stendur losum við okkur við margs konar úrgangsefni sem myndast við efnaskipti líkamans í vökuástandi (svo sem mjólkursýru). Ennfremur hefur komið í ljós að magn vaxtarhormónsins sómatótrópíns stóreykst í blóði okkar í svefni en það stjórnar viðgerðum á vefjum okkar. Svefninn kemur einnig á ákveðnu jafnvægi í efnabúskap líkamans. Mun fleiri lífeðlisfræðilegir þættir hafa verið nefndir, sérstaklega áhrif á miðtaugakerfið.
Við þekkjum það öll, þegar við höfum ekki fengið nægan svefn, að upplifa pirring, ýmsar skynvillur og jafnvel að tapa áttum við ofsaþreytu. Þetta eru ekkert annað en lífeðlisfræðilegar breytingar í líkama okkar þegar svefninn kallar á okkur. Staðfest hefur verið í rannsóknum að líklega sofa öll spendýr og fuglar. Mælingar á heilastarfsemi annarra dýra benda til þess að þau gangi einnig í gegnum einhvers konar svefnástand. Rannsóknir á skriðdýrum sýna líkar breytingar á heilastarfsemi og fylgja þeim einnig breytingar á atferli. Eins hafa komið fram sterkar vísbendingar um svefn hjá liðfætlum (Arthropoda) og lindýrum (Mollusca).
Þess vegna má halda því fram, út frá dreifingarmynstri svefns í dýraríkinu, að þetta líffræðilega fyrirbæri hafi komið snemma fram í þróunarsögu dýra og gegni lykilhlutverki í lífeðlisfræðilegu heilbrigði þeirra, sérstaklega af rannsóknum á spendýrum að dæma.
Óhætt er að fullyrða að mörghundruð milljón ára þróun lífs hafi ekki leitt af sér „æðra“ dýr sem ekki þarf á svefni að halda. Hinsvegar eru vísindamenn að átta sig æ betur á hversu lífsnauðsynlegur svefn er öllum dýrum.
Á Vísindavefnum er að finna fjölmörg svör um svefn bæði dýra og manna. Hægt er að nálgast þau með því að smella á efnisorð neðst á síðunni.
Heimildir og mynd:
- Basics of Sleep Behaviour á vefsíðunni Sleep Home Pages
- Sleep and Dreams á vefsíðunni Biology Online - Information in the Life Sciences
- Um svefn og vaxtarhormón á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Mynd af vefsíðunni Practical Pet Care