Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið er já; það er tvímælalaust talið hugsanlegt að menn geti lifað á öðrum plánetum. Til þess þyrfti þó vafalítið "hjálp tækninnar" eins og spyrjendur segja, að minnsta kosti fyrst í stað.
Við fyrstu sýn kann að virðast nauðsynlegt að skipta svarinu í tvennt eftir því hvort átt er við reikistjörnur í sólkerfi okkar eða utan þess. Svo er þó ekki þegar betur er að gáð, því að grundvallaratriði málsins eru sameiginleg öllum reikistjörnum, hvar sem þær eru í geimnum. Hins vegar verður að sjálfsögðu gífurlegur munur á möguleikum manna til að komast til annarra reikistjarna eftir því hve langt þær eru frá okkur. Um það má lesa nánar í svari Árdísar Elíasdóttur við spurningunni Geta menn ekki sent geimskutlu með nokkrum fjölskyldum til að kanna líf í öðrum sólkerfum? og í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Eru til staðfest dæmi þess að geimverur séu til?
Sólstjörnur geisla yfirleitt frá sér ljósi og orku jafnt í allar áttir. Orkan sem fellur á hverja flatareiningu, til dæmis á fermetra, minnkar þá þegar fjær dregur sólstjörnunni og er í öfugu hlutfalli við fjarlægðina í öðru veldi. Nálægt sólinni er þessi orka oft svo mikil að lofthjúpur gufar upp frá reikistjörnum sem þar eru, samanber til dæmis Merkúríus í sólkerfi okkar. Ef plánetur eru hins vegar mjög langt í burtu frá sólstjörnu verður lofthjúpur þeirra svo kaldur að líf getur ekki þrifist þar við náttúruleg skilyrði.
En milli þessara öfga er svæði sem er í laginu eins og kúla með kúlulaga eyðu í miðjunni. Þar getur hitastig lofthjúps á plánetu orðið hæfilegt fyrir líf eins og við þekkjum það. Þetta svæði kallast lífhvolf sólstjörnunnar.
En hæfilegt hitastig er ekki eina nauðsynlega forsendan fyrir lífi eða mannvist. Í lofthjúpnum þarf líka að vera nógu mikið af efnum eins og súrefni sem eru nauðsynleg þeim lífverum sem um er að ræða í hverju tilviki. Þetta skilyrði er þó svolítið sveigjanlegt á tímakvarða stjarnvísindanna því að við vitum að efnahlutföll í lofthjúpi reikistjarna eins og jarðar og Mars hafa breyst verulega í tímans rás. Áður en líf kom til sögunnar hér á jörð var til dæmis ekkert súrefni í lofthjúpnum, en það jókst síðan um leið og lífið efldist. Ýmsir þeirra sem hvetja til landnáms manna á Mars í framtíðinni telja einmitt að breyta megi lofthjúpnum þar á svipaðan hátt mönnum í hag.
Þannig getum við vel hugsað okkur að mennskir landnemar á reikistjörnum, hvort sem væri innan eða utan sólkerfisins, gætu ef til vill lagað aðstæður smám saman að þörfum sínum eftir landnámið, þannig að þeir gætu þá sleppt þeim tæknilegu hjálpartækjum sem þeir hefðu vafalítið þurft í byrjun.
Fyrstu tilraunir manna til landnáms á öðrum reikistjörnum munu að sjálfsögðu beinast að Mars. Þangað er tiltölulega auðvelt að komast og skilyrði þar eru ekki alltof fjarri því sem hentar mönnum best. Aðrar reikistjörnur sólkerfisins virðast á hinn bóginn ekki bjóða upp á heppileg skilyrði til landnáms. Sömuleiðis verður vafalaust löng bið á því að landnám verði reynt utan sólkerfisins því að bæði þurfa menn að finna reikistjörnur sem kynnu að virðast heppilegar fyrir slíkt, kanna aðstæður þar og síðan að senda þangað landnámsleiðangur sem yrði lengi á leiðinni vegna fjarlægðanna í geimnum, samanber fyrrnefnd svör Árdísar og Þorsteins.
Meira lesefni:Er eða hefur verið líf á reikistjörnunni Mars?
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er hugsanlegt að maðurinn geti lifað á öðrum plánetum með hjálp tækninnar?“ Vísindavefurinn, 23. október 2000, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1020.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 23. október). Er hugsanlegt að maðurinn geti lifað á öðrum plánetum með hjálp tækninnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1020
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er hugsanlegt að maðurinn geti lifað á öðrum plánetum með hjálp tækninnar?“ Vísindavefurinn. 23. okt. 2000. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1020>.