Þessi spurning vaknar hjá mér vegna greinar á forsíðu Morgunblaðsins 22. ágúst 2000. Þar kemur fram að börn strangtrúaðra gyðinga í Ísrael þurfa ekki að læra fög eins og stærðfræði. Hvað veldur?Flestir gyðingar í heiminum eru búsettir í tveimur löndum, Ísrael og Bandaríkjunum. Langflest gyðingabörn í þessum löndum læra stærðfræði eins og önnur börn. Þetta á líka við um meirihluta þeirra barna sem alast upp sem strangtrúaðir gyðingar. Slíkir gyðingar reka marga virta háskóla, til dæmis Yeshiva-háskóla og Solomon Shechter-skólana í Bandaríkjunum sem frjálslyndari gyðingar sækja einnig og jafnvel nemendur sem ekki eru gyðingar vegna þess mikla álits sem fólk hefur á þeirri menntun sem þar fer fram. Það gefur auga leið að ekkert skortir á stærðfræðikennslu þar. Helsti munurinn á allflestum skólum strangtrúaðra gyðinga og öðrum skólum felst í fastmótuðum hugmyndum um mismunandi hlutverk kynjanna og samskipti þeirra, sem og reglum um klæðaburð og að sjálfsögðu fræðslu í gyðinglegum fræðum. Til dæmis er yfirleitt lögð áhersla á að stúlkur læri matreiðslu og önnur heimilisstörf. Frá 13 ára aldri gilda strangar reglur um samskipti kynjanna hjá strangtrúuðum gyðingum og því eru stelpur og strákar ekki saman í skóla eftir að þeim aldri er náð. Að öðru leyti hljóta þessi börn svipaða menntun og önnur. Undantekning frá þessu eru hinir strangtrúuðustu meðal strangtrúaðra, eða þeir sem nefnast haredim. Meðal þessa hóps þekkist það að drengir séu sendir í sérstaka skóla þar sem námsefnið er svo til eingöngu byggt á helgiritum gyðinga. Nemendur í slíkum skólum hljóta ekki kennslu í greinum á borð við stærðfræði og ensku. Erfitt er að meta nákvæmlega hve margir það eru sem verða á þennan hátt af hefðbundnu námi, en samkvæmt áætlunum ísraelska menntamálaráðuneytisins eru þetta líklega kringum 5% drengja þar í landi. Haredim-gyðingar njóta ýmissa sérréttinda samkvæmt lögum í Ísrael. Auk undanþágu frá samræmdri námsskrá má þar nefna undanþágu frá herskyldu. Að undanförnu hefur komið til tals að breyta lögum í Ísrael til veraldlegra horfs. Ehud Barak forsætisráðherra hefur kynnt þær hugmyndir sem hina veraldlegu byltingu og voru þær mjög til umræðu áður en átök milli Ísraelsmanna og Palestínumanna brutust út í haust. Hin veraldlega bylting mundi meðal annars fela það í sér að borgaraleg hjónabönd yrðu leyfð og að sérréttindi haredim-gyðinga yrðu afnumin.
Þurfa börn strangtrúaðra gyðinga ekki að læra stærðfræði?
Útgáfudagur
29.11.2000
Spyrjandi
Freyr Hermannsson
Tilvísun
EMB. „Þurfa börn strangtrúaðra gyðinga ekki að læra stærðfræði?“ Vísindavefurinn, 29. nóvember 2000, sótt 19. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1193.
EMB. (2000, 29. nóvember). Þurfa börn strangtrúaðra gyðinga ekki að læra stærðfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1193
EMB. „Þurfa börn strangtrúaðra gyðinga ekki að læra stærðfræði?“ Vísindavefurinn. 29. nóv. 2000. Vefsíða. 19. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1193>.