Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Er sálin til?

Haukur Már Helgason

Hér verður byrjað á að gera greinarmun á tvenns konar hugmyndum um eðli (manns)sálarinnar, hvað það felur í sér að segja að hún sé til. Þá verður gerður greinarmunur á ferns konar hugmyndum um hvað tilheyrir sálinni. Reynt verður að koma helstu uppástungum sögunnar fyrir í kerfi sem vitaskuld er einföldun en vonandi upplýsandi einföldun. -- Þegar sálarhugmyndir hafa verið aðgreindar á þennan hátt verður ljóst að í einhverjum skilningi er sálin til.

Fyrri aðgreiningin verður til, eins og margar aðrar í vestrænni hugmyndasögu, með Platóni og Aristótelesi. Platón sér sál og líkama sem andstæður. Hann telur sálina eiga sjálfstæða tilvist og lifa áfram eftir líkamsdauðann. Þetta er sú hugmynd sem kristnin tekur síðar upp á arma sína.

Aristóteles telur hins vegar sálina háða líkamanum. Hann segir alla hluti eiga sér bæði form og efni. Marmarastytta hefur nauðsynlega bæði form og efni, segir hann. Án formsins (mannslögunarinnar) væri hún ekki til og hefði þá heldur ekkert efni. Án efnisins (marmarans) væri hún ekki til og hefði þá heldur ekkert form. Efni manns kveður hann þá vera líkamann en form hans sálina. Sálin og líkaminn eru þá hvort öðru háð og ekki til aðskilin hvort frá öðru. Þessi hugmynd liggur nálægt skilningi sumra vísindamanna, þar sem sálin er einhver virkni lífverunnar, eitthvað sem hún verður vör við vegna þess hvernig hlutum er fyrir komið í heilabúi hennar og taugakerfi. Þess háttar sál væri ljóslega ekki til án líkamans.

Segja má að þessar tvær grundvallarhugmyndir um sálina séu að togast á í hugmyndaheimi okkar í dag – sú fyrri (platónska) speglast ennþá í kristinni trú og mörgum nýaldarhugmyndum ('new age', ekki 'modernity'), en hin síðari (aristótelíska) í heimsmynd vísinda.

------

Nú gerum við seinni greinarmuninn: Í sálarhugtaki bæði Platóns og Aristótelesar fólst allt sem greinir líf frá dauðu efni (allt sem hverfur þegar lífvera deyr): Það að sækja sér næringu (plöntur, dýr og menn), að finna til (dýr og menn), að hugsa, beita skynseminni (menn). Þetta er hugmyndin um sál sem lífvirkni.

Þegar uppgangur vísinda hefst á nýöld sjá menn að skýra má hreyfingar og einföldustu virkni lífvera (í mjög grófum dráttum) út frá þekktum eiginleikum dauðs efnis. Þegar Descartes skrifar Orðræðu um aðferð 1637 tilheyrir því engin sjáanleg hreyfing sálinni. Descartes vill þó skilja sálina alfarið frá líkamanum, segir hana eiga sér sjálfstæða tilvist og vera hreina hugsun. Það að sálin taki til hugarstarfsemi en ekki sjáanlegrar virkni líkamans má kalla hugmyndina um sál sem hugarstarfsemi.

Á 20. öld hafa menn síðan þróað tölvur með geysiflókna virkni sem minnir á mannlega hugsun. Ef við samþykkjum að einhvern tíma geti tölvur framkvæmt alla sömu hugsun og maður, það er að segja veitt samskonar viðbragð við áreiti, komist að sömu niðurstöðu frá gefnum forsendum, á maðurinn þetta tvennt eftir sem greinir hann frá dauðu efni: tilfinningar og vitund.

Sál sem tilfinningar hefur að nokkru fallið undir svið sálarfræði, lífeðlisfræði, lífefnafræði og geðlækninga á 20. öld. Þessum fræðum tekst að skýra tilfinningalíf mannsins að verulegu leyti án vísunar út fyrir efnisheiminn.

Þá er komið að hugmyndinni um sál sem vitund. Ekki er ljóst í hverju hrein vitund er fólgin, eða hvort hún er til ein og án viðfangs -- það er að segja hvort til sé vitund sem ekki er vitund um eitthvað. Erfitt eða ókleift er að skilja hvernig vitund ætti að vera til án hugarstarfsemi. En hverjum manni virðist það ljósara en nokkuð annað að hann hefur vitund, það er að segja veit af einhverju sem hann kallar yfirleitt sjálfan sig og umhverfi sitt. Og í dag virðist þessi vitund mannsins greina skýrt á milli hans og dauðra hluta, hún virðist ekki vera útskýranleg innan raunvísindanna.

Ég taldi upp fjórar mismunandi hugmyndir um sál: Sál sem lífvirkni, sál sem hugarstarfsemi, sál sem tilfinningar og sál sem vitund. Þegar vísindi hafa leitt að því líkur að einn hluta sálarinnar á fætur öðrum megi skýra með hegðan þess sem heitir dautt efni má segja að stærri og stærri hlutar sálarinnar hafi verið færðir frá platónsku hugmyndinni um sál (sál sem er til óháð líkama) undir þá aristótelísku (sál sem form eða virkni líkama). Þar með hefur ekki verið afsannað að þessir þættir sálarinnar séu til óháð líkamanum, en sýnt að óþarft sé að gera ráð fyrir því.

Eftir situr þetta svar: Mannssálin er til í þeim skilningi að menn eru virkir, hugsa, finna til og vita af sér – eru lifandi. Og hluti þessarar sálar, í það minnsta vitundin, virðist enn alfarið óskýrð af hálfu vísinda, það er að segja virðist vera af öðrum toga en efni (líkaminn).

-------

Ein hugmynd enn er til um megin-sálarvirkni mannsins: Sál sem vilji. Viljinn væri þá það hreyfiafl hluta sem maðurinn hefur með sjálfum sér og getur beitt til að verða fyrsta orsök atburða -- þar sé megin mannsins fólgin sem aldrei finnist í vél eða tölvu, að hann rjúfi orsakakeðju heimsins í gjörðum sínum, með tilstilli viljans. En helstu kennimenn um viljann (Nietzsche, Schopenhauer) hafa ekki fjallað um hann sem eina eðli sálarinnar. Þeir eru ýmist hallir undir að viljinn hlýði skynseminni eða tilfinningunum, sem eru þá í þeirra augum einhvers konar virkni sálar. Sálarhugtakinu beita þeir hins vegar ekki mikið fyrir sig.

Viljann er erfitt að staðsetja og liggur hann því utan við upptalninguna hér að framan. En tvennt er ljóst: 1) Helstu postular hugmyndasögunnar líta á viljann sem mikilvægan eiginleika mannsins, þó honum sé gert mishátt undir höfði. Þetta á við til dæmis bæði um Platón og Aristóteles. 2) Viljinn, líkt og vitundin, er fyrir hverjum og einum, þegar grannt er skoðað, torhrakin staðreynd -- "hvað sem nokkur eðlisfræði segir mér um epli geng ÉG yfir götuna vegna þess eins að ÉG ÁKVAÐ að ganga yfir götuna". Og viljann, eins og hann birtist þeim sem hefur hann, virðist erfitt að skýra með tilvísan til dauðs efnis.

Frá ritstjórn:

Höfundur þessa svars er heimspekinemi og fjallar um spurninguna frá sjónarhóli þeirrar fræðigreinar. Í eftirfarandi svörum er fjallað um svipaðar eða skyldar spurningar frá öðrum sjónarmiðum, meðal annars frá sjónarhóli annarra fræðigreina:

Hvað merkir orðið sál? (vísindi almennt, málvísindi; Þorsteinn Vilhjálmsson)

Hvers eðlis er sálin? (sálarfræði; Sigurður J. Grétarsson)

Höfundur

heimspekingur og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

14.6.2000

Spyrjandi

Silja Hanna Guðmundsdóttir

Tilvísun

Haukur Már Helgason. „Er sálin til?“ Vísindavefurinn, 14. júní 2000. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=516.

Haukur Már Helgason. (2000, 14. júní). Er sálin til? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=516

Haukur Már Helgason. „Er sálin til?“ Vísindavefurinn. 14. jún. 2000. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=516>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er sálin til?
Hér verður byrjað á að gera greinarmun á tvenns konar hugmyndum um eðli (manns)sálarinnar, hvað það felur í sér að segja að hún sé til. Þá verður gerður greinarmunur á ferns konar hugmyndum um hvað tilheyrir sálinni. Reynt verður að koma helstu uppástungum sögunnar fyrir í kerfi sem vitaskuld er einföldun en vonandi upplýsandi einföldun. -- Þegar sálarhugmyndir hafa verið aðgreindar á þennan hátt verður ljóst að í einhverjum skilningi er sálin til.

Fyrri aðgreiningin verður til, eins og margar aðrar í vestrænni hugmyndasögu, með Platóni og Aristótelesi. Platón sér sál og líkama sem andstæður. Hann telur sálina eiga sjálfstæða tilvist og lifa áfram eftir líkamsdauðann. Þetta er sú hugmynd sem kristnin tekur síðar upp á arma sína.

Aristóteles telur hins vegar sálina háða líkamanum. Hann segir alla hluti eiga sér bæði form og efni. Marmarastytta hefur nauðsynlega bæði form og efni, segir hann. Án formsins (mannslögunarinnar) væri hún ekki til og hefði þá heldur ekkert efni. Án efnisins (marmarans) væri hún ekki til og hefði þá heldur ekkert form. Efni manns kveður hann þá vera líkamann en form hans sálina. Sálin og líkaminn eru þá hvort öðru háð og ekki til aðskilin hvort frá öðru. Þessi hugmynd liggur nálægt skilningi sumra vísindamanna, þar sem sálin er einhver virkni lífverunnar, eitthvað sem hún verður vör við vegna þess hvernig hlutum er fyrir komið í heilabúi hennar og taugakerfi. Þess háttar sál væri ljóslega ekki til án líkamans.

Segja má að þessar tvær grundvallarhugmyndir um sálina séu að togast á í hugmyndaheimi okkar í dag – sú fyrri (platónska) speglast ennþá í kristinni trú og mörgum nýaldarhugmyndum ('new age', ekki 'modernity'), en hin síðari (aristótelíska) í heimsmynd vísinda.

------

Nú gerum við seinni greinarmuninn: Í sálarhugtaki bæði Platóns og Aristótelesar fólst allt sem greinir líf frá dauðu efni (allt sem hverfur þegar lífvera deyr): Það að sækja sér næringu (plöntur, dýr og menn), að finna til (dýr og menn), að hugsa, beita skynseminni (menn). Þetta er hugmyndin um sál sem lífvirkni.

Þegar uppgangur vísinda hefst á nýöld sjá menn að skýra má hreyfingar og einföldustu virkni lífvera (í mjög grófum dráttum) út frá þekktum eiginleikum dauðs efnis. Þegar Descartes skrifar Orðræðu um aðferð 1637 tilheyrir því engin sjáanleg hreyfing sálinni. Descartes vill þó skilja sálina alfarið frá líkamanum, segir hana eiga sér sjálfstæða tilvist og vera hreina hugsun. Það að sálin taki til hugarstarfsemi en ekki sjáanlegrar virkni líkamans má kalla hugmyndina um sál sem hugarstarfsemi.

Á 20. öld hafa menn síðan þróað tölvur með geysiflókna virkni sem minnir á mannlega hugsun. Ef við samþykkjum að einhvern tíma geti tölvur framkvæmt alla sömu hugsun og maður, það er að segja veitt samskonar viðbragð við áreiti, komist að sömu niðurstöðu frá gefnum forsendum, á maðurinn þetta tvennt eftir sem greinir hann frá dauðu efni: tilfinningar og vitund.

Sál sem tilfinningar hefur að nokkru fallið undir svið sálarfræði, lífeðlisfræði, lífefnafræði og geðlækninga á 20. öld. Þessum fræðum tekst að skýra tilfinningalíf mannsins að verulegu leyti án vísunar út fyrir efnisheiminn.

Þá er komið að hugmyndinni um sál sem vitund. Ekki er ljóst í hverju hrein vitund er fólgin, eða hvort hún er til ein og án viðfangs -- það er að segja hvort til sé vitund sem ekki er vitund um eitthvað. Erfitt eða ókleift er að skilja hvernig vitund ætti að vera til án hugarstarfsemi. En hverjum manni virðist það ljósara en nokkuð annað að hann hefur vitund, það er að segja veit af einhverju sem hann kallar yfirleitt sjálfan sig og umhverfi sitt. Og í dag virðist þessi vitund mannsins greina skýrt á milli hans og dauðra hluta, hún virðist ekki vera útskýranleg innan raunvísindanna.

Ég taldi upp fjórar mismunandi hugmyndir um sál: Sál sem lífvirkni, sál sem hugarstarfsemi, sál sem tilfinningar og sál sem vitund. Þegar vísindi hafa leitt að því líkur að einn hluta sálarinnar á fætur öðrum megi skýra með hegðan þess sem heitir dautt efni má segja að stærri og stærri hlutar sálarinnar hafi verið færðir frá platónsku hugmyndinni um sál (sál sem er til óháð líkama) undir þá aristótelísku (sál sem form eða virkni líkama). Þar með hefur ekki verið afsannað að þessir þættir sálarinnar séu til óháð líkamanum, en sýnt að óþarft sé að gera ráð fyrir því.

Eftir situr þetta svar: Mannssálin er til í þeim skilningi að menn eru virkir, hugsa, finna til og vita af sér – eru lifandi. Og hluti þessarar sálar, í það minnsta vitundin, virðist enn alfarið óskýrð af hálfu vísinda, það er að segja virðist vera af öðrum toga en efni (líkaminn).

-------

Ein hugmynd enn er til um megin-sálarvirkni mannsins: Sál sem vilji. Viljinn væri þá það hreyfiafl hluta sem maðurinn hefur með sjálfum sér og getur beitt til að verða fyrsta orsök atburða -- þar sé megin mannsins fólgin sem aldrei finnist í vél eða tölvu, að hann rjúfi orsakakeðju heimsins í gjörðum sínum, með tilstilli viljans. En helstu kennimenn um viljann (Nietzsche, Schopenhauer) hafa ekki fjallað um hann sem eina eðli sálarinnar. Þeir eru ýmist hallir undir að viljinn hlýði skynseminni eða tilfinningunum, sem eru þá í þeirra augum einhvers konar virkni sálar. Sálarhugtakinu beita þeir hins vegar ekki mikið fyrir sig.

Viljann er erfitt að staðsetja og liggur hann því utan við upptalninguna hér að framan. En tvennt er ljóst: 1) Helstu postular hugmyndasögunnar líta á viljann sem mikilvægan eiginleika mannsins, þó honum sé gert mishátt undir höfði. Þetta á við til dæmis bæði um Platón og Aristóteles. 2) Viljinn, líkt og vitundin, er fyrir hverjum og einum, þegar grannt er skoðað, torhrakin staðreynd -- "hvað sem nokkur eðlisfræði segir mér um epli geng ÉG yfir götuna vegna þess eins að ÉG ÁKVAÐ að ganga yfir götuna". Og viljann, eins og hann birtist þeim sem hefur hann, virðist erfitt að skýra með tilvísan til dauðs efnis.

Frá ritstjórn:

Höfundur þessa svars er heimspekinemi og fjallar um spurninguna frá sjónarhóli þeirrar fræðigreinar. Í eftirfarandi svörum er fjallað um svipaðar eða skyldar spurningar frá öðrum sjónarmiðum, meðal annars frá sjónarhóli annarra fræðigreina:

Hvað merkir orðið sál? (vísindi almennt, málvísindi; Þorsteinn Vilhjálmsson)

Hvers eðlis er sálin? (sálarfræði; Sigurður J. Grétarsson)...