Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvernig vann Persaveldi sig upp aftur eftir að Alexander mikli lagði það undir sig?

Svavar Hrafn Svavarsson

Hið forna Persaveldi sem Alexander mikli Makedóníukonungur (356-323 fyrir Krist) sundraði er aftur upp risið við lok 2. aldar fyrir Krist, sem veldi Arsakída. Persar taka aftur sjálfir við völdum á 3. öld eftir Krist.

Fyrst er að gera greinarmun á Persíu og Persaveldi. Dareios III Persakonungur var ráðinn af dögum árið 330 fyrir Krist. Þá hafði Alexander mikli sundrað Persaveldi. Upphaf þessa veldis má rekja til ársins 559 fyrir Krist þegar Kýros II tók við völdum í sjálfri Persíu, svæðinu norðaustan við Persaflóa, sem nú heitir Fars. Hann braust undan yfirvaldi Meda í norðri og lagði undir Persíu nærliggjandi landsvæði. Heimsveldi Persa var gríðarstórt þegar Alexander gerði innrás, og samsett af mörgum þjóðum. Persía var kjarninn. Þannig er munur á Persíu og Persaveldi, eins og á Róm og Rómaveldi.

Í einum skilningi leið Persaveldi ekki undir lok með landvinningum Alexanders, því að stór hluti þess laut löngum einum stjórnanda. Í öðrum skilningi leið veldið undir lok, því að Persar sjálfir réðu ekki lengur lögum og lofum. Sjálfir náðu Persar ekki undirtökunum aftur fyrr en á 3. öld eftir Krist. Það er síðan erfið spurning hvernig þeir náðu undirtökunum. Athugum fyrst söguna í grófum dráttum.

Eftir dauða Alexanders var lengi deilt um erfðir og yfirráð. Stór hluti Persaveldis, þar á meðal Persía, féll að lokum í hlut Selevkosar I (um 358-281). Veldið er kennt við hann og kallast Selevkídaveldi, en þungamiðja þess varð um síðir í Sýrlandi. Það var víðfeðmt og sundurleitt og kvarnaðist smám saman af því.

Mikilvægur kafli þeirrar sögu hófst hjá herskáum hirðingjum, skýþverskum að sögn, vestan við Kaspíahaf á fyrri hluta 3. aldar fyrir Krist. Þeir ráðast suður, inn í Selevkídaveldi, og hafa myndað vísi að konungdæmi Parþa um miðja öldina þar sem nú er Túrkmenistan og Norður-Íran. Fyrsti leiðtogi þeirra er nefndur Arsakes I, og konungar veldisins Arsakídar. Það var Míþridates eða Míþradates I (konungur 171-138 fyrir Krist) sem í raun stofnsetti hið víðlenda og öfluga Parþaveldi. Hann innlimaði meðal annars sjálfa Persíu. Parþar réðu yfir kjarna hins forna Persaveldis en voru ekki Persar. Í raun tóku þeir við fullmótuðu konungdæmi Selevkída og aðlöguðu sig, héldu í hefðir þeirra og tóku að lokum sess þeirra. Þeir voru löngum þyrnir í augum Rómverja. Parþar réðu yfir Persíu og nærliggjandi svæðum til 3. aldar eftir Krist.


Mósaíkmynd frá Pompei af Alexander mikla í orrustunni við Issus.

Við upphaf þeirrar aldar gætir óróa hjá hinum eiginlegu Persum í Persíu, einkanlega hjá Sasanídum, ætt sem kennd er við Sasan. Hann var afi Ardasjírs I sem lagði síðasta konung Parþa að velli árið 227. Þannig taka Sasanídar við veldi Arsakída og stofna Persaveldi hið nýja, því að þeir reyndu markvisst að endurvekja liðna tíð, meðal annars forn-persneskar Zaraþústrukenningar, og bola burt parþverskum og grísk-rómverskum áhrifum.

Þetta veldi varð um tíma jafnvel víðlendara en Parþaveldi, gríðarlega öflugt og löngum helsta ógn Rómaveldis í Asíu, einkum á valdatíma Sjapúrs II á 4. öld. Lengstum voru vesturmörk veldisins við Tígrisfljót og austurmörkin við svæðið sem nú er Afganistan, stundum víðfeðmara. Það leið ekki undir lok fyrr en með innrás Araba 633 og sigri árið 641. Þegar Sasanídaveldið féll hafði það átt í stríðum við Miklagarð (Rómaveldi í austri) sem höfðu í raun lamað veldið. Þá hóf Íslam innreið sína og arabískir kalífar, en menning Sasanída réð sem fyrr miklu.

Eftir daga Alexanders lýtur kjarni Persaveldis því þrenns konar stjórnendum í fornöld, Selevkídum, Arsakídum og Sasanídum. Veldi Selevkída er arfur Alexanders, þar sem grísk menning ræður ríkjum. Arsakídar taka við þeirri menningu, en yfirráðin byggjast á hernaðarmætti; hin gríska yfirstétt og menning hennar hverfur ekki á svipstundu. Þó hverfur smám saman hið gríska yfirbragð og við lok 2. aldar fyrir Krist virðast Arsakídar líta á sig sem arftaka hinna fornu Persakónga; Míþradates II kallar sig konung konunganna að hætti hinna fornu Persakónga. Þegar hér er komið sögu má segja að hið forna Persaveldi hafi unnið sig upp, en þó með þeim fyrirvara að Persar fóru ekki með völdin. Sjálfir taka þeir við á 3. öld eftir Krist.

Ef ég vissi ekki að þjóðernishyggja ætti upphaf sitt á 19. öld myndi ég nefna hana til sögunnar sem mikilvægasta þáttinn í uppgangi Sasanída. Þeir vísuðu markvisst til sögu og menningar Persíu og þeirra trúarbragða sem átti að sameina veldið.

Á íslensku hefur birst greinargerð um sögu þessara velda eftir finnska fornfræðinginn Patrick Bruun í 3. bindi Mannkynssögu AB, bls. 86-119 (Reykjavík, 1989).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Svavar Hrafn Svavarsson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

10.8.2000

Spyrjandi

Óttar Jörgen Sigurðsson, f. 1987

Tilvísun

Svavar Hrafn Svavarsson. „Hvernig vann Persaveldi sig upp aftur eftir að Alexander mikli lagði það undir sig? “ Vísindavefurinn, 10. ágúst 2000. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=766.

Svavar Hrafn Svavarsson. (2000, 10. ágúst). Hvernig vann Persaveldi sig upp aftur eftir að Alexander mikli lagði það undir sig? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=766

Svavar Hrafn Svavarsson. „Hvernig vann Persaveldi sig upp aftur eftir að Alexander mikli lagði það undir sig? “ Vísindavefurinn. 10. ágú. 2000. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=766>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig vann Persaveldi sig upp aftur eftir að Alexander mikli lagði það undir sig?
Hið forna Persaveldi sem Alexander mikli Makedóníukonungur (356-323 fyrir Krist) sundraði er aftur upp risið við lok 2. aldar fyrir Krist, sem veldi Arsakída. Persar taka aftur sjálfir við völdum á 3. öld eftir Krist.

Fyrst er að gera greinarmun á Persíu og Persaveldi. Dareios III Persakonungur var ráðinn af dögum árið 330 fyrir Krist. Þá hafði Alexander mikli sundrað Persaveldi. Upphaf þessa veldis má rekja til ársins 559 fyrir Krist þegar Kýros II tók við völdum í sjálfri Persíu, svæðinu norðaustan við Persaflóa, sem nú heitir Fars. Hann braust undan yfirvaldi Meda í norðri og lagði undir Persíu nærliggjandi landsvæði. Heimsveldi Persa var gríðarstórt þegar Alexander gerði innrás, og samsett af mörgum þjóðum. Persía var kjarninn. Þannig er munur á Persíu og Persaveldi, eins og á Róm og Rómaveldi.

Í einum skilningi leið Persaveldi ekki undir lok með landvinningum Alexanders, því að stór hluti þess laut löngum einum stjórnanda. Í öðrum skilningi leið veldið undir lok, því að Persar sjálfir réðu ekki lengur lögum og lofum. Sjálfir náðu Persar ekki undirtökunum aftur fyrr en á 3. öld eftir Krist. Það er síðan erfið spurning hvernig þeir náðu undirtökunum. Athugum fyrst söguna í grófum dráttum.

Eftir dauða Alexanders var lengi deilt um erfðir og yfirráð. Stór hluti Persaveldis, þar á meðal Persía, féll að lokum í hlut Selevkosar I (um 358-281). Veldið er kennt við hann og kallast Selevkídaveldi, en þungamiðja þess varð um síðir í Sýrlandi. Það var víðfeðmt og sundurleitt og kvarnaðist smám saman af því.

Mikilvægur kafli þeirrar sögu hófst hjá herskáum hirðingjum, skýþverskum að sögn, vestan við Kaspíahaf á fyrri hluta 3. aldar fyrir Krist. Þeir ráðast suður, inn í Selevkídaveldi, og hafa myndað vísi að konungdæmi Parþa um miðja öldina þar sem nú er Túrkmenistan og Norður-Íran. Fyrsti leiðtogi þeirra er nefndur Arsakes I, og konungar veldisins Arsakídar. Það var Míþridates eða Míþradates I (konungur 171-138 fyrir Krist) sem í raun stofnsetti hið víðlenda og öfluga Parþaveldi. Hann innlimaði meðal annars sjálfa Persíu. Parþar réðu yfir kjarna hins forna Persaveldis en voru ekki Persar. Í raun tóku þeir við fullmótuðu konungdæmi Selevkída og aðlöguðu sig, héldu í hefðir þeirra og tóku að lokum sess þeirra. Þeir voru löngum þyrnir í augum Rómverja. Parþar réðu yfir Persíu og nærliggjandi svæðum til 3. aldar eftir Krist.


Mósaíkmynd frá Pompei af Alexander mikla í orrustunni við Issus.

Við upphaf þeirrar aldar gætir óróa hjá hinum eiginlegu Persum í Persíu, einkanlega hjá Sasanídum, ætt sem kennd er við Sasan. Hann var afi Ardasjírs I sem lagði síðasta konung Parþa að velli árið 227. Þannig taka Sasanídar við veldi Arsakída og stofna Persaveldi hið nýja, því að þeir reyndu markvisst að endurvekja liðna tíð, meðal annars forn-persneskar Zaraþústrukenningar, og bola burt parþverskum og grísk-rómverskum áhrifum.

Þetta veldi varð um tíma jafnvel víðlendara en Parþaveldi, gríðarlega öflugt og löngum helsta ógn Rómaveldis í Asíu, einkum á valdatíma Sjapúrs II á 4. öld. Lengstum voru vesturmörk veldisins við Tígrisfljót og austurmörkin við svæðið sem nú er Afganistan, stundum víðfeðmara. Það leið ekki undir lok fyrr en með innrás Araba 633 og sigri árið 641. Þegar Sasanídaveldið féll hafði það átt í stríðum við Miklagarð (Rómaveldi í austri) sem höfðu í raun lamað veldið. Þá hóf Íslam innreið sína og arabískir kalífar, en menning Sasanída réð sem fyrr miklu.

Eftir daga Alexanders lýtur kjarni Persaveldis því þrenns konar stjórnendum í fornöld, Selevkídum, Arsakídum og Sasanídum. Veldi Selevkída er arfur Alexanders, þar sem grísk menning ræður ríkjum. Arsakídar taka við þeirri menningu, en yfirráðin byggjast á hernaðarmætti; hin gríska yfirstétt og menning hennar hverfur ekki á svipstundu. Þó hverfur smám saman hið gríska yfirbragð og við lok 2. aldar fyrir Krist virðast Arsakídar líta á sig sem arftaka hinna fornu Persakónga; Míþradates II kallar sig konung konunganna að hætti hinna fornu Persakónga. Þegar hér er komið sögu má segja að hið forna Persaveldi hafi unnið sig upp, en þó með þeim fyrirvara að Persar fóru ekki með völdin. Sjálfir taka þeir við á 3. öld eftir Krist.

Ef ég vissi ekki að þjóðernishyggja ætti upphaf sitt á 19. öld myndi ég nefna hana til sögunnar sem mikilvægasta þáttinn í uppgangi Sasanída. Þeir vísuðu markvisst til sögu og menningar Persíu og þeirra trúarbragða sem átti að sameina veldið.

Á íslensku hefur birst greinargerð um sögu þessara velda eftir finnska fornfræðinginn Patrick Bruun í 3. bindi Mannkynssögu AB, bls. 86-119 (Reykjavík, 1989).

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...