Ég býst ekki við því að spyrjandi trúi öllu sem sagt er við hann dags daglega. Ég vona sannarlega að hann trúi til dæmis ekki að hann fái kraft úr kókómjólk eða að mamma hans sé alvitur. Heilmargt bull kemur af vörum lítilla barna og ef til vill aðeins minna frá þeim sem eldri eru. Það er einfaldlega ekki hægt að treysta öllu sem manni er sagt.
Enn meira vandamál er að dæma um hvort efni á veraldarvefnum sé áreiðanlegt; yfirleitt er engin leið til að sjá viðmælandann og draga ályktanir um hversu mikið vit hann gæti haft á viðfangsefninu. Að sjálfsögðu getur slíkt mat verið villandi, en í það minnsta eru upplýsingar á veraldarvefnum ekki líklegri til að standast kröfur um áreiðanleika en þær sem finna má annars staðar.
Nú er spyrjandi væntanlega að velta fyrir sér hvort hann eigi að trúa þessu svari, og svarið verður að vera já til að skapa ekki lygaraþversögnina (“Ég er lygari”). Einnig má benda á svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Er allt rétt sem þið svarið á Vísindavefnum?
Nokkrar alfræðiorðabækur sem finna má á vefnum ættu að teljast áreiðanlegar nema spyrjandi sé mikið fyrir samsæriskenningar (ef til vill er veraldarvefurinn í raun samsæri gegn spyrjanda þar sem reynt er að villa um fyrir honum með röngum upplýsingum):
- Britannica alfræðiorðabókin:
http://search.eb.com - Colombia alfræðiorðabókin:
http://www.infoplease.com/encyclopedia - Encarta alfræðiorðabókin:
http://encarta.msn.com - Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin:
http://www.wikipedia.org
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.