Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver voru helstu vopn víkinga og voru þeir bardagaglaðir?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Svo að byrjað sé á síðari spurningunni er orðið víkingur notað í tvenns konar merkingu í nútímamáli. Annars vegar voru víkingar karlmenn sem fóru í skipulegar ránsferðir suður um Evrópu, aðallega á níundu og tíundu öld, og lögðu stundum undir sig landsvæði. Þessir karlar höfðu það að atvinnu að berjast, meðan á víkingaferðum stóð, og þeir sem gera það komast sennilega ekki hjá því að vera baráttuglaðir.

Í heimildum frá þeim löndum sem urðu fyrir árásum víkinga eru til frásagnir af hroðalegum aðförum þeirra, og má lesa nokkuð um það í bók Magnúsar Magnússonar, Víkingar í stríði og friði, sem kom út 1981. Fyrir hinu sama vottar í íslenskum heimildum. Í Landnámabók kemur við sögu Ölvir barnakarl og er sagður „maðr ágætr í Nóregi; hann var víkingr mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaðr.“ Auðvitað er hugsanlegt að kristnir höfundar geri meira úr ómannlegum háttum heiðinna víkinga en efni voru til, en á hinn bóginn er það alþekkt að í ófriði geta menn sýnt meiri tilfinningakulda en við eigum auðvelt með að ímynda okkur.


Norskur skjöldur frá um 905 e.Kr. séður að framan (t.v.) og aftan (t.h.).

Í annarri merkingu er orðið víkingur svo notað um allt norrænt fólk á víkingaöld og jafnvel lengur. Árið 1999 birtist til dæmis í tímaritinu Lifandi vísindi grein með fyrirsögninni: „Víkingar á Grænlandi. Nýjar rannsóknir leiða í ljós örlög þeirra. Tortímt af svartadauða? Útrýmt af eskimóum? Fórnarlömb sults og kulda?“ Ósennilegt virðist að norrænir menn sem settust að á Grænlandi hafi gert mikið að því að fara í víkingaferðir; þeir hefðu þá væntanlega reynt að búa nær víkingaslóðum. Allavega hafa þeir ekki stundað slíkar ferðir fram á tímabil svartadauða, sem barst ekki til Evrópu fyrr en um miðja 14. öld. Hér merkir víkingur því sýnilega „norrænn maður“, og flest norrænt fólk, jafnvel á svokallaðri víkingaöld, hefur líklega verið fremur friðsamt.

Íslendingasögurnar eru líklega bestu heimildir sem eru til um almenning víkingaaldar, þó að þær séu að vísu ekki skrifaðar fyrr en tveimur til þremur öldum eftir að víkingaöld lauk. Þær segja raunar frá mörgum mannvígum, en þau voru oftast unnin í hefndarskyni fyrir einhverjar misgerðir, af særðum metnaði eða afbrýðisemi; siðareglur samfélagsins kröfðust þess að menn hefndu fyrir misgerðir ef þeir vildu lifa við fulla sæmd. Í sögunum lítur samt allt gott fólk á mannvíg sem eitthvað illt; ekki er hægt að segja að þær lýsi bardagaglöðu fólki.

Vopn víkinga í þrengri merkingu orðsins hafa líklega verið nokkurn veginn þau sömu og vopn víkingaaldarfólks almennt. Nánast öll voru þau gerð af hvössum járnhlutum sem mátti stinga eða höggva með í líkama andstæðingsins svo að honum blæddi til ólífis. Dæmigerð höggvopn voru axir, sem virðast hafa verið einna algengustu vopn Íslendinga. Algeng lagvopn voru spjót, járnoddar á trésköftum, sem mátti hvort sem var stinga með eða kasta. Sverð voru einnig notuð, tvíeggja sveðjur sem menn báru í slíðri við mittisbelti sitt. Heldur tæknilegri vopn voru bogar, og þeir voru einu skotvopnin sem þekktust á víkingaöld. Auk vopna beittu víkingar svo eldi til að hrekja fólk á flótta og tortíma því. Í svokölluðum samtíðarsögum íslenskum, sem gerast nokkrum öldum eftir lok víkingaaldar, er oft eins og grjót sem menn köstuðu sé skæðasta vopnið.

Til varnar höfðu menn skildi úr tré. Einnig er talað um vígflaka, tréfleka, sem víkingar hlífðu sér undir gegn grjóti og vopnum, einkum meðan þeir brutu virkisveggi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • The 'Viking Shield' from Archaeology. Peter Beatson. Myndin er upphaflega í Nicolaysen, N. (1882). The Viking ship discovered at Gokstad in Norway. Christiana: Oslo (endurprentað 1971 Gregg International Publ.: Westmead UK).

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hver voru helstu vopn víkinga og hvernig voru þau gerð? Voru þeir mjög bardagaglaðir?

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

20.12.2006

Spyrjandi

Karl Jóhann

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver voru helstu vopn víkinga og voru þeir bardagaglaðir?“ Vísindavefurinn, 20. desember 2006. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6443.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2006, 20. desember). Hver voru helstu vopn víkinga og voru þeir bardagaglaðir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6443

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver voru helstu vopn víkinga og voru þeir bardagaglaðir?“ Vísindavefurinn. 20. des. 2006. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6443>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver voru helstu vopn víkinga og voru þeir bardagaglaðir?
Svo að byrjað sé á síðari spurningunni er orðið víkingur notað í tvenns konar merkingu í nútímamáli. Annars vegar voru víkingar karlmenn sem fóru í skipulegar ránsferðir suður um Evrópu, aðallega á níundu og tíundu öld, og lögðu stundum undir sig landsvæði. Þessir karlar höfðu það að atvinnu að berjast, meðan á víkingaferðum stóð, og þeir sem gera það komast sennilega ekki hjá því að vera baráttuglaðir.

Í heimildum frá þeim löndum sem urðu fyrir árásum víkinga eru til frásagnir af hroðalegum aðförum þeirra, og má lesa nokkuð um það í bók Magnúsar Magnússonar, Víkingar í stríði og friði, sem kom út 1981. Fyrir hinu sama vottar í íslenskum heimildum. Í Landnámabók kemur við sögu Ölvir barnakarl og er sagður „maðr ágætr í Nóregi; hann var víkingr mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaðr.“ Auðvitað er hugsanlegt að kristnir höfundar geri meira úr ómannlegum háttum heiðinna víkinga en efni voru til, en á hinn bóginn er það alþekkt að í ófriði geta menn sýnt meiri tilfinningakulda en við eigum auðvelt með að ímynda okkur.


Norskur skjöldur frá um 905 e.Kr. séður að framan (t.v.) og aftan (t.h.).

Í annarri merkingu er orðið víkingur svo notað um allt norrænt fólk á víkingaöld og jafnvel lengur. Árið 1999 birtist til dæmis í tímaritinu Lifandi vísindi grein með fyrirsögninni: „Víkingar á Grænlandi. Nýjar rannsóknir leiða í ljós örlög þeirra. Tortímt af svartadauða? Útrýmt af eskimóum? Fórnarlömb sults og kulda?“ Ósennilegt virðist að norrænir menn sem settust að á Grænlandi hafi gert mikið að því að fara í víkingaferðir; þeir hefðu þá væntanlega reynt að búa nær víkingaslóðum. Allavega hafa þeir ekki stundað slíkar ferðir fram á tímabil svartadauða, sem barst ekki til Evrópu fyrr en um miðja 14. öld. Hér merkir víkingur því sýnilega „norrænn maður“, og flest norrænt fólk, jafnvel á svokallaðri víkingaöld, hefur líklega verið fremur friðsamt.

Íslendingasögurnar eru líklega bestu heimildir sem eru til um almenning víkingaaldar, þó að þær séu að vísu ekki skrifaðar fyrr en tveimur til þremur öldum eftir að víkingaöld lauk. Þær segja raunar frá mörgum mannvígum, en þau voru oftast unnin í hefndarskyni fyrir einhverjar misgerðir, af særðum metnaði eða afbrýðisemi; siðareglur samfélagsins kröfðust þess að menn hefndu fyrir misgerðir ef þeir vildu lifa við fulla sæmd. Í sögunum lítur samt allt gott fólk á mannvíg sem eitthvað illt; ekki er hægt að segja að þær lýsi bardagaglöðu fólki.

Vopn víkinga í þrengri merkingu orðsins hafa líklega verið nokkurn veginn þau sömu og vopn víkingaaldarfólks almennt. Nánast öll voru þau gerð af hvössum járnhlutum sem mátti stinga eða höggva með í líkama andstæðingsins svo að honum blæddi til ólífis. Dæmigerð höggvopn voru axir, sem virðast hafa verið einna algengustu vopn Íslendinga. Algeng lagvopn voru spjót, járnoddar á trésköftum, sem mátti hvort sem var stinga með eða kasta. Sverð voru einnig notuð, tvíeggja sveðjur sem menn báru í slíðri við mittisbelti sitt. Heldur tæknilegri vopn voru bogar, og þeir voru einu skotvopnin sem þekktust á víkingaöld. Auk vopna beittu víkingar svo eldi til að hrekja fólk á flótta og tortíma því. Í svokölluðum samtíðarsögum íslenskum, sem gerast nokkrum öldum eftir lok víkingaaldar, er oft eins og grjót sem menn köstuðu sé skæðasta vopnið.

Til varnar höfðu menn skildi úr tré. Einnig er talað um vígflaka, tréfleka, sem víkingar hlífðu sér undir gegn grjóti og vopnum, einkum meðan þeir brutu virkisveggi.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • The 'Viking Shield' from Archaeology. Peter Beatson. Myndin er upphaflega í Nicolaysen, N. (1882). The Viking ship discovered at Gokstad in Norway. Christiana: Oslo (endurprentað 1971 Gregg International Publ.: Westmead UK).

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hver voru helstu vopn víkinga og hvernig voru þau gerð? Voru þeir mjög bardagaglaðir?
...