Er búið að afsanna afstæðiskenningu Einsteins með hraðeindum, það eru eindir sem fara hraðar en ljóshraði? Getur það boðið upp á möguleika til að koma geimskipum á margfaldan ljóshraða með nægri orku og réttri tækni?Spurningin snýst um svokallaðar hraðeindir, á ensku "tachyons," en það er sérstök tegund efniseinda sem sumir hafa gert sér í hugarlund og ættu að fara hraðar en ljósið. Yfirleitt er þá gert ráð fyrir að þær mundu aldrei fara niður fyrir ljóshraða ef þær væru til á annað borð. Sömuleiðis mundu þær líkast til ekkert víxlverka við annað efni. Tilvist þessara einda hefur komið til nokkurrar umræðu í kennilegri eðlisfræði öðru hverju á 20. öld. Í þeirri fræðigrein eru menn sífellt að velta fyrir sér nýjum kenningum og hugmyndum um leið og þekkingu og tilraunum fleygir fram. Það er hins vegar ekki talið nýjum hugmyndum til tekna ef þær fela á einhvern hátt í sér að hraðeindir séu til eða að kenningarnar leiði til þess þegar að er gáð. Þetta stafar af því að tilvist hraðeinda mundi flækja verulega þá heildarmynd sem við gerum okkur af umheiminum nú á dögum og engar vísbendingar hafa fundist um þessar eindir. Einn helsti vandinn við hraðeindir er sá hvernig við mundum verða þeirra vör ef þær væru til. Þannig er umræðan um tilvist þeirra að sumu leyti svipuð umræðunni um efni sem gæti verið til utan við heiminn sem við lifum í eða umræðunni um það sem var á undan upphafi alheimsins, eða öðrum umræðu- og umhugsunarefnum af þessum toga. Þessi fyrirbæri eru vissulega "til" í þeim skilningi sem nær yfir hugarheim okkar; þau leita á hugann og við finnum með okkur þörf fyrir að höndla þau með einhverjum hætti, finna þeim stað í hugsun eða veruleika. En við kunnum þá einmitt að þurfa að horfast í augu við það að við getum ef til vill aldrei orðið þeirra vör og því sé einfaldara og affarasælla að hugsa sér að þau séu einfaldlega "ekki til" í þeim hversdagslega skilningi sem snýr að áþreifanlegum ytri veruleika (sjá nánar um þennan hugsunarhátt í þessu svari eftir Hauk Má Helgason). Hugsanleg uppgötvun hraðeinda mundi aukinheldur trúlegast engu breyta um möguleika okkar til að koma venjulegum jarðneskum hlutum á meiri hraða en ljósið hefur í tómarúmi. Eins og áður hefur komið fram í svörum hér á Vísindavefnum stefnir orka slíkra hluta á óendanlegt þegar hraði þeirra miðað við okkur nálgast ljóshraðann (sjá nánar í þessu svari eftir sama höfund). Þar sem við höfum ekki óendanlega orku til ráðstöfunar (hún er ekki til), þá getum við alls ekki komið þessum hlutum upp á ljóshraða, hvað þá fram yfir hann.
Er búið að afsanna afstæðiskenninguna með hraðeindum?
Útgáfudagur
24.10.2000
Spyrjandi
Jón Ólafur Valdimarsson
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er búið að afsanna afstæðiskenninguna með hraðeindum?“ Vísindavefurinn, 24. október 2000, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1037.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 24. október). Er búið að afsanna afstæðiskenninguna með hraðeindum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1037
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er búið að afsanna afstæðiskenninguna með hraðeindum?“ Vísindavefurinn. 24. okt. 2000. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1037>.