- Á vegum jarðeðlisfræðideildar Veðurstofunnar eru reknir þenslumælar í borholum sem mæla einn þátt aflögunarinnar sem verður í berginu þegar spenna breytist. Mælirinn skynjar rúmmálsbreytingu í borholunni sem hann er steyptur niður í.
- Íslenskar jarðvísindastofnanir standa, í samvinnu við ýmsa útlendinga, fyrir umfangsmiklum landmælingum með GPS-tækjum, sem eru mjög nákvæmar. Þær eru endurteknar með vissu millibili og sýna hvernig jarðskorpan aflagast með tímanum þegar spenna breytist.
- Norræna eldfjallastöðin hefur tekið þátt í notkun nýrrar tækni sem byggist á því að bera saman ratsjár-fjarlægðarmælingar sem gerðar eru með reglulegu millibili úr gervitunglum. Samanburður slíkra mælinga gefur breytingar í landhæð með tímanum.
- Smáskjálftar geta gefið til kynna breytingar á spennu á tilteknum svæðum. Finna má brotlausnir skjálftanna sem endurspegla spennusviðið.
- S-bylgjur, sem eru ein tegund af skjálftabylgjum, klofna þegar þær fara í gegnum mjög sprungið berg. Bylgjurnar klofna í tvennt og fara hlutarnir mishratt. Tímamunur bylgnanna gefur vísbendingu um þéttleika sprungna og þar með um spennusvið í berginu. Mælingar á þessu eru á tilraunastigi.
- Loks má geta óbeinnar aðferðar sem reynd hefur verið á Raunvísindastofnun um árabil: Að mæla styrk radons, geislavirkrar lofttegundar, í vatnsuppsprettum. Radon myndast sífellt í berginu við sundrun radíns (radíums), sem aftur myndast við sundrun úrans og þóríns í berginu. Styrkur radons í berginu breytist þó lítið því radonið sundrast líka og breytist í önnur efni. Sýnt hefur verið fram á að þegar spennan í berginu er orðin slík að það nálgast brotmörk sín, myndast í því smásprungur sem losa radonið hraðar en áður út í vatnið, og styrkur þess snarhækkar. Radonfrávik hafa mælst á undan mörgum skjálftum á Íslandi, nú síðast á undan stóru skjálftunum á Suðurlandi í júní.
Eru til beinar eða óbeinar aðferðir til að mæla eða meta spennu sem hleðst upp í jarðlögum á undan jarðskjálftum?
Útgáfudagur
6.11.2000
Spyrjandi
Guðmundur Pétursson
Tilvísun
Sigurður Steinþórsson og Páll Einarsson. „Eru til beinar eða óbeinar aðferðir til að mæla eða meta spennu sem hleðst upp í jarðlögum á undan jarðskjálftum?“ Vísindavefurinn, 6. nóvember 2000, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1092.
Sigurður Steinþórsson og Páll Einarsson. (2000, 6. nóvember). Eru til beinar eða óbeinar aðferðir til að mæla eða meta spennu sem hleðst upp í jarðlögum á undan jarðskjálftum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1092
Sigurður Steinþórsson og Páll Einarsson. „Eru til beinar eða óbeinar aðferðir til að mæla eða meta spennu sem hleðst upp í jarðlögum á undan jarðskjálftum?“ Vísindavefurinn. 6. nóv. 2000. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1092>.