Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í sumar (2008) hefur yfirborð Rauðavatns verið óvenju áberandi rauðleitt á litinn og vakið forvitni margra. Rauði liturinn stafar af vatnaplöntunni síkjamara (Myriophyllum alterniflorum) sem vex upp af botni í miklum og þéttum breiðum og þekur vatnið að miklu leyti. Plantan blómstrar á yfirborði rauðleitum smáblómum og blómstönglarnir eru einnig rauðleitir. Gróðurbreiðurnar eru óvenju áberandi núna vegna þess hve vatnsborðið er lágt í kjölfar þurrka og hlýinda í júní. Vel kann að vera að Rauðavatn dragi nafn sitt af þessum rauða lit síkjamarans.
Síkjamari myndar þéttar breiður um nær allt Rauðavatn. Hér vex hann upp úr vatninu og blómgast. Myndin er tekin 20. júlí 2005.
Mikill áramunur er á því hve áberandi síkjamarinn er í Rauðavatni. Til dæmis var vatnið mjög rautt og plantan áberandi sumarið 2005, en ekki í fyrra eða hittiðfyrra. Þetta fer saman við vatnsborðsstöðu Rauðavatns, en vatnsborðið sveiflast umtalsvert (allt að 1,5 m á ári) og var lágt sumarið 2005 en í meðallagi 2006 og 2007. Þar sem Rauðavatn er fremur lítið (0,32 km2) og grunnt (meðaldýpi um 1 m og mesta dýpi 1,4 m), vatnið afrennslislaust á yfirborði og vatnasviðið lítið (um það bil 3 km2), er vatnsborðshæðin mjög háð grunnvatnsstöðu og þar með úrkomu og lofthita.
Síkjamarinn er ein algengasta vatnaháplanta í grunnum stöðuvötnum á Íslandi. Hann virðist skipta mjög miklu máli fyrir efnabúskap og lífríki vatnanna. Vistfræðileg þjónusta síkjamara felst meðal annars í því að lægja öldur, draga úr botngruggi, binda óæskileg efni og skapa lífvænleg skilyrði fyrir ýmis dýr, jafnt stór sem smá. Mikil gróska í vexti síkjamara í Rauðavatni kemur líklega í veg fyrir að vatnið verði fúlt og gruggugt og mengun að bráð líkt og Reykjavíkurtjörn.
Heimild og mynd:
Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson og Haraldur Rafn Ingvason. 2006. Grunnrannsókn á lífríki Rauðavatns. Unnið fyrir Umhverfissvið Reykjavíkurborgar. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Fjölrit nr. 3-06. 41 bls.
Hilmar J. Malmquist. „Hvað er þetta rauða sem er á Rauðavatni í Reykjavík?“ Vísindavefurinn, 16. júlí 2008, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=11776.
Hilmar J. Malmquist. (2008, 16. júlí). Hvað er þetta rauða sem er á Rauðavatni í Reykjavík? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=11776
Hilmar J. Malmquist. „Hvað er þetta rauða sem er á Rauðavatni í Reykjavík?“ Vísindavefurinn. 16. júl. 2008. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=11776>.