Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um andaglas?

Heiða María Sigurðardóttir

Vísindavefnum berast reglulega spurningar um ýmiss konar yfirnáttúrlega hluti, svo sem stjörnuspeki, galdra og drauga. Þessum spurningum er sjaldan svarað, þar sem yfirnáttúruleg fyrirbæri eru samkvæmt skilgreiningu ekki viðfang vísindanna. Þótt hér verði fjallað um slíkt er það því ekki til marks um að þessi þumalputtaregla okkar hafi breyst. Fremur er fólki bent á að kynna sér svörin um vísindi eftir Jón Ólafsson, og um hindurvitni eftir Þorstein Vilhjálmsson.

Hið dulda og óútskýrða vekur oft upp forvitni manna, sem flykkast svo í stríðum straumum á tarotnámskeið, sjá sýningar dávalda og sjónhverfingameistara og segja hver öðrum sögur af kynnum sínum af draugum og öðrum öndum. Sigurður J. Grétarsson fjallar um hið síðastnefna í svari sínu, Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda? Þar kemur fram að það er einmitt ekkert sem bendir til tilvistar drauga og anda nema ógrynni svonefndra atvikasagna. Þegar reynt er að beita aðferðum vísindanna til að grennslast fyrir um þessar dularfullu verur virðast þær að minnsta kosti hverfa eins og dögg fyrir sólu, enda líklega erfitt að bregða mælistiku á eitthvað sem ekkert er.


Andaspjald, eða Ouija board. Hjartalaga bendill er notaður í stað glass.

Ef fátt rennir stoðum undir að andar séu til, hvernig má þá skýra fyrirbæri eins og andaglas? Fyrir þá sem ekki hafa reynslu af þessari athöfn skal henni lýst í stuttu máli. Notað er spjald með bókstöfum sem stundum hefur einnig önnur tákn svo sem tölustafi og orð eins og 'já', 'nei' og 'bless'. Á þetta spjald er settur einhver hlutur, til að mynda glas, sem notaður er til að benda á tiltekin tákn. Þátttakendur tylla fingri á þennan bendil og spyrja spurninga.

Hér á Íslandi hefur skapast sú hefð að hefja leikinn með spurningunni: „Er andi í glasinu?“ Ef spurt er nógu oft tekur bendillinn oft að hreyfast, að því er virðist að sjálfu sér, og stafar svör við spurningunum með því að staðnæmast yfir táknum á spjaldinu. Margir telja þetta til marks um að skilaboðin séu frá verum að handan, jafnvel illum öndum sem geti stofnað geðheilsu þátttakenda í hættu. Þetta vekur að sjálfsögðu upp ugg hjá mörgum, og ýmsir prestar og dulspekingar vara fólk við því að stunda þessa iðju.

Hvernig skal sannreyna þessa skýringu? Það fyrsta sem manni gæti dottið í hug væri að athuga hvort svörin sem andaglasið gefur séu rétt. Svo er ekki; svörin eru oft röng eða jafnvel óskiljanlegt rugl. Dulspekingar telja að þetta stafi af því að oft komi verur af lægri tilverustigum í glasið sem svíki og pretti. Sætti fólk sig við þetta svar gæti það brugðið á það ráð að athuga hvort þátttakendur sjálfir hreyfi glasið. Ef þátttakendur eru spurðir um þetta þvertaka þeir flestir fyrir það. En skiptir máli hvað þeir telja? Er fólk alltaf meðvitað um eigin hegðun?

Sálfræðingar hafa lengið vitað að hægt er að svara þessari spurningu neitandi. Bæði eru til dæmi um að fólk haldi að það hafi gert eitthvað sem í raun var af allt öðrum orsökum og öfugt, að það telji sig ekki hafa gert það sem það raunverulega gerði. Sú tilfinning að hafa valdið einhverju er því ekki endilega tilkomin vegna vitneskju um orsakir hegðunarinnar heldur virðist frekar vera túlkun okkar á henni; einhvers konar tilgáta um samband orsakar og afleiðingar. Þessi túlkun getur ráðist af ýmsu, svo sem væntingum fólks og hverju það veitir eftirtekt.


Þótt fólk geri sér ekki grein fyrir því gæti það samt sem áður orsakað hreyfingar andaglassins.

Dæmi um þetta eru rannsóknir á fyrirbæri sem er skylt andaglasi, svokölluðum borðsnúningi (e. table-turning) sem var vinsæll á meðal spírítista um miðja 19. öld. Hópur fólks situr kringum hringborð og leggur lófana á borðplötuna (sem hægt er að snúa). Ef fólk býst við að andi hreyfi borðið tekur það smám saman að snúast, jafnvel svo hratt að fólk hefur ekki undan við að fylgja hreyfingum borðplötunnar eftir. Þátttakendur í borðsnúningi eru handvissir um að enginn þeirra hafi nokkuð með snúning borðsins að gera. Þetta ákvað efna- og eðlisfræðingurinn Michael Faraday að mæla með því að setja aflnema undir hendur þátttakenda. Ólíkt því sem fólkið sjálft hafði talið sér trú um komst Faraday að því að snúning borðsins var með fullu hægt að skýra með handahreyfingum þeirra.

Ástæður hreyfingar andaglassins eru að öllum líkindum mjög svipaðar. Þetta getur hver sem er í raun prófað heima hjá sér. Fyrst er hægt að fara í andaglas á hefðbundinn hátt, og oftar en ekki hreyfist andaglasið og myndar orð og setningar. Næsta skref er eins að öllu leyti nema að nú er bundið fyrir augu þátttakenda, og einhver utanaðkomandi er látinn skrifa niður skilaboð „andans“. Við þetta verða skilaboðin úr andaglasinu nær undantekningarlaust merkingarlaust blaður. Ef andi er í glasinu ætti hann ekki að eiga í neinum vandræðum með að sjá hvað stendur á andapjaldinu. Ef þátttakendur sjálfir bera aftur á móti ábyrgð á hreyfingu glassins verður þetta mun skiljanlegra, því ekki geta þeir stjórnað glasinu á neinn hátt sem vit er í ef þeir sjá ekki hvað þeir gera.

Að lokum er til gamans hægt að benda á að tölvutækninni hefur fleygt svo fram að nú er hægt að fara í andaglas á netinu. Á heimasíðunni The real deal er boðið upp á andaglas þar sem menn tylla fingri sínum á tölvumús í stað glass og fylgjast með hreyfingum músarbendilsins á sýndarspjaldi. Og þá er rétt að spyrja: „Er andi í tölvunni?“

Heimildir og frekara lesefni

  • Andaglas. Dulspeki. Speki.net.
  • Ouija. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Ouija board. The sceptics dictionary. Robert Todd Carroll.
  • Ouija in the classroom. Sceptical briefs.
  • Wegner, Daniel M. (í prentun). „Précis of: The illusion of conscious will“. Behavioral and Brain Sciences. Sótt 30. ágúst 2005 af bbsonline.org.
  • The real deal. WitchBoard.com.

Myndir

  • Mynd af andaspjaldi er af Oiuja board. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Mynd af fingrum á glasi er af Ouija. Planeta5000.com.

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

6.9.2005

Spyrjandi

Arna Snorradottir, f. 1990
Óðinn Breki, f. 1992
Kristján Hjartarson, Erna Eir

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um andaglas?“ Vísindavefurinn, 6. september 2005. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5244.

Heiða María Sigurðardóttir. (2005, 6. september). Hvað getið þið sagt mér um andaglas? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5244

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað getið þið sagt mér um andaglas?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2005. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5244>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um andaglas?
Vísindavefnum berast reglulega spurningar um ýmiss konar yfirnáttúrlega hluti, svo sem stjörnuspeki, galdra og drauga. Þessum spurningum er sjaldan svarað, þar sem yfirnáttúruleg fyrirbæri eru samkvæmt skilgreiningu ekki viðfang vísindanna. Þótt hér verði fjallað um slíkt er það því ekki til marks um að þessi þumalputtaregla okkar hafi breyst. Fremur er fólki bent á að kynna sér svörin um vísindi eftir Jón Ólafsson, og um hindurvitni eftir Þorstein Vilhjálmsson.

Hið dulda og óútskýrða vekur oft upp forvitni manna, sem flykkast svo í stríðum straumum á tarotnámskeið, sjá sýningar dávalda og sjónhverfingameistara og segja hver öðrum sögur af kynnum sínum af draugum og öðrum öndum. Sigurður J. Grétarsson fjallar um hið síðastnefna í svari sínu, Eru einhverjar sannanir um tilvist drauga og annarra slíkra anda? Þar kemur fram að það er einmitt ekkert sem bendir til tilvistar drauga og anda nema ógrynni svonefndra atvikasagna. Þegar reynt er að beita aðferðum vísindanna til að grennslast fyrir um þessar dularfullu verur virðast þær að minnsta kosti hverfa eins og dögg fyrir sólu, enda líklega erfitt að bregða mælistiku á eitthvað sem ekkert er.


Andaspjald, eða Ouija board. Hjartalaga bendill er notaður í stað glass.

Ef fátt rennir stoðum undir að andar séu til, hvernig má þá skýra fyrirbæri eins og andaglas? Fyrir þá sem ekki hafa reynslu af þessari athöfn skal henni lýst í stuttu máli. Notað er spjald með bókstöfum sem stundum hefur einnig önnur tákn svo sem tölustafi og orð eins og 'já', 'nei' og 'bless'. Á þetta spjald er settur einhver hlutur, til að mynda glas, sem notaður er til að benda á tiltekin tákn. Þátttakendur tylla fingri á þennan bendil og spyrja spurninga.

Hér á Íslandi hefur skapast sú hefð að hefja leikinn með spurningunni: „Er andi í glasinu?“ Ef spurt er nógu oft tekur bendillinn oft að hreyfast, að því er virðist að sjálfu sér, og stafar svör við spurningunum með því að staðnæmast yfir táknum á spjaldinu. Margir telja þetta til marks um að skilaboðin séu frá verum að handan, jafnvel illum öndum sem geti stofnað geðheilsu þátttakenda í hættu. Þetta vekur að sjálfsögðu upp ugg hjá mörgum, og ýmsir prestar og dulspekingar vara fólk við því að stunda þessa iðju.

Hvernig skal sannreyna þessa skýringu? Það fyrsta sem manni gæti dottið í hug væri að athuga hvort svörin sem andaglasið gefur séu rétt. Svo er ekki; svörin eru oft röng eða jafnvel óskiljanlegt rugl. Dulspekingar telja að þetta stafi af því að oft komi verur af lægri tilverustigum í glasið sem svíki og pretti. Sætti fólk sig við þetta svar gæti það brugðið á það ráð að athuga hvort þátttakendur sjálfir hreyfi glasið. Ef þátttakendur eru spurðir um þetta þvertaka þeir flestir fyrir það. En skiptir máli hvað þeir telja? Er fólk alltaf meðvitað um eigin hegðun?

Sálfræðingar hafa lengið vitað að hægt er að svara þessari spurningu neitandi. Bæði eru til dæmi um að fólk haldi að það hafi gert eitthvað sem í raun var af allt öðrum orsökum og öfugt, að það telji sig ekki hafa gert það sem það raunverulega gerði. Sú tilfinning að hafa valdið einhverju er því ekki endilega tilkomin vegna vitneskju um orsakir hegðunarinnar heldur virðist frekar vera túlkun okkar á henni; einhvers konar tilgáta um samband orsakar og afleiðingar. Þessi túlkun getur ráðist af ýmsu, svo sem væntingum fólks og hverju það veitir eftirtekt.


Þótt fólk geri sér ekki grein fyrir því gæti það samt sem áður orsakað hreyfingar andaglassins.

Dæmi um þetta eru rannsóknir á fyrirbæri sem er skylt andaglasi, svokölluðum borðsnúningi (e. table-turning) sem var vinsæll á meðal spírítista um miðja 19. öld. Hópur fólks situr kringum hringborð og leggur lófana á borðplötuna (sem hægt er að snúa). Ef fólk býst við að andi hreyfi borðið tekur það smám saman að snúast, jafnvel svo hratt að fólk hefur ekki undan við að fylgja hreyfingum borðplötunnar eftir. Þátttakendur í borðsnúningi eru handvissir um að enginn þeirra hafi nokkuð með snúning borðsins að gera. Þetta ákvað efna- og eðlisfræðingurinn Michael Faraday að mæla með því að setja aflnema undir hendur þátttakenda. Ólíkt því sem fólkið sjálft hafði talið sér trú um komst Faraday að því að snúning borðsins var með fullu hægt að skýra með handahreyfingum þeirra.

Ástæður hreyfingar andaglassins eru að öllum líkindum mjög svipaðar. Þetta getur hver sem er í raun prófað heima hjá sér. Fyrst er hægt að fara í andaglas á hefðbundinn hátt, og oftar en ekki hreyfist andaglasið og myndar orð og setningar. Næsta skref er eins að öllu leyti nema að nú er bundið fyrir augu þátttakenda, og einhver utanaðkomandi er látinn skrifa niður skilaboð „andans“. Við þetta verða skilaboðin úr andaglasinu nær undantekningarlaust merkingarlaust blaður. Ef andi er í glasinu ætti hann ekki að eiga í neinum vandræðum með að sjá hvað stendur á andapjaldinu. Ef þátttakendur sjálfir bera aftur á móti ábyrgð á hreyfingu glassins verður þetta mun skiljanlegra, því ekki geta þeir stjórnað glasinu á neinn hátt sem vit er í ef þeir sjá ekki hvað þeir gera.

Að lokum er til gamans hægt að benda á að tölvutækninni hefur fleygt svo fram að nú er hægt að fara í andaglas á netinu. Á heimasíðunni The real deal er boðið upp á andaglas þar sem menn tylla fingri sínum á tölvumús í stað glass og fylgjast með hreyfingum músarbendilsins á sýndarspjaldi. Og þá er rétt að spyrja: „Er andi í tölvunni?“

Heimildir og frekara lesefni

  • Andaglas. Dulspeki. Speki.net.
  • Ouija. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Ouija board. The sceptics dictionary. Robert Todd Carroll.
  • Ouija in the classroom. Sceptical briefs.
  • Wegner, Daniel M. (í prentun). „Précis of: The illusion of conscious will“. Behavioral and Brain Sciences. Sótt 30. ágúst 2005 af bbsonline.org.
  • The real deal. WitchBoard.com.

Myndir

  • Mynd af andaspjaldi er af Oiuja board. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin.
  • Mynd af fingrum á glasi er af Ouija. Planeta5000.com.
...