Sólin Sólin Rís 05:29 • sest 21:25 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 19:47 • Sest 05:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:41 • Síðdegis: 18:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:54 • Síðdegis: 24:11 í Reykjavík

Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?

Ásta Kristjana Sveinsdóttir

Fólk greinir mjög á um hvort til sé manneðli og ef svo er hvað það sé. Sömuleiðis er mikill ágreiningur um hvort eðlismunur sé á milli kynjanna og ef svo er í hverju hann felist. Ástæðan fyrir þessum ágreiningi er sú að spurningin um manneðlið (og svo kyneðlið) er oftast ekki aðeins spurning um það hvort það séu einhverjir eiginleikar sem eru eðlislægir eða nauðsynlegir manneskjunni, þannig að ef hún hefði þá ekki væri hún ekki manneskja, heldur er eðlishugmyndin oft höfð sem viðmiðun þegar dómar eru felldir, til þess að réttlæta hvernig farið er með fólk, eða sem haldreipi þegar krafist er réttlætis. Allt tal um eðli getur nefnilega bæði haft það hlutverk að lýsa hvernig eðlið er og gefa forskrift að því hvernig það á að vera. Þetta tvöfalda hlutverk er það sem gerir eðlishugmyndina svo sterkt vopn í hugsjónabaráttu en einnig það sem gerir hana óvinsæla í herbúðum fólks sem hefur fengið að kenna á svoleiðis vopni.

Manneðli er gjarnan gert að uppfylla eftirtalin skilyrði, enda þótt þeim sé ekki alltaf haldið nægilega aðskildum og oft sé hreint ekki ljóst hvaða skilyrði eðlið á að uppfylla:

  1. Að vera eiginleiki (eða safn eiginleika) sem er nauðsynlegur manneskjunni þannig að aðeins manneskjur hafi eiginleikann og allar manneskjur hafi hann og missi einhver þennan eiginleika hætti sú hin sama ekki aðeins að vera manneskja heldur yfirleitt að vera til eða verði að einhverju öðru.
  2. Að vera eiginleiki sem skýrir hegðan mannskepnunnar að einhverju leyti.
Fyrra skilyrðið gerir það að verkum að ekki er nóg að flestallt fólk, eða kannski meirihluti fólks, hafi eiginleikann sem um ræðir, heldur þurfa allar manneskjur að hafa hann. Eðli er því ekki það sama og samsafn eiginleika týpískrar manneskju, því alls ekki þarf svo að vera að allar manneskjur hafi eiginleika týpískrar manneskju. Eðli er einmitt sameiginlegt öllum manneskjum. Seinna skilyrðið tjáir þá kröfu að þessi nauðsynlegi eiginleiki mannfólksins sé yfirhöfuð áhugaverður, að hann gefi vísbendingu um aðra eiginleika fólks eða hvernig það er gjarnt á að hegða sér við mismunandi aðstæður. Af þessum sökum hafa líkamlegir eiginleikar ekki verið vinsælir kandidatar fyrir manneðlið nema þegar fylgt hefur sögunni skýring á því hvernig þeir eiginleikar eiga að geta gefið okkur vísbendingu um aðra eiginleika mannskepnunnar, svo sem vitsmunalega, tilfinningalega, eða siðferðilega eiginleika.

Eru þá til einhverjir eiginleikar sem uppfylla þessi skilyrði? Settar hafa verið fram ýmsar kenningar um hver eða hverjir eðliseiginleikar manskepnunnar séu, svo sem hæfileikinn til að hugsa rökrétt, hæfileikinn til að vera gerandi (það er að framkvæma en ekki bara bregðast við því sem fyrir verður) og hæfileikinn til að vera sjálfs sín vitandi. Vandinn er bara sá að enda þótt við reynum að vera varkár og tala ekki um „rökhugsun“ og „sjálfsvitund“ heldur „hæfileikann til að hugsa rökrétt“ og „hæfileikann til að vera sjálfs sín vitandi“ þá lendum við samt í vandræðum þar sem fullt af fólki hefur ekki þessa hæfileika, til dæmis deyr of ungt eða því um líkt. Þetta er vandinn við að reyna að uppfylla fyrra skilyrðið hér að ofan. Hinn aðalvandinn tengist muninum á því að lýsa eðlinu og að gefa forskrift að því hvernig það á að vera, sem ég nefndi hér að ofan. Áhyggjuefnið hér er hvort það að reyna að lýsa eðlinu feli jafnframt í sér að gefin sé forskrift að því hvernig það á að vera þannig að gildisdómar séu felldir um leið. Ef svo er er enn meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort það sem haldið sé fram sem eðli mannskepnunnar er það í raun og veru eða hvort einungis sé um að ræða eiginleika sem finna má í einhverjum ákveðnum þjóðfélagshópum á einhverjum tilteknum stað og tíma á jörðinni.

Þar sem hugmyndir um manneðlið hafa verið notaðar til þess að réttlæta alls konar voðaverk gagnvart fólki þar sem haldið hefur verið fram að ákveðin tegund af fólki sé ekki fyllilega mannleg vegna þess að hún hafi ekki tiltekna eiginleika og eigi þess vegna ekki skilið ýmis réttindi, þá er ráðlegt að líta gagnrýnum augum á hvers kyns tillögur um hvert manneðlið sé. Hins vegar er óljóst hvort barátta fyrir mannréttindum af ýmsu tagi getur verið algerlega án tilvísunar í einhvers konar manneðli, eitthvað sem við eigum öll sameiginlegt og sem gerir það að verkum að við eigum skilið ákveðin grunnréttindi.

Þegar við snúum okkur að spurningunni hvort eðlismunur sé á milli kynjanna blasir enn við óskemmtileg saga. Í gegnum tíðina hefur eðlishyggja hvað varðar kynin iðulega verið talin bæði skýra og réttlæta kynhlutverk svo og aðstöðu- og réttarstöðumun kvenna og karla. Í seinni tíð hafa femínistar hins vegar beitt tvenns konar aðferð til að rétta stöðu kvenna: annars vegar reynt að rjúfa hin sterku þjóðfélagslegu tengsl milli kyns, kynhlutverks og starfa, sem í gegnum tíðina hafa verið tengd ákveðnum kynjum; hins vegar reynt að rétta stöðu þess, sem í gegnum tíðina hefur verið tengt konum og kvennastörfum. Ákveðin tegund af eðlishyggju hefur oft búið að baki síðarnefndu aðferðinni, en þó ekki alltaf (einnig er hægt að nota báðar aðferðir í senn). Baráttuaðferð feminískra eðlishyggjusinna hefur einmitt oft falist í að taka því sem gjarnan hefur verið tengt við kveneðli, svo sem hæfileika til að vera nærandi og umhyggjusöm, til að eiga í nánum tilfinningatengslum, og svo framvegis, opnum örmum og segja: jú þetta er eðli kvenna og það er gott!

Vandinn við feminíska eðlishyggju er hins vegar eftir allt saman líkur vandanum við andfeminíska eðlishyggju: erum við ekki bara með óréttlætanlegar alhæfingar? Enn sem komið er bendir allt til þess að allar alhæfingar sem við getum sett fram, til dæmis um konur, séu þannig að annað hvort séu þær blátt áfram rangar, það er að hreint ekki allar mannverur sem eru ótvírætt konur séu svoleiðis, eða þá að betri skýring er til heldur en að konur séu svoleiðis í eðli sínu, til dæmis þjóðfélagsáhrif og þess háttar. Eðlishyggja hvað varðar kynin á því á brattann að sækja.


Þetta svar er samið frá sjónarhóli heimspekings. Kynjafræðingur hefur einnig fjallað um sömu spurningu hér á Vísindavefnum, sjá svar Þorgerðar Þorvaldsdóttur

Höfundur

doktorsnemi í heimspeki við MIT

Útgáfudagur

3.11.2000

Spyrjandi

Ólafía Svansdóttir

Tilvísun

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. „Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“ Vísindavefurinn, 3. nóvember 2000. Sótt 22. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1078.

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. (2000, 3. nóvember). Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1078

Ásta Kristjana Sveinsdóttir. „Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“ Vísindavefurinn. 3. nóv. 2000. Vefsíða. 22. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1078>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?
Fólk greinir mjög á um hvort til sé manneðli og ef svo er hvað það sé. Sömuleiðis er mikill ágreiningur um hvort eðlismunur sé á milli kynjanna og ef svo er í hverju hann felist. Ástæðan fyrir þessum ágreiningi er sú að spurningin um manneðlið (og svo kyneðlið) er oftast ekki aðeins spurning um það hvort það séu einhverjir eiginleikar sem eru eðlislægir eða nauðsynlegir manneskjunni, þannig að ef hún hefði þá ekki væri hún ekki manneskja, heldur er eðlishugmyndin oft höfð sem viðmiðun þegar dómar eru felldir, til þess að réttlæta hvernig farið er með fólk, eða sem haldreipi þegar krafist er réttlætis. Allt tal um eðli getur nefnilega bæði haft það hlutverk að lýsa hvernig eðlið er og gefa forskrift að því hvernig það á að vera. Þetta tvöfalda hlutverk er það sem gerir eðlishugmyndina svo sterkt vopn í hugsjónabaráttu en einnig það sem gerir hana óvinsæla í herbúðum fólks sem hefur fengið að kenna á svoleiðis vopni.

Manneðli er gjarnan gert að uppfylla eftirtalin skilyrði, enda þótt þeim sé ekki alltaf haldið nægilega aðskildum og oft sé hreint ekki ljóst hvaða skilyrði eðlið á að uppfylla:

  1. Að vera eiginleiki (eða safn eiginleika) sem er nauðsynlegur manneskjunni þannig að aðeins manneskjur hafi eiginleikann og allar manneskjur hafi hann og missi einhver þennan eiginleika hætti sú hin sama ekki aðeins að vera manneskja heldur yfirleitt að vera til eða verði að einhverju öðru.
  2. Að vera eiginleiki sem skýrir hegðan mannskepnunnar að einhverju leyti.
Fyrra skilyrðið gerir það að verkum að ekki er nóg að flestallt fólk, eða kannski meirihluti fólks, hafi eiginleikann sem um ræðir, heldur þurfa allar manneskjur að hafa hann. Eðli er því ekki það sama og samsafn eiginleika týpískrar manneskju, því alls ekki þarf svo að vera að allar manneskjur hafi eiginleika týpískrar manneskju. Eðli er einmitt sameiginlegt öllum manneskjum. Seinna skilyrðið tjáir þá kröfu að þessi nauðsynlegi eiginleiki mannfólksins sé yfirhöfuð áhugaverður, að hann gefi vísbendingu um aðra eiginleika fólks eða hvernig það er gjarnt á að hegða sér við mismunandi aðstæður. Af þessum sökum hafa líkamlegir eiginleikar ekki verið vinsælir kandidatar fyrir manneðlið nema þegar fylgt hefur sögunni skýring á því hvernig þeir eiginleikar eiga að geta gefið okkur vísbendingu um aðra eiginleika mannskepnunnar, svo sem vitsmunalega, tilfinningalega, eða siðferðilega eiginleika.

Eru þá til einhverjir eiginleikar sem uppfylla þessi skilyrði? Settar hafa verið fram ýmsar kenningar um hver eða hverjir eðliseiginleikar manskepnunnar séu, svo sem hæfileikinn til að hugsa rökrétt, hæfileikinn til að vera gerandi (það er að framkvæma en ekki bara bregðast við því sem fyrir verður) og hæfileikinn til að vera sjálfs sín vitandi. Vandinn er bara sá að enda þótt við reynum að vera varkár og tala ekki um „rökhugsun“ og „sjálfsvitund“ heldur „hæfileikann til að hugsa rökrétt“ og „hæfileikann til að vera sjálfs sín vitandi“ þá lendum við samt í vandræðum þar sem fullt af fólki hefur ekki þessa hæfileika, til dæmis deyr of ungt eða því um líkt. Þetta er vandinn við að reyna að uppfylla fyrra skilyrðið hér að ofan. Hinn aðalvandinn tengist muninum á því að lýsa eðlinu og að gefa forskrift að því hvernig það á að vera, sem ég nefndi hér að ofan. Áhyggjuefnið hér er hvort það að reyna að lýsa eðlinu feli jafnframt í sér að gefin sé forskrift að því hvernig það á að vera þannig að gildisdómar séu felldir um leið. Ef svo er er enn meiri ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort það sem haldið sé fram sem eðli mannskepnunnar er það í raun og veru eða hvort einungis sé um að ræða eiginleika sem finna má í einhverjum ákveðnum þjóðfélagshópum á einhverjum tilteknum stað og tíma á jörðinni.

Þar sem hugmyndir um manneðlið hafa verið notaðar til þess að réttlæta alls konar voðaverk gagnvart fólki þar sem haldið hefur verið fram að ákveðin tegund af fólki sé ekki fyllilega mannleg vegna þess að hún hafi ekki tiltekna eiginleika og eigi þess vegna ekki skilið ýmis réttindi, þá er ráðlegt að líta gagnrýnum augum á hvers kyns tillögur um hvert manneðlið sé. Hins vegar er óljóst hvort barátta fyrir mannréttindum af ýmsu tagi getur verið algerlega án tilvísunar í einhvers konar manneðli, eitthvað sem við eigum öll sameiginlegt og sem gerir það að verkum að við eigum skilið ákveðin grunnréttindi.

Þegar við snúum okkur að spurningunni hvort eðlismunur sé á milli kynjanna blasir enn við óskemmtileg saga. Í gegnum tíðina hefur eðlishyggja hvað varðar kynin iðulega verið talin bæði skýra og réttlæta kynhlutverk svo og aðstöðu- og réttarstöðumun kvenna og karla. Í seinni tíð hafa femínistar hins vegar beitt tvenns konar aðferð til að rétta stöðu kvenna: annars vegar reynt að rjúfa hin sterku þjóðfélagslegu tengsl milli kyns, kynhlutverks og starfa, sem í gegnum tíðina hafa verið tengd ákveðnum kynjum; hins vegar reynt að rétta stöðu þess, sem í gegnum tíðina hefur verið tengt konum og kvennastörfum. Ákveðin tegund af eðlishyggju hefur oft búið að baki síðarnefndu aðferðinni, en þó ekki alltaf (einnig er hægt að nota báðar aðferðir í senn). Baráttuaðferð feminískra eðlishyggjusinna hefur einmitt oft falist í að taka því sem gjarnan hefur verið tengt við kveneðli, svo sem hæfileika til að vera nærandi og umhyggjusöm, til að eiga í nánum tilfinningatengslum, og svo framvegis, opnum örmum og segja: jú þetta er eðli kvenna og það er gott!

Vandinn við feminíska eðlishyggju er hins vegar eftir allt saman líkur vandanum við andfeminíska eðlishyggju: erum við ekki bara með óréttlætanlegar alhæfingar? Enn sem komið er bendir allt til þess að allar alhæfingar sem við getum sett fram, til dæmis um konur, séu þannig að annað hvort séu þær blátt áfram rangar, það er að hreint ekki allar mannverur sem eru ótvírætt konur séu svoleiðis, eða þá að betri skýring er til heldur en að konur séu svoleiðis í eðli sínu, til dæmis þjóðfélagsáhrif og þess háttar. Eðlishyggja hvað varðar kynin á því á brattann að sækja.


Þetta svar er samið frá sjónarhóli heimspekings. Kynjafræðingur hefur einnig fjallað um sömu spurningu hér á Vísindavefnum, sjá svar Þorgerðar Þorvaldsdóttur...