Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hver var þessi Murphy sem lögmál Murphys er kennt við?

Unnar Árnason

Hið svonefnda lögmál Murphys (e. Murphy's Law) hljóðar svona á ensku:
If anything can go wrong, it will.
Á íslensku er hefð fyrir því að þýða það eitthvað á þessa leið:
Ef eitthvað getur farið úrskeiðis, mun það gera það.

Nokkrar tilgátur er á kreiki um hvers vegna lögmál þetta var eignað manni að nafni Murphy og einnig hvaða Murphy. Ein tilgáta stendur þó upp úr og býður upp á öruggustu heimildirnar. Hún segir að hinn rétti Murphy hafi verið verkfræðingur á herstöð bandaríska flughersins í Kaliforníufylki, Edwards Air Force Base, kafteinn að nafni Edward A. Murphy. Murphy þessi vann við verkefni árið 1949 þar sem kannað var hversu mikla hröðun (e. acceleration) eða afhröðun (e. deceleration, andstæðuna við hröðun) manneskja gæti þolað. Eftir að hafa tekið eftir því dag einn að umbreytir (ferjald, e. transducer) hafði verið tengdur vitlaust, blótaði Murphy tæknimanninum sem var ábyrgur fyrir mistökunum með þessum orðum: „If there is any way to do it wrong, he'll find it.“ (Ef einhver leið er til að gera hlutina vitlaust, þá finnur hann hana).



Mynd frá hröðunartilraun, svipaðri þeirri sem varð
uppspretta að lögmáli Murphys.

Stjórnandi verkefnisins hafði fyrir sið að safna „lögmálum“ af þessu tagi. Hann umorðaði setningu Murphys eins og sýnt er fremst í svarinu, bætti í lögmálasafnið og gaf henni nafn hans. Stuttu síðar var haldinn blaðamannafundur á herstöðinni þar sem hröðunarverkefnið var kynnt og meðal annars haldið á lofti hversu vel hefði gengið að gæta öryggis manna við tilraunirnar. Umsjónarlæknir verkefnisins, og sá sem gekkst raunar undir flestar tilraunirnar, John Paul Stapp, sagði blaðamönnunum að þennan góða árangur bæri að þakka lögmáli Murphys og viðleitninni við að komast framhjá því. Flugvélaframleiðendur gripu lögmálið á lofti og nýttu sér við auglýsingagerð. Þaðan barst það svo yfir í frétta- og tímaritsgreinar og varð að máltækinu, „lögmálinu“, sem við þekkjum.

Aðrar tilgátur um lögmálið og tengsl þess við nafnið Murphy, hljóma ekki eins sannfærandi og tilgreina sjaldnast ákveðinn Murphy. Þær segja sumar frá einstaklega óheppnum Murphy sem reynt hafi að gera allt rétt en samt hafi flest farið úrskeiðis. Flestar tilgáturnar, líka sú sem hér var lýst, eiga það sameiginlegt að viðurkenna að lögmálið sjálft sé gamalt og aðeins tilviljun að nafnið Murphy tengist því.

Rétt er þó að nefna sérstaklega að Englendingar tengja lögmálið Írum. Nafnið Murphy er írskt að uppruna og hjá Englendingum eru Írar í hálfkæringi oft taldir holdgervingar heimsku og kæruleysis, svipað og Hafnfirðingar í Hafnarfjarðarbröndurum, en væntanlega trúir enginn því í alvöru hér á landi að Hafnfirðingar séu heimskari en aðrir landsmenn. Það að nefna lögmálið eftir Murphy hefur því sérstaka aukamerkingu í Englandi og tengist nágrannakrit milli ólíkra þjóða á Bretlandseyjum.



Læknirinn John Paul Stapp var sem fyrr segir að öllum líkindum fyrstur til að minnast á lögmál Murphys í fjölmiðlum. Stapp var umsjónarlæknir hröðunarrannsóknarinnar en lét sér það ekki nægja heldur bauð sig sjálfan fram í flestar tilraunirnar til að sanna hversu mikla hröðun manneskja gæti þolað. Svo langt gekk Stapp að hann á metið í hröðun sem nokkur maður hefur viljugur gengist undir. Hann náði hröðuninni 45 g en hún jafngildir þyngdarkrafti sem er 45 sinnum þyngdarafl jarðar.



Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:

Höfundur

Unnar Árnason

bókmenntafræðingur

Útgáfudagur

21.10.2003

Spyrjandi

Páll Þór Sigurjónsson, f. 1986

Tilvísun

Unnar Árnason. „Hver var þessi Murphy sem lögmál Murphys er kennt við?“ Vísindavefurinn, 21. október 2003. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3810.

Unnar Árnason. (2003, 21. október). Hver var þessi Murphy sem lögmál Murphys er kennt við? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3810

Unnar Árnason. „Hver var þessi Murphy sem lögmál Murphys er kennt við?“ Vísindavefurinn. 21. okt. 2003. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3810>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var þessi Murphy sem lögmál Murphys er kennt við?
Hið svonefnda lögmál Murphys (e. Murphy's Law) hljóðar svona á ensku:

If anything can go wrong, it will.
Á íslensku er hefð fyrir því að þýða það eitthvað á þessa leið:
Ef eitthvað getur farið úrskeiðis, mun það gera það.

Nokkrar tilgátur er á kreiki um hvers vegna lögmál þetta var eignað manni að nafni Murphy og einnig hvaða Murphy. Ein tilgáta stendur þó upp úr og býður upp á öruggustu heimildirnar. Hún segir að hinn rétti Murphy hafi verið verkfræðingur á herstöð bandaríska flughersins í Kaliforníufylki, Edwards Air Force Base, kafteinn að nafni Edward A. Murphy. Murphy þessi vann við verkefni árið 1949 þar sem kannað var hversu mikla hröðun (e. acceleration) eða afhröðun (e. deceleration, andstæðuna við hröðun) manneskja gæti þolað. Eftir að hafa tekið eftir því dag einn að umbreytir (ferjald, e. transducer) hafði verið tengdur vitlaust, blótaði Murphy tæknimanninum sem var ábyrgur fyrir mistökunum með þessum orðum: „If there is any way to do it wrong, he'll find it.“ (Ef einhver leið er til að gera hlutina vitlaust, þá finnur hann hana).



Mynd frá hröðunartilraun, svipaðri þeirri sem varð
uppspretta að lögmáli Murphys.

Stjórnandi verkefnisins hafði fyrir sið að safna „lögmálum“ af þessu tagi. Hann umorðaði setningu Murphys eins og sýnt er fremst í svarinu, bætti í lögmálasafnið og gaf henni nafn hans. Stuttu síðar var haldinn blaðamannafundur á herstöðinni þar sem hröðunarverkefnið var kynnt og meðal annars haldið á lofti hversu vel hefði gengið að gæta öryggis manna við tilraunirnar. Umsjónarlæknir verkefnisins, og sá sem gekkst raunar undir flestar tilraunirnar, John Paul Stapp, sagði blaðamönnunum að þennan góða árangur bæri að þakka lögmáli Murphys og viðleitninni við að komast framhjá því. Flugvélaframleiðendur gripu lögmálið á lofti og nýttu sér við auglýsingagerð. Þaðan barst það svo yfir í frétta- og tímaritsgreinar og varð að máltækinu, „lögmálinu“, sem við þekkjum.

Aðrar tilgátur um lögmálið og tengsl þess við nafnið Murphy, hljóma ekki eins sannfærandi og tilgreina sjaldnast ákveðinn Murphy. Þær segja sumar frá einstaklega óheppnum Murphy sem reynt hafi að gera allt rétt en samt hafi flest farið úrskeiðis. Flestar tilgáturnar, líka sú sem hér var lýst, eiga það sameiginlegt að viðurkenna að lögmálið sjálft sé gamalt og aðeins tilviljun að nafnið Murphy tengist því.

Rétt er þó að nefna sérstaklega að Englendingar tengja lögmálið Írum. Nafnið Murphy er írskt að uppruna og hjá Englendingum eru Írar í hálfkæringi oft taldir holdgervingar heimsku og kæruleysis, svipað og Hafnfirðingar í Hafnarfjarðarbröndurum, en væntanlega trúir enginn því í alvöru hér á landi að Hafnfirðingar séu heimskari en aðrir landsmenn. Það að nefna lögmálið eftir Murphy hefur því sérstaka aukamerkingu í Englandi og tengist nágrannakrit milli ólíkra þjóða á Bretlandseyjum.



Læknirinn John Paul Stapp var sem fyrr segir að öllum líkindum fyrstur til að minnast á lögmál Murphys í fjölmiðlum. Stapp var umsjónarlæknir hröðunarrannsóknarinnar en lét sér það ekki nægja heldur bauð sig sjálfan fram í flestar tilraunirnar til að sanna hversu mikla hröðun manneskja gæti þolað. Svo langt gekk Stapp að hann á metið í hröðun sem nokkur maður hefur viljugur gengist undir. Hann náði hröðuninni 45 g en hún jafngildir þyngdarkrafti sem er 45 sinnum þyngdarafl jarðar.



Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd:...