Hvor er meiri, heildarkostnaðurinn eða heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu svokallaða ef samþykkt verður (ég á við fyrir heiminn í heild sinni en ekki bara Ísland)?Þegar menn segja að hlýnandi loftslag af völdum gróðurhúsalofttegunda muni sennilega gera Ísland "ennþá byggilegra" en verið hefur, er þröng sýn tekin á málið. En jafnframt er umdeilt hvort Ísland verði í rauninni "ennþá byggilegra" þótt meðalhiti jarðar hækki - hitnunin verður nefnilega mest á hærri breiddargráðum, hitamunur milli hitabeltisins og kuldabeltisins minnkar, og þar af leiðandi dregur úr vindum sem bera varma í átt til skauta jarðarinnar, þar á meðal Íslands. Ennfremur er alls óvíst hvaða áhrif veruleg hlýnun hefði á hafstrauma, en þeir skipta mestu máli um loftslag hér og víðast hvar annars staðar. Hlýnandi loftslagi fylgir hins vegar örugglega hækkuð sjávarstaða og flutningur loftslagsbelta - þéttbýl láglendissvæði munu sökkva í sæ nema til komi óumræðilega kostnaðarsamar varnaraðgerðir, eyðimerkur munu breiðast út, og svo framvegis. Þegar þess er gætt að meðalhiti jarðar hefur ekki verið jafnhár og nú í ein 8000 ár - vísbendingar eru um að strax eftir ísöldina hafi hitastig verið talsvert hærra en síðar varð - er ljóst að við lifum "óeðlilega" tíma, og haldi fram sem horfir gæti allt farið á versta veg. Kannski mætti segja að Kyoto-samkomulagið eitt sér skipti ekki sköpum, en óumdeilanlega er það fyrsta skref sem stíga þarf, og annað skrefið verður tæpast stigið nema hið fyrsta verði stigið á undan. Því er svar mitt það, að heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu verði mun meiri en heildarkostnaðurinn, verði það samþykkt. Enda má að lokum minna á það að hugkvæmni mannsins eru nánast engin takmörk sett, og verði þjóðir heimsins "settar upp að vegg" hvað varðar stóriðju eða brennslu kolefnis-orkugjafa, munu þær finna aðrar lausnir.
Hvor er meiri, heildarkostnaðurinn eða heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu?
Útgáfudagur
7.12.2000
Spyrjandi
Halldór Gunnar Haraldsson
Tilvísun
Sigurður Steinþórsson. „Hvor er meiri, heildarkostnaðurinn eða heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu?“ Vísindavefurinn, 7. desember 2000, sótt 12. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1221.
Sigurður Steinþórsson. (2000, 7. desember). Hvor er meiri, heildarkostnaðurinn eða heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1221
Sigurður Steinþórsson. „Hvor er meiri, heildarkostnaðurinn eða heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu?“ Vísindavefurinn. 7. des. 2000. Vefsíða. 12. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1221>.