Andrómeda-vetrarbrautin er næsta stóra vetrarbrautin við vetrarbrautina okkar. Við góð skilyrði sést hún sem daufur þokublettur á næturhimninum í stjörnumerkinu Andrómedu, sem hún dregur nafn sitt af. Stjörnufræðingar nefna Andrómedu-vetrarbrautina oft M31 eða NGC 224 og er hún í um 2,8 milljón ljósára fjarlægð frá vetrarbrautinni okkar. Andrómeda-vetrarbrautin er svokölluð þyrilvetrarbraut sem inniheldur líklega yfir 400 milljarða stjarna og er hún 200 þúsund ljósár í þvermál. Hún er því ríflega helmingi stærri en vetrarbrautin sem við búum í.
Þar sem Andrómeda-vetrarbrautin sést með berum augum hefur hún þekkst mjög lengi. Ekkert var þó vitað hvers konar stjörnuþoku væri um að ræða fyrr en skömmu eftir 1920 þegar bandaríski stjörnufræðingurinn Edwin Powell Hubble komst að því að hún var sambærileg vetrarbrautinni okkar. Hubblesjónaukinn frægi er einmitt kenndur við þennan stjörnufræðing.
Heimildir og mynd:
Þetta svar er eftir nemanda í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2005.