Sólin Sólin Rís 02:56 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 02:26 • Sest 04:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:54 • Síðdegis: 20:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:54 • Síðdegis: 13:57 í Reykjavík

Hvað var gert við hina látnu hjá neanderdalsmönnum?

Haraldur Ólafsson mannfræðingur

Neanderdalsmenn voru uppi frá því fyrir um 130.000 árum og þar til fyrir rétt innan við 30.000 árum. Þeir voru því uppi á ísaldarskeiði í um það bil hundrað þúsund ár. Þeir hafa nokkra sérstöðu meðal yngri tegunda homo og er deilt um hvort þeir hafi verið hlekkur í þróunarkeðju hans í þeim skilningi að tegundin hafi þróast í nútímamanninn, það er að segja okkur sem nú erum uppi. Nýlegar rannsóknir á erfðamengi hans sem tekist hefur að vinna úr beinum benda til þess að neanderthalensis hafi verið sérstök undirtegund sem ekki þróaðist frekar. Þó er ekki loku fyrir það skotið að einhver blöndun hans við nútímamanninn hafi átt sér stað.

Auk margs sem er harla forvitnilegt um neanderdalsmanninn er að hann verður, að því er best er vitað, fyrstur manna til þess að búa um lík hinna látnu. Neanderdalsmenn bjuggu gjarnan í hellum, eða réttara sagt: Þar hafa fundist margar minjar um búsetu þeirra. Víða hafa fundist merki þess að þeir grófu hina dauðu í hellisgólfinu. Á nokkrum stöðum í Frakklandi hafa fundist grafir neanderdalsmanna í hellisgólfum.

Í Krapina í Króatíu hefur fundist heill grafreitur þar sem greinilega hefur verið búið um líkin og þau lögð í sérstakar stellingar. Þessar grafir eru 70.000 ára gamlar. Á Karmelfjalli í Ísrael hefur fundist 60.000 ára gröf neanderdalsmanns þar sem varðveist hafa mjaðmarbein en höfuð og fótleggi vantar. Virðist sem þarna hafi verið um að ræða sið sem sums staðar hefur tíðkast til skamms tíma. Er þá líkið hlutað sundur, hold skafið af beinum og höfuð þá ekki grafið með öðrum beinum, heldur varðveitt eða grafið á öðrum stað. Gæti þetta bent til þess að um þetta leyti hafi neanderdalsmaðurinn verið farinn að óttast hina dauðu, viljað sýna þeim sérstaka virðingu eða jafnvel notað bein þeirra í einhverjum tilgangi, til dæmis töfra. Algengt var víða um heim að losa höfuð frá bol til að koma þannig í veg fyrir að hinn látni gengi aftur.

Í Shanindarhelli í Kúrdistan í norðurhéruðum Íraks hafa fundist grafir níu neanderdalsmanna. Hefur verið búið um fjögur líkanna. Þar eru einnig blómafræ yfir líkamsleifum og er engu líkara en að blóm hafi verið lögð í gröfina. Gæti það bent til þess að þeir sem þar voru að verki hafi trúað á framhaldslíf, og einnig að þeir hafi syrgt hinn látna og viljað gera útför hans virðulega.

Hvernig sem því er varið þá er augljóst að neanderdalsmenn litu öðrum augum á dauðann en þær tegundir manna sem á undan voru komnar, og að þessu leyti virðist sem þeir séu andlega skyldir nútímamönnum þótt ekki sé víst að hinn líkamlegi eða líffræðilegi skyldleiki sé mikill.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

Haraldur Ólafsson mannfræðingur

fyrrv. prófessor í mannfræði við HÍ

Útgáfudagur

31.10.2000

Spyrjandi

Einar Baldvin Haraldsson, f. 1985

Tilvísun

Haraldur Ólafsson mannfræðingur. „Hvað var gert við hina látnu hjá neanderdalsmönnum?“ Vísindavefurinn, 31. október 2000. Sótt 24. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1060.

Haraldur Ólafsson mannfræðingur. (2000, 31. október). Hvað var gert við hina látnu hjá neanderdalsmönnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1060

Haraldur Ólafsson mannfræðingur. „Hvað var gert við hina látnu hjá neanderdalsmönnum?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2000. Vefsíða. 24. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1060>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var gert við hina látnu hjá neanderdalsmönnum?
Neanderdalsmenn voru uppi frá því fyrir um 130.000 árum og þar til fyrir rétt innan við 30.000 árum. Þeir voru því uppi á ísaldarskeiði í um það bil hundrað þúsund ár. Þeir hafa nokkra sérstöðu meðal yngri tegunda homo og er deilt um hvort þeir hafi verið hlekkur í þróunarkeðju hans í þeim skilningi að tegundin hafi þróast í nútímamanninn, það er að segja okkur sem nú erum uppi. Nýlegar rannsóknir á erfðamengi hans sem tekist hefur að vinna úr beinum benda til þess að neanderthalensis hafi verið sérstök undirtegund sem ekki þróaðist frekar. Þó er ekki loku fyrir það skotið að einhver blöndun hans við nútímamanninn hafi átt sér stað.

Auk margs sem er harla forvitnilegt um neanderdalsmanninn er að hann verður, að því er best er vitað, fyrstur manna til þess að búa um lík hinna látnu. Neanderdalsmenn bjuggu gjarnan í hellum, eða réttara sagt: Þar hafa fundist margar minjar um búsetu þeirra. Víða hafa fundist merki þess að þeir grófu hina dauðu í hellisgólfinu. Á nokkrum stöðum í Frakklandi hafa fundist grafir neanderdalsmanna í hellisgólfum.

Í Krapina í Króatíu hefur fundist heill grafreitur þar sem greinilega hefur verið búið um líkin og þau lögð í sérstakar stellingar. Þessar grafir eru 70.000 ára gamlar. Á Karmelfjalli í Ísrael hefur fundist 60.000 ára gröf neanderdalsmanns þar sem varðveist hafa mjaðmarbein en höfuð og fótleggi vantar. Virðist sem þarna hafi verið um að ræða sið sem sums staðar hefur tíðkast til skamms tíma. Er þá líkið hlutað sundur, hold skafið af beinum og höfuð þá ekki grafið með öðrum beinum, heldur varðveitt eða grafið á öðrum stað. Gæti þetta bent til þess að um þetta leyti hafi neanderdalsmaðurinn verið farinn að óttast hina dauðu, viljað sýna þeim sérstaka virðingu eða jafnvel notað bein þeirra í einhverjum tilgangi, til dæmis töfra. Algengt var víða um heim að losa höfuð frá bol til að koma þannig í veg fyrir að hinn látni gengi aftur.

Í Shanindarhelli í Kúrdistan í norðurhéruðum Íraks hafa fundist grafir níu neanderdalsmanna. Hefur verið búið um fjögur líkanna. Þar eru einnig blómafræ yfir líkamsleifum og er engu líkara en að blóm hafi verið lögð í gröfina. Gæti það bent til þess að þeir sem þar voru að verki hafi trúað á framhaldslíf, og einnig að þeir hafi syrgt hinn látna og viljað gera útför hans virðulega.

Hvernig sem því er varið þá er augljóst að neanderdalsmenn litu öðrum augum á dauðann en þær tegundir manna sem á undan voru komnar, og að þessu leyti virðist sem þeir séu andlega skyldir nútímamönnum þótt ekki sé víst að hinn líkamlegi eða líffræðilegi skyldleiki sé mikill.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...