Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvar var borgin Sparta og hverjir voru Spartverjar?

Geir Þ. Þórarinsson

Sparta er borg sem stóð við fljótið Evrótas á sunnanverðum Pelópsskaga á Grikklandi. Til forna lá borgin skammt frá þeim stað þar sem borgin Sparte (borið fram Spartí) er nú. Blómatími Spörtu var frá 6. öld f.Kr. fram á 4. öld f.Kr. Borginni tilheyrði stórt landsvæði sem skiptist í tvo hluta: Lakóníu (eða Lakedæmóníu) og Messeníu.


Rústir hinnar fornu borgar Spörtu.

Grikkir röktu upphaf borgarinnar til goðsögulegs tíma, en Lakedæmón, sonur Seifs, var sagður hafa stofnað borgina. Hann kvæntist bróðurdóttur sinni, Spörtu. Veldið nefndi hann eftir sjálfum sér, en höfuðborgina eftir konu sinni. Á tímum Trójustríðsins var Menelás Atreifsson konungur í Spörtu en kona hans var Helena fagra, sú er París hafði á brott með sér til Tróju og var sögð orsök stríðsins. Nánar má lesa um þetta í svari sama höfundar við spurningunni: Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?

Á 11. og 12. öld f.Kr. streymdu hópar fólks til Grikklands úr norðri. Þetta fólk talaði grískar mállýskur sem kallast einu nafni dóríska. Þeir sem bjuggu fyrir í landinu töluðu jónískar og æólískar mállýskur og nefndust Jónar og Æólar. Þeir höfðu komið til landsins nokkur hundruð árum áður. Dórarnir settust meðal annars að á Pelópsskaga þar sem Sparta stóð og gerðust þar herraþjóð. Æ síðan byggðu Dórar Spörtu og raunar má enn finna leifar af dórískri mállýsku í máli þeirra sem þar búa.

Um miðja 8. öld f.Kr. fór Sparta að færa út kvíarnar. Spartverjar innlimuðu fyrst allt Lakóníuhérað og seinna nágrannaríkið Messeníu sem var vestan við Lakóníu. Íbúar þessara héraða urðu ýmist ríkisþrælar, svonefndir helótar, eða frjálsir en réttindalausir íbúar, svokallaðir kringbyggjar, og héldu þeir uppi efnahag Spörtu.

Útþenslustefna Spörtu stafaði einkum af aukinni þörf fyrir jarðir og ræktað land vegna fólksfjölgunar. Þrátt fyrir þetta voru spartverskir borgarar alltaf tiltölulega fáir. Þeir voru allir í hernum og stunduðu stanslausar heræfingar þegar þeir voru ekki í stríði, en þannig gátu þeir haldið yfirráðum sínum.

Ekki leið á löngu áður en öll ríkin á Pelópsskaganum, að undanskildum ríkjunum Argos og Akkaju, gengu í bandalag með Spörtu. Spartverjum stóð því ekki ógn af neinum fyrr en Persar reyndu að sölsa undir sig Grikkland snemma á 5. öld f.Kr.

Í Persastríðunum gegndu spartverskir hermenn mikilvægu hlutverki í orrustunni við Laugaskörð (Þermopýlæ) árið 480 f.Kr. Þar börðust um 300 Spartverjar auk um 1700 annarra Grikkja undir stjórn Leónídasar, annars tveggja konunga Spartverja, við margfalt stærri her Persa og töfðu framgöngu hans dögum saman. Vegna þess hve þröngt var í skarðinu gátu Persar ekki nýtt sér liðsmuninn. Sagnaritarinn Heródótos segir að í her Persa hafi verið rúmlega fimm milljónir hermanna, en fræðimenn draga það hins vegar í efa og telja að í persneska hernum hafi verið milli 200 og 500 þúsund manns.


Leónídas, annar tveggja konunga Spörtu, fór fyrir Grikkjum í orrustunni við Laugaskörð. Málverkið er eftir Jacques-Louis David (1814).

Að lokum fór svo að grískur smali að nafni Efíaltes sagði Persunum frá leið framhjá skarðinu og komust Persar þannig aftan að Grikkjunum og sigruðu þá. Grikkirnir létust allir, en um 20.000 Persar féllu í orrustunni. Síðar um haustið sigruðu Aþeningar persneska flotann í orrustunni við Salamis og árið 479 f.Kr. var innrásarher Persa loks sigraður endanlega í orrustunni við Plataju undir stjórn spartverska herforingjans Pásaníasar.

Í kjölfar Persastríðanna urðu Aþena og Sparta öflugustu og valdamestu borgirnar á Grikklandi. Fljótlega skarst þó í odda með þeim og bandamönnum þeirra í Pelópsskagastríðinu 431-404 f.Kr. Sparta sigraði og kom á andlýðræðislegri leppstjórn í Aþenu árið 404 f.Kr. Aðeins ári síðar var þeirri stjórn þó velt úr sessi og lýðræði komið á að nýju. Aþena hafði hins vegar glatað ítökum sínum og völdum fyrir fullt og allt. Lesendur geta kynnt sér málið nánar með því að lesa svar Skúla Sæland við spurningunni: Hvað var Pelópsskagastríðið?

Árið 371 f.Kr. beið spartverski herinn ósigur í stríði gegn Þebu. Máttur Spörtu var þá farinn að dvína. Um miðja 4. öld f.Kr. jukust áhrif Filipposar II. Makedóníukonungs á Grikklandi. Sonur hans, Alexander mikli, sameinaði loks öll grísku borgríkin í eitt veldi. Sparta varð aldrei aftur stórveldi; blómatími hennar var liðinn.

Myndir

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

10.7.2006

Spyrjandi

Helga Guðmundsdóttir, f. 1987
Ásthildur Brynjarsdóttir, f. 1987

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar var borgin Sparta og hverjir voru Spartverjar?“ Vísindavefurinn, 10. júlí 2006. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6054.

Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 10. júlí). Hvar var borgin Sparta og hverjir voru Spartverjar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6054

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvar var borgin Sparta og hverjir voru Spartverjar?“ Vísindavefurinn. 10. júl. 2006. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6054>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar var borgin Sparta og hverjir voru Spartverjar?
Sparta er borg sem stóð við fljótið Evrótas á sunnanverðum Pelópsskaga á Grikklandi. Til forna lá borgin skammt frá þeim stað þar sem borgin Sparte (borið fram Spartí) er nú. Blómatími Spörtu var frá 6. öld f.Kr. fram á 4. öld f.Kr. Borginni tilheyrði stórt landsvæði sem skiptist í tvo hluta: Lakóníu (eða Lakedæmóníu) og Messeníu.


Rústir hinnar fornu borgar Spörtu.

Grikkir röktu upphaf borgarinnar til goðsögulegs tíma, en Lakedæmón, sonur Seifs, var sagður hafa stofnað borgina. Hann kvæntist bróðurdóttur sinni, Spörtu. Veldið nefndi hann eftir sjálfum sér, en höfuðborgina eftir konu sinni. Á tímum Trójustríðsins var Menelás Atreifsson konungur í Spörtu en kona hans var Helena fagra, sú er París hafði á brott með sér til Tróju og var sögð orsök stríðsins. Nánar má lesa um þetta í svari sama höfundar við spurningunni: Hvernig og hvers vegna var Trójustríðið háð?

Á 11. og 12. öld f.Kr. streymdu hópar fólks til Grikklands úr norðri. Þetta fólk talaði grískar mállýskur sem kallast einu nafni dóríska. Þeir sem bjuggu fyrir í landinu töluðu jónískar og æólískar mállýskur og nefndust Jónar og Æólar. Þeir höfðu komið til landsins nokkur hundruð árum áður. Dórarnir settust meðal annars að á Pelópsskaga þar sem Sparta stóð og gerðust þar herraþjóð. Æ síðan byggðu Dórar Spörtu og raunar má enn finna leifar af dórískri mállýsku í máli þeirra sem þar búa.

Um miðja 8. öld f.Kr. fór Sparta að færa út kvíarnar. Spartverjar innlimuðu fyrst allt Lakóníuhérað og seinna nágrannaríkið Messeníu sem var vestan við Lakóníu. Íbúar þessara héraða urðu ýmist ríkisþrælar, svonefndir helótar, eða frjálsir en réttindalausir íbúar, svokallaðir kringbyggjar, og héldu þeir uppi efnahag Spörtu.

Útþenslustefna Spörtu stafaði einkum af aukinni þörf fyrir jarðir og ræktað land vegna fólksfjölgunar. Þrátt fyrir þetta voru spartverskir borgarar alltaf tiltölulega fáir. Þeir voru allir í hernum og stunduðu stanslausar heræfingar þegar þeir voru ekki í stríði, en þannig gátu þeir haldið yfirráðum sínum.

Ekki leið á löngu áður en öll ríkin á Pelópsskaganum, að undanskildum ríkjunum Argos og Akkaju, gengu í bandalag með Spörtu. Spartverjum stóð því ekki ógn af neinum fyrr en Persar reyndu að sölsa undir sig Grikkland snemma á 5. öld f.Kr.

Í Persastríðunum gegndu spartverskir hermenn mikilvægu hlutverki í orrustunni við Laugaskörð (Þermopýlæ) árið 480 f.Kr. Þar börðust um 300 Spartverjar auk um 1700 annarra Grikkja undir stjórn Leónídasar, annars tveggja konunga Spartverja, við margfalt stærri her Persa og töfðu framgöngu hans dögum saman. Vegna þess hve þröngt var í skarðinu gátu Persar ekki nýtt sér liðsmuninn. Sagnaritarinn Heródótos segir að í her Persa hafi verið rúmlega fimm milljónir hermanna, en fræðimenn draga það hins vegar í efa og telja að í persneska hernum hafi verið milli 200 og 500 þúsund manns.


Leónídas, annar tveggja konunga Spörtu, fór fyrir Grikkjum í orrustunni við Laugaskörð. Málverkið er eftir Jacques-Louis David (1814).

Að lokum fór svo að grískur smali að nafni Efíaltes sagði Persunum frá leið framhjá skarðinu og komust Persar þannig aftan að Grikkjunum og sigruðu þá. Grikkirnir létust allir, en um 20.000 Persar féllu í orrustunni. Síðar um haustið sigruðu Aþeningar persneska flotann í orrustunni við Salamis og árið 479 f.Kr. var innrásarher Persa loks sigraður endanlega í orrustunni við Plataju undir stjórn spartverska herforingjans Pásaníasar.

Í kjölfar Persastríðanna urðu Aþena og Sparta öflugustu og valdamestu borgirnar á Grikklandi. Fljótlega skarst þó í odda með þeim og bandamönnum þeirra í Pelópsskagastríðinu 431-404 f.Kr. Sparta sigraði og kom á andlýðræðislegri leppstjórn í Aþenu árið 404 f.Kr. Aðeins ári síðar var þeirri stjórn þó velt úr sessi og lýðræði komið á að nýju. Aþena hafði hins vegar glatað ítökum sínum og völdum fyrir fullt og allt. Lesendur geta kynnt sér málið nánar með því að lesa svar Skúla Sæland við spurningunni: Hvað var Pelópsskagastríðið?

Árið 371 f.Kr. beið spartverski herinn ósigur í stríði gegn Þebu. Máttur Spörtu var þá farinn að dvína. Um miðja 4. öld f.Kr. jukust áhrif Filipposar II. Makedóníukonungs á Grikklandi. Sonur hans, Alexander mikli, sameinaði loks öll grísku borgríkin í eitt veldi. Sparta varð aldrei aftur stórveldi; blómatími hennar var liðinn.

Myndir

...