Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvað er slangur gamalt fyrirbrigði?

Guðrún Kvaran

Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað átt er við með orðinu slangur. Það nær yfir óformlegt orðfæri sem er frábrugðið viðurkenndu málsniði. Slanguryrðin eru oft tengd ákveðnum hópum í samfélaginu sem nota þau sem sitt sérstaka mál. Slangur einkennist af óvenjulegri orðmyndun, orðaleikjum og myndmáli og er fyrst og fremst talmál. Einmitt vegna þess er erfitt að svara þeirri spurningu hversu gamalt slangur sé í málinu. Gera má ráð fyrir að slanguryrði hafi lengi verið til en þar sem þau komast seint eða ekki á prent er erfitt að leita slík orð uppi eftir á.

Eitt einkenni slanguryrða er einmitt að þau úreldast fljótt. Árið 1982 var fyrsta slangurorðabókin gefin út hérlendis, Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Margt í þeirri bók er nú, rúmum tuttugu árum síðar, horfið í gleymsku og annað slangur er notað í dag. Sem dæmi má nefna að orðið sardína 'lögreglubíll' þekkist varla í dag, en sögnin að dissa einhvern 'vera á móti einhverjum' er tiltölulega ný.

Hátt í öld er liðin síðan málræktarmenn tóku að finna að slangri í máli. Guðmundur Finnbogason virðist fyrstur hafa notað orðin slanguryrði og slangurmál í bókinni Íslendingar (1933:152):

Það mun vera orðgnótt, frjósemi og formfestu íslenzkunnar að þakka, að í henni hefir jafnan kveðið lítið að slanguryrðum (slang). Eins og prófessor Jespersen sýnir fram á, er slangurmálið sprottið af því, að menn verða leiðir á hversdagslegum orðum og gera sér því leik að því að bregða út af málvenjunni, með því að mynda ný orð og orðtök, er stinga í stúf við daglegt mál, stundum jafnframt til þess að vera ekki eins og aðrir. ... En yfirleitt kveður mjög lítið að slíku, og sízt kemur það fyrir í rituðu máli. Orðaforðinn, sem fyrir er, og nýyrði af íslenzkum rótum með gömlum endingum hafa nægt mönnum til að segja það, sem þeir vildu sagt hafa.

Af orðum Guðmundar má vel ráða að slanguryrði hafi ekki verið áberandi í máli um 1930. Það segir þó ekki alla sögu. Unglingar og ákveðnir hópar í þá daga hafa vel getað átt sitt mál þótt allur almenningur hafi ekki þekkt það. Þeir sem fást við að skoða sögu orðaforðans þekkja vel að alger tilviljun ræður því oftast að gamalt slanguryrði kemur fram í dagsljósið.

Hægt er að lesa fleiri svör um tengd efni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

Höfundur

Guðrún Kvaran

prófessor

Útgáfudagur

16.8.2004

Spyrjandi

Eva Símonardóttir

Tilvísun

Guðrún Kvaran. „Hvað er slangur gamalt fyrirbrigði?“ Vísindavefurinn, 16. ágúst 2004. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4464.

Guðrún Kvaran. (2004, 16. ágúst). Hvað er slangur gamalt fyrirbrigði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4464

Guðrún Kvaran. „Hvað er slangur gamalt fyrirbrigði?“ Vísindavefurinn. 16. ágú. 2004. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4464>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er slangur gamalt fyrirbrigði?
Erfitt er að skilgreina nákvæmlega hvað átt er við með orðinu slangur. Það nær yfir óformlegt orðfæri sem er frábrugðið viðurkenndu málsniði. Slanguryrðin eru oft tengd ákveðnum hópum í samfélaginu sem nota þau sem sitt sérstaka mál. Slangur einkennist af óvenjulegri orðmyndun, orðaleikjum og myndmáli og er fyrst og fremst talmál. Einmitt vegna þess er erfitt að svara þeirri spurningu hversu gamalt slangur sé í málinu. Gera má ráð fyrir að slanguryrði hafi lengi verið til en þar sem þau komast seint eða ekki á prent er erfitt að leita slík orð uppi eftir á.

Eitt einkenni slanguryrða er einmitt að þau úreldast fljótt. Árið 1982 var fyrsta slangurorðabókin gefin út hérlendis, Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Margt í þeirri bók er nú, rúmum tuttugu árum síðar, horfið í gleymsku og annað slangur er notað í dag. Sem dæmi má nefna að orðið sardína 'lögreglubíll' þekkist varla í dag, en sögnin að dissa einhvern 'vera á móti einhverjum' er tiltölulega ný.

Hátt í öld er liðin síðan málræktarmenn tóku að finna að slangri í máli. Guðmundur Finnbogason virðist fyrstur hafa notað orðin slanguryrði og slangurmál í bókinni Íslendingar (1933:152):

Það mun vera orðgnótt, frjósemi og formfestu íslenzkunnar að þakka, að í henni hefir jafnan kveðið lítið að slanguryrðum (slang). Eins og prófessor Jespersen sýnir fram á, er slangurmálið sprottið af því, að menn verða leiðir á hversdagslegum orðum og gera sér því leik að því að bregða út af málvenjunni, með því að mynda ný orð og orðtök, er stinga í stúf við daglegt mál, stundum jafnframt til þess að vera ekki eins og aðrir. ... En yfirleitt kveður mjög lítið að slíku, og sízt kemur það fyrir í rituðu máli. Orðaforðinn, sem fyrir er, og nýyrði af íslenzkum rótum með gömlum endingum hafa nægt mönnum til að segja það, sem þeir vildu sagt hafa.

Af orðum Guðmundar má vel ráða að slanguryrði hafi ekki verið áberandi í máli um 1930. Það segir þó ekki alla sögu. Unglingar og ákveðnir hópar í þá daga hafa vel getað átt sitt mál þótt allur almenningur hafi ekki þekkt það. Þeir sem fást við að skoða sögu orðaforðans þekkja vel að alger tilviljun ræður því oftast að gamalt slanguryrði kemur fram í dagsljósið.

Hægt er að lesa fleiri svör um tengd efni á Vísindavefnum eftir sama höfund:

...