Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er dáleiðsla?

Rúnar Helgi Andrason

Dáleiðsla kallar fram vitundarástand sem unnt er að nýta í lækningaskyni til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hún er til dæmis nýtt til þess að taka á svefnörðugleikum, erfiðum höfuðverkjum og til að efla einbeitni fólks í námi eða íþróttum.

Hvaða áhrif hefur dáleiðsla?

Mjög algengt er að fólk misskilji dáleiðslu og geri sér óraunhæfar hugmyndir um hana, haldi til dæmis að sá sem er dáleiddur sé nánast viljalaust verkfæri í höndum dávaldsins, eða að hann öðlist andlegan ofurstyrk. Sú er ekki raunin. Áhrif dáleiðslu eru fremur hversdagslegt fyrirbæri sem venjulegt fólk reynir á sjálfu sér, nánast daglega. Dagdraumar eru dæmi um sefjunarástand sem svipar til þeirra. Sama má segja um hug þess sem horfir gagntekinn á sjónvarp, hlýðir á tónlist eða einbeitir sér á einhvern svipaðan hátt. Dáleiðsluástand er í raun ekki nema breytt vitund þar sem athyglinni er beint ákveðið að tilteknu atriði.

Þessu er stundum líkt við það sem gerist hjá þeim sem er milli svefns og vöku að kvöldlagi rétt áður en hann sofnar. Hann veit ekki beinlínis af því að hann liggur út af, heldur dvelst athyglin við eitthvað annað. Dáleiðsla er aðferð til að komast í slíkt ástand og nýta sér þessa sefjun, til dæmis til að skerpa einbeitingu sína um tiltekið atriði. Þannig er um að ræða náttúrlegt vitundarfyrirbæri sem maður finnur fyrir þegar athyglinni er beint að einhverju ákveðnu án þess að umhverfi valdi truflunum. Einbeiting þess sem dáleiddur er verður svo sterk að umhverfisáreiti eða aðrar hugsanir ná ekki að trufla hann og í sumum tilvikum veit hann ekki einu sinni af þeim.

Franski taugasjúkdómafræðingurinn Jean-Martin Charcot (1825-1893) reyndi að beita dáleiðslu til að lækna sefasýki. Myndin er frá árinu 1887.

Reynsla fólks af dáleiðslu er mjög misjöfn. Sumum finnst hún líkust djúpri, nánast svefnkenndri slökun; öðrum finnst þeir svífi um í hugsunum sínum. Í raun er reynsla hvers og eins sérstök og erfitt að lýsa dáleiðslu á mjög almennan hátt. Mikilvægt er að greina á milli dáleiðslu sem notuð er í meðferðarskyni og þeirri dáleiðslu sem dávaldar beita til skemmtunar, og „láta“ fólk gera einhverjar hundakúnstir, þótt hvort tveggja byggist á sama fyrirbærinu, sefnæmi.

Algengar ranghugmyndir um dáleiðslu

Sá sem er dáleiddur er ekki leiksoppur dávaldsins. Þó að sálfræðingur geti laðað fram dáleiðsluástand er staðreyndin sú að engin dáleiðsla verður án vilja þess sem dáleiddur er. Maður undir áhrifum dáleiðslu hefur stjórn á gerðum sínum, líkt því að sá sem dreymir dagdrauma getur stjórnað því hvort hann haldi því áfram. Dáleiðsla byggist á móttækileika þess sem dáleiddur er, og biðji dávaldur þann dáleidda um eitthvað sem gengur gegn sannfæringu hans þá hlýðir hann ekki; ekki fremur en hann mundi gera glaðvakandi. Dáleiðsla er því ekki heilaþvottur, enda þótt hegðun fólks og hugarstarf geti breyst í kjölfar hennar. Sá sem dáleiðir notar fortölur og ábendingar til þess að hafa áhrif en sá sem er dáleiddur er ekki viljalaus móttakandi. Hann getur til dæmis hreyft sig, klórað sér, hnerrað og hóstað á meðan á dáleiðslunni stendur. Og hann getur komist undan dáleiðsluáhrifum – til þess nægir oft að opna augun.

Einnig halda margir, og hafa þá visku sennilega úr bíómyndum, að dáleiðsla sé sérstök þjóðbraut að ofurminni þar sem allar athafnir fólks frá frumbernsku og jafnvel meintum fyrri lífum séu dyggilega skráðar. Svo er ekki, dáleiðsla getur hjálpað fólki að einbeita sér að tilfinningaviðbrögðum og fólk getur rifjað upp eitt og annað í dáleiðslu, en rannsóknir benda ekki til þess að það minni sé betra eða síður brigðult en venjulegt hversdagsminni.

Hvernig fer dáleiðsla fram?

Sá sem leitar til sálfræðings sem kann að beita dáleiðslu spjallar fyrst við sálfræðinginn, segir honum frá vanda sínum og óskum um úrbætur og úrræði. Eftir slíkt spjall kennir sálfræðingurinn viðkomandi hvernig hann eða hún geti komist í svonefnt „leiðsluástand“ sem felst ekki í öðru en að beina athyglinni að einu ákveðnu atriði. Þetta er gert með mismunandi hætti; til dæmis gæti viðkomandi verið látinn horfa á ákveðinn stað í loftinu í nokkrar mínútur. Í Hollywood-útgáfunni er pendúll látinn sveiflast fram og aftur. Um 20% fólks eru það sem kallað er sefnæm og komast auðveldlega í þess konar ástand. Annar fimmtungur fólks á erfitt með þetta. Flestir, það er um 60% fólks, falla þar í milli og láta dáleiðast með dálítilli fyrirhöfn.

Eftir að dáleiðsluástandi er náð mundi sálfræðingurinn efla eða dýpka það með fyrirmælum um slökun, djúpa öndun og með myndrænum lýsingum sem viðkomandi ímyndar sér, til dæmis að hann gangi niður stiga þar sem sefjunin eykst við hvert þrep. Síðan er framhaldið ólíkt eftir því hver vandinn er sem glímt er við, en sálfræðingurinn gefur ábendingar og fyrirmæli sem viðkomandi á að fara eftir, stundum án þess að hann muni eftir að honum hafi verið sagt neitt. Dáleiðslumeðferð tekur mislangan tíma, allt frá tveimur skiptum og upp í tíu. Hlutverk sálfræðingsins er í raun að kenna sjálfsdáleiðslu þannig að maður geti sjálfur nýtt sér þá tækni heima fyrir og tekið á sínum málum.

Dáleiðsla er engin allsherjarlausn á öllum vanda. Eins er víst að hún hentar ekki öllum. Hún felst í raun í kerfisbundinni notkun á sefjunaráhrifum og getur verið gagnleg sé hún rétt notuð.

Mynd:

Höfundur

sálfræðingur

Útgáfudagur

16.2.2000

Spyrjandi

Tómas Kristjánsson, 15 ára

Tilvísun

Rúnar Helgi Andrason. „Hvað er dáleiðsla?“ Vísindavefurinn, 16. febrúar 2000, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=113.

Rúnar Helgi Andrason. (2000, 16. febrúar). Hvað er dáleiðsla? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=113

Rúnar Helgi Andrason. „Hvað er dáleiðsla?“ Vísindavefurinn. 16. feb. 2000. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=113>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er dáleiðsla?
Dáleiðsla kallar fram vitundarástand sem unnt er að nýta í lækningaskyni til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hún er til dæmis nýtt til þess að taka á svefnörðugleikum, erfiðum höfuðverkjum og til að efla einbeitni fólks í námi eða íþróttum.

Hvaða áhrif hefur dáleiðsla?

Mjög algengt er að fólk misskilji dáleiðslu og geri sér óraunhæfar hugmyndir um hana, haldi til dæmis að sá sem er dáleiddur sé nánast viljalaust verkfæri í höndum dávaldsins, eða að hann öðlist andlegan ofurstyrk. Sú er ekki raunin. Áhrif dáleiðslu eru fremur hversdagslegt fyrirbæri sem venjulegt fólk reynir á sjálfu sér, nánast daglega. Dagdraumar eru dæmi um sefjunarástand sem svipar til þeirra. Sama má segja um hug þess sem horfir gagntekinn á sjónvarp, hlýðir á tónlist eða einbeitir sér á einhvern svipaðan hátt. Dáleiðsluástand er í raun ekki nema breytt vitund þar sem athyglinni er beint ákveðið að tilteknu atriði.

Þessu er stundum líkt við það sem gerist hjá þeim sem er milli svefns og vöku að kvöldlagi rétt áður en hann sofnar. Hann veit ekki beinlínis af því að hann liggur út af, heldur dvelst athyglin við eitthvað annað. Dáleiðsla er aðferð til að komast í slíkt ástand og nýta sér þessa sefjun, til dæmis til að skerpa einbeitingu sína um tiltekið atriði. Þannig er um að ræða náttúrlegt vitundarfyrirbæri sem maður finnur fyrir þegar athyglinni er beint að einhverju ákveðnu án þess að umhverfi valdi truflunum. Einbeiting þess sem dáleiddur er verður svo sterk að umhverfisáreiti eða aðrar hugsanir ná ekki að trufla hann og í sumum tilvikum veit hann ekki einu sinni af þeim.

Franski taugasjúkdómafræðingurinn Jean-Martin Charcot (1825-1893) reyndi að beita dáleiðslu til að lækna sefasýki. Myndin er frá árinu 1887.

Reynsla fólks af dáleiðslu er mjög misjöfn. Sumum finnst hún líkust djúpri, nánast svefnkenndri slökun; öðrum finnst þeir svífi um í hugsunum sínum. Í raun er reynsla hvers og eins sérstök og erfitt að lýsa dáleiðslu á mjög almennan hátt. Mikilvægt er að greina á milli dáleiðslu sem notuð er í meðferðarskyni og þeirri dáleiðslu sem dávaldar beita til skemmtunar, og „láta“ fólk gera einhverjar hundakúnstir, þótt hvort tveggja byggist á sama fyrirbærinu, sefnæmi.

Algengar ranghugmyndir um dáleiðslu

Sá sem er dáleiddur er ekki leiksoppur dávaldsins. Þó að sálfræðingur geti laðað fram dáleiðsluástand er staðreyndin sú að engin dáleiðsla verður án vilja þess sem dáleiddur er. Maður undir áhrifum dáleiðslu hefur stjórn á gerðum sínum, líkt því að sá sem dreymir dagdrauma getur stjórnað því hvort hann haldi því áfram. Dáleiðsla byggist á móttækileika þess sem dáleiddur er, og biðji dávaldur þann dáleidda um eitthvað sem gengur gegn sannfæringu hans þá hlýðir hann ekki; ekki fremur en hann mundi gera glaðvakandi. Dáleiðsla er því ekki heilaþvottur, enda þótt hegðun fólks og hugarstarf geti breyst í kjölfar hennar. Sá sem dáleiðir notar fortölur og ábendingar til þess að hafa áhrif en sá sem er dáleiddur er ekki viljalaus móttakandi. Hann getur til dæmis hreyft sig, klórað sér, hnerrað og hóstað á meðan á dáleiðslunni stendur. Og hann getur komist undan dáleiðsluáhrifum – til þess nægir oft að opna augun.

Einnig halda margir, og hafa þá visku sennilega úr bíómyndum, að dáleiðsla sé sérstök þjóðbraut að ofurminni þar sem allar athafnir fólks frá frumbernsku og jafnvel meintum fyrri lífum séu dyggilega skráðar. Svo er ekki, dáleiðsla getur hjálpað fólki að einbeita sér að tilfinningaviðbrögðum og fólk getur rifjað upp eitt og annað í dáleiðslu, en rannsóknir benda ekki til þess að það minni sé betra eða síður brigðult en venjulegt hversdagsminni.

Hvernig fer dáleiðsla fram?

Sá sem leitar til sálfræðings sem kann að beita dáleiðslu spjallar fyrst við sálfræðinginn, segir honum frá vanda sínum og óskum um úrbætur og úrræði. Eftir slíkt spjall kennir sálfræðingurinn viðkomandi hvernig hann eða hún geti komist í svonefnt „leiðsluástand“ sem felst ekki í öðru en að beina athyglinni að einu ákveðnu atriði. Þetta er gert með mismunandi hætti; til dæmis gæti viðkomandi verið látinn horfa á ákveðinn stað í loftinu í nokkrar mínútur. Í Hollywood-útgáfunni er pendúll látinn sveiflast fram og aftur. Um 20% fólks eru það sem kallað er sefnæm og komast auðveldlega í þess konar ástand. Annar fimmtungur fólks á erfitt með þetta. Flestir, það er um 60% fólks, falla þar í milli og láta dáleiðast með dálítilli fyrirhöfn.

Eftir að dáleiðsluástandi er náð mundi sálfræðingurinn efla eða dýpka það með fyrirmælum um slökun, djúpa öndun og með myndrænum lýsingum sem viðkomandi ímyndar sér, til dæmis að hann gangi niður stiga þar sem sefjunin eykst við hvert þrep. Síðan er framhaldið ólíkt eftir því hver vandinn er sem glímt er við, en sálfræðingurinn gefur ábendingar og fyrirmæli sem viðkomandi á að fara eftir, stundum án þess að hann muni eftir að honum hafi verið sagt neitt. Dáleiðslumeðferð tekur mislangan tíma, allt frá tveimur skiptum og upp í tíu. Hlutverk sálfræðingsins er í raun að kenna sjálfsdáleiðslu þannig að maður geti sjálfur nýtt sér þá tækni heima fyrir og tekið á sínum málum.

Dáleiðsla er engin allsherjarlausn á öllum vanda. Eins er víst að hún hentar ekki öllum. Hún felst í raun í kerfisbundinni notkun á sefjunaráhrifum og getur verið gagnleg sé hún rétt notuð.

Mynd: