Á kynþroskaskeiði verða miklar breytingar á líkömum bæði pilta og stúlkna. Brjóst og mjaðmir stúlkna stækka og þær byrja á blæðingum, röddin dýpkar hjá báðum kynjum, þó meira hjá piltum en stúlkum, kynfæri þroskast og piltar fara að geta fengið sáðlát, og líkaminn stækkar hratt.
Bæði kyn fá einnig hár á ýmsa staði þar sem ekki var mikill hárvöxtur fyrir. Piltar fá skegg og bringuhár og verða oft loðnir á hand- og fótleggjum. Bæði piltar og stúlkur fá svo hár kringum kynfæri og undir höndum.
Karlhormón ráða því að hár vex undir höndum fólks. Á kynþroskaskeiði fara eistu pilta að framleiða mikið magn af karlhormónum. Hjá báðum kynjum taka nýrnahetturnar einnig til við að framleiða karlhormón í allnokkru magni, nógu miklu til að koma af stað hárvexti undir höndum hjá bæði piltum og stúlkum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Af hverju vex skegg á fólki? Og hvernig virkar það? eftir HMS.
- Af hverju vex hárið? eftir EMB.
- Androgen. Encyclopædia Britannica Online.
- Hair. Encyclopædia Britannica Online.
- Puberty. Encyclopædia Britannica Online.
- Underarm hair. Wikipedia: The free encyclopedia.
- Myndin er fengin af síðunni Embroidery and Beadwork by Mary Yaeger.