Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er eyrnabólga barna?

Þórólfur Guðnason

Miðeyrnabólga, sem í daglegu tali kallast eyrnabólga, er bólga í slímhimnu miðeyrans af völdum bakteríusýkingar og er hún mun algengari hjá börnum en fullorðnum.

Miðeyrað er loftfyllt holrúm á milli hljóðhimnunnar og innra eyrans. Kokhlustin er loftrás sem liggur á milli miðeyrans og nefkoksins og sér til þess að loftflæði þarna á milli sé með eðlilegum hætti og að vökvi úr miðeyranu komist niður í kok. Stíflist kokhlustin eykst hættan á eyrnabólgu þar sem þá myndast kjöraðstæður fyrir bakteríur til að fjölga sér.



Miðeyrnabólga kemur oft í kjölfar sýkingar í nefkoki. Sýkingin berst í gegnum kokhlustina frá nefkokinu til miðeyrans. Hættan á eyrnabólgu er mest þegar kokhlustin er stífluð eins og áður var nefnt, eða lítil eins og hjá börnum.

Algengustu orsakir miðeyrnabólgu eru kvef (sem oft stíflar kokhlustina), bólgnir separ (polypar) í nefi/nefkoki eða stórir nefkirtlar, inflúensa, barnasjúkdómar og bólga í afholum nefs (skútum) eins og til dæmis kinnholubólga

Helstu einkenni miðeyrnabólgu eru verkur og þrýstingur í eyra, minni heyrn, pirringur (sem getur verið eina sjáanlega einkennið hjá ungbörnum sem geta ekki tjáð sig) og jafnvel hiti. Ef hljóðhimnan springur getur komið útferð úr eyranu. Ef ungabörn fá tíðar eyrnabólgur er mikilvægt að fylgjast með heyrninni.

Til þess að draga úr líkum á miðeyrnabólgu er mikilvægt að reykja ekki á heimilinu þar sem reykingar auka hættuna á eyrnabólgu. Hugsanlegt er að þær valdi minni virkni bifháranna sem eiga að sjá um að losa eyrað við slím. Æskilegt er að börn sem fá tíðar eyrnabólgur séu ekki í vistun innan um mjög mörg börn. Það dregur úr sýkingartíðni í efri öndunarvegi (eins og kvefi) og minnkar þar með hættuna á eyrnabólgu.



Mögulegur fylgikvilli miðeyrnabólgu er bólga í beini bak við eyrað og getur það verið mjög hættulegt. Í örfáum tilfellum getur eyrnabólga einnig valdið heilahimnubólgu. Heyrnartap sem getur fylgt eyrnabólgu ætti einungis að vera tímabundið, en getur orðið langvinnt við tíðar eyrnabólgur og þar af leiðandi valdið því að málþroska seinkar hjá börnum.

Sársaukinn sem stundum fylgir miðeyrnabólgu getur verið óbærilegur og því eru væg verkjastillandi lyf mikilvæg fyrir börn. Annað hvort er um að ræða lyf í fljótandi formi eða stílar sem gefnir eru í endaþarminn. Rétt er að fá ráðleggingar læknis varðandi notkun þeirra. Læknir metur einnig hvort þörf er á sýklalyfjagjöf. Við tíðar eyrnabólgur er í sumum tilfellum stungið á og jafnvel sett rör í hljóðhimnuna til að hleypa vökvanum frá miðeyranu út. Einnig dregur kirtlataka hjá börnum sem oft fá eyrnabólgur úr tíðni þeirra í sumum tilfellum.

Myndir: University of Maryland Medicine

Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun Þórólfs Guðnasonar barnalæknis um miðeyrnabólgu á Doktor.is og birt hér með góðfúslegu leyfi vefsetursins.

Höfundur

Þórólfur Guðnason

fyrrverandi sóttvarnalæknir

Útgáfudagur

10.11.2004

Spyrjandi

Arna Kristjánsdóttir

Tilvísun

Þórólfur Guðnason. „Hvað er eyrnabólga barna?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2004. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4604.

Þórólfur Guðnason. (2004, 10. nóvember). Hvað er eyrnabólga barna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4604

Þórólfur Guðnason. „Hvað er eyrnabólga barna?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2004. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4604>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er eyrnabólga barna?
Miðeyrnabólga, sem í daglegu tali kallast eyrnabólga, er bólga í slímhimnu miðeyrans af völdum bakteríusýkingar og er hún mun algengari hjá börnum en fullorðnum.

Miðeyrað er loftfyllt holrúm á milli hljóðhimnunnar og innra eyrans. Kokhlustin er loftrás sem liggur á milli miðeyrans og nefkoksins og sér til þess að loftflæði þarna á milli sé með eðlilegum hætti og að vökvi úr miðeyranu komist niður í kok. Stíflist kokhlustin eykst hættan á eyrnabólgu þar sem þá myndast kjöraðstæður fyrir bakteríur til að fjölga sér.



Miðeyrnabólga kemur oft í kjölfar sýkingar í nefkoki. Sýkingin berst í gegnum kokhlustina frá nefkokinu til miðeyrans. Hættan á eyrnabólgu er mest þegar kokhlustin er stífluð eins og áður var nefnt, eða lítil eins og hjá börnum.

Algengustu orsakir miðeyrnabólgu eru kvef (sem oft stíflar kokhlustina), bólgnir separ (polypar) í nefi/nefkoki eða stórir nefkirtlar, inflúensa, barnasjúkdómar og bólga í afholum nefs (skútum) eins og til dæmis kinnholubólga

Helstu einkenni miðeyrnabólgu eru verkur og þrýstingur í eyra, minni heyrn, pirringur (sem getur verið eina sjáanlega einkennið hjá ungbörnum sem geta ekki tjáð sig) og jafnvel hiti. Ef hljóðhimnan springur getur komið útferð úr eyranu. Ef ungabörn fá tíðar eyrnabólgur er mikilvægt að fylgjast með heyrninni.

Til þess að draga úr líkum á miðeyrnabólgu er mikilvægt að reykja ekki á heimilinu þar sem reykingar auka hættuna á eyrnabólgu. Hugsanlegt er að þær valdi minni virkni bifháranna sem eiga að sjá um að losa eyrað við slím. Æskilegt er að börn sem fá tíðar eyrnabólgur séu ekki í vistun innan um mjög mörg börn. Það dregur úr sýkingartíðni í efri öndunarvegi (eins og kvefi) og minnkar þar með hættuna á eyrnabólgu.



Mögulegur fylgikvilli miðeyrnabólgu er bólga í beini bak við eyrað og getur það verið mjög hættulegt. Í örfáum tilfellum getur eyrnabólga einnig valdið heilahimnubólgu. Heyrnartap sem getur fylgt eyrnabólgu ætti einungis að vera tímabundið, en getur orðið langvinnt við tíðar eyrnabólgur og þar af leiðandi valdið því að málþroska seinkar hjá börnum.

Sársaukinn sem stundum fylgir miðeyrnabólgu getur verið óbærilegur og því eru væg verkjastillandi lyf mikilvæg fyrir börn. Annað hvort er um að ræða lyf í fljótandi formi eða stílar sem gefnir eru í endaþarminn. Rétt er að fá ráðleggingar læknis varðandi notkun þeirra. Læknir metur einnig hvort þörf er á sýklalyfjagjöf. Við tíðar eyrnabólgur er í sumum tilfellum stungið á og jafnvel sett rör í hljóðhimnuna til að hleypa vökvanum frá miðeyranu út. Einnig dregur kirtlataka hjá börnum sem oft fá eyrnabólgur úr tíðni þeirra í sumum tilfellum.

Myndir: University of Maryland Medicine

Þetta svar er stytt útgáfa af umfjöllun Þórólfs Guðnasonar barnalæknis um miðeyrnabólgu á Doktor.is og birt hér með góðfúslegu leyfi vefsetursins.

...