Mach-talan heitir eftir austurríska heimspekingnum og eðlisfræðingnum Ernst Mach (1838-1916). Hún er jöfn hlutfallinu milli hraða hlutar miðað við straumefni og hraða hljóðs í sama efni, en straumefni er sameiginlegt heiti um það sem í daglegu tali kallast annars vegar vökvi og gas eða lofttegund. Hraði hlutarins miðað við straumefnið getur bæði stafað af því að hluturinn sé á hreyfingu og að efnið hreyfist en hluturinn sé til dæmis kyrr miðað við jörð.
Flugvél sem flýgur í gegnum loftið á Mach 1,0 flýgur því á hljóðhraða í algengasta skilningi þess orðs, það er að segja hraða hljóðs í andrúmsloftinu. Þegar hún fer upp fyrir hljóðhraðann, upp fyrir Mach 1, segjum við að hún rjúfi hljóðmúrinn (sjá tengla neðst).
Hljóðhraði í andúmslofti breytist með þrýstingi og hitastigi. En ef lofthiti er 15°C og þrýstingur er 1013 hPa er hljóðhraðinn 1.225 km/h (kílómetrar á klukkustund).
Sjá einnig svör við eftirtöldum spurningum:
Hvað gerist þegar þotur rjúfa hljóðmúrinn?
Hvers vegna eru mörk hljóðmúrsins breytileg eftir hæð?
Mynd: Eric Weisstein's Treasure Trove of Scientific Biography