Árlega greinast um 1.100 einstaklingar með krabbamein á Íslandi eins og lesa má um í öðru svari sama höfundar.
Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengast meðal karla og krabbamein í brjóstum er algengast hjá konum. Lungnakrabbamein er með næst hæst nýgengi hjá báðum kynjum og í þriðja sæti er krabbamein í ristli. Þegar krabbameinsskráning hófst á landinu árið 1954 var krabbamein í maga í efsta sæti hjá körlum en er nú komið niður í 6. sæti.
Lífshorfur eru mismunandi fyrir hin ýmsu mein og margir einstaklingar læknast eins og lesa má um í svari Helgu Ögmundsdóttur við spurningunni Er allt krabbamein lífshættulegt?Í árslok 2004 voru um 9.000 einstaklingar á lífi sem höfðu einhvern tímann fengið krabbameinsgreiningu. Þar af höfðu yfir 33% karla greinst með mein í blöðruhálskirtli og yfir 35% kvenna greinst með mein í brjósti, en batahorfur eru góðar hjá þeim sem greinast með þessar tegundir krabbameina. Hins vegar voru einstaklingar sem höfðu greinst með lungnakrabbamein aðeins um 3% þeirra sem voru enn á lífi því horfurnar eru slæmar fyrir þetta tíðasta reykingartengda mein. Nánari upplýsingar um nýgengi og algengi hinna ýmsu krabbameina er að finna í ársskýrslu Krabbameinsfélags Íslands á heimasíðu félagsins www.krabb.is. Mynd: YourMedicalSource