Brjóstin sitja ofan á brjóstvöðvunum og ná oftast frá öðru rifbeini að því sjötta. Þau eru gerð úr fitu- og kirtlavef ásamt liðböndum. Að utan er brjóstið þakið húð og hefur hvort brjóst eina geirvörtu, en umhverfis hana er vörtubaugur sem getur verið allt frá því að vera bleikur yfir í dökkbrúnn á lit. Inni í brjóstinu eru nokkrir fitukirtlar og stærri mjólkurkirtlar myndaðir úr kirtilblöðrum. Mjólkin safnast í þær og berst við sog barns eftir mjólkurrásum út í geirvörtu. Hvort brjóst hefur 10-20 mjólkurrásir sem opnast út í geirvörtuna, og þess vegna má sjá nokkrar bunur af mjólk koma samtímis út úr geirvörtunni þegar kona gefur barni sínu brjóst.
Undir eðlilegum kringumstæðum fara brjóst ekki að stækka fyrr en í upphafi kynþroskaskeiðs hjá stúlkum og gerist það vegna áhrifa kvenkynhormóna. Fyrir kynþroska hafa stúlkur og drengir sams konar brjóst. Það eru sem sagt einnig mjólkurkirtlar í brjóstum karla. Þeir þroskast hins vegar aldrei undir eðlilegum kringumstæðum, en mjólkurkirtlar þroskast ekki fyrr en á meðgöngu. Þó eru þekkt einstök dæmi þess að brjóst þroskist meðal karla og einnig kemur fyrir að mjólkurmyndun fari í gang hjá báðum kynjum sem aukaverkun ákveðinna lyfja, til að mynda sumra geðlyfja, eða vegna mikillar líkamlegrar streitu eða kvilla í innkirtlum.
Sú spurning vaknar hvers vegna brjóst séu aðeins áberandi hjá kvenkyni mannsins en ekki hjá öðrum spendýrum. Það virðist vera einhver önnur ástæða fyrir þessu en mjólkurmyndun, þar sem mjólkurmyndun gengur ekki síður hjá öðrum kvenspendýrum án áberandi brjósta. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þetta efni. Það er til dæmis útbreidd skoðun meðal líffræðinga að ytri gerð brjóstanna hafi líklega þróast sem síðkomið kyneinkenni til að laða að karlmenn. Ein kenning byggir á þeirri staðreynd að ólíkt flestum öðrum prímötum sýna konur ekki greinileg, líkamleg einkenni þegar þær hafa egglos. Kenningin gengur svo út á að við þróun manna hafi þeir smám saman farið að bregðast við minna áberandi merkjum um egglos. Þegar tími eggloss í tíðahring konu nálgast eykst magn estrógena í líkama hennar sem veldur því meðal annars að brjóstin þrútna svolítið. Náttúruval hafi því ef til vill orðið í átt að þrýstnari brjóstum þar sem karlmenn myndu frekar laðast að konum með þrýstin brjóst því þær væru líklegri til að vera með egglos, og þannig líklegra að mökun með þeim leiddi til getnaðar. Þetta hefði svo aftur aukið líkur kvenna með þrýstnari brjóst til að eignast afkvæmi.

Það er útbreidd skoðun meðal líffræðinga að ytri gerð brjóstanna hafi líklega þróast sem síðkomið kyneinkenni til að laða að karlmenn.
- Hvernig þróuðust spenar á spendýrum? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvaða efni eru í móðurmjólk? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hafa karlmenn hríðahormón? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hefur brjóstaminnkun áhrif á getuna til að hafa barn á brjósti? eftir Björk Tryggvadóttur
- Voru lítil börn á brjósti í gamla daga? eftir Ólöfu Garðarsdóttur
- Breast á Wikipedia, the free encyclopedia
- 007 Breasts - 007b.com
- Gerard J. Tortora. 1997. Introduction to the Human Body -The Essentials of Anatomy and Physiology. 4. útg., Biological Science Textbooks, Inc.
- Toplessness - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 26.03.2015).
Hver er uppbygging kvenmannsbrjósta, líffræðilega?