Húð okkar skiptist í tvö lög (sjá svar Stefáns B. Sigurðssonar við Er húðin líffæri?). Ytra lagið kallast húðþekja eða yfirhúð (epidermis) og undir því er svokölluð leðurhúð (dermis). Þegar húðflúr er búið til er bleki sprautað í leðurhúðina gegnum lítil göt sem gerð eru á yfirhúðina. Húðflúrið er því mynd á leðurhúðinni sem sést svo í gegnum yfirhúðina. Þar sem frumubreytingar í leðurhúðinni eru litlar helst húðflúrið nánast óbreytt alla ævi. Lítið stoðar að reyna að þvo húðflúrið af þar sem þvottur hefur einungis áhrif á yfirborð húðarinnar.
Húðflúr verður ekki fjarlægt nema með aðgerð sem felur í sér að átt er við leðurhúðina á einn eða annan hátt. Áður fyrr var það yfirleitt gert með því að slípa myndina af eða skera hana úr leðurhúðinni en núorðið eru slíkar aðgerðir oftast framkvæmdar með leysigeislum.
Heimild:
HowStuffWorks.com
Mynd: webshots.com