Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna hverfa sumar spurningar á vefnum? Er óþægilegt að svara þeim eða er um samsæri yfirvalda að ræða?

Aðeins örfáar spurningar hafa verið teknar viljandi út af listanum um "spurningar í vinnslu" enn sem komið er. Ástæður hafa verið nokkrar:
  • Spurning þegar komin, eins eða svipuð, og búið að birta svar. Þá er reynt að sameina spurningarnar og bæta til dæmis nafni seinni spyrjanda við á upphaflegu spurningunni. Dæmi um þetta geta menn séð í listanum um spurningar sem hefur verið svarað.
  • Spurning tengist ekki vísindum. Venjulega er þá spyrjandi látinn vita um að spurningin hafi verið tekin út.
  • Spurning er greinilega út í hött og ekki borin fram í einlægni. Örfáar spurningar af þessari gerð hafa borist. Við viljum ekki að þær setji svip á Vísindavefinn og höfum því fjarlægt þær.
Engar spurningar eru til sem er "óþægilegt að svara" en það kann að vera tilgangslaust eða marklaust, og þá verður það ekki gert.

Við tókum þá ákvörðun í byrjun að birta listann um "spurningar í vinnslu" umsvifalaust eins og gestir okkar hafa séð. Við sjáum ekki eftir þessari ákvörðun því að hún gerir vefinn að sjálfsögðu líflegri. Gestir hafa yfirleitt ekki heldur misnotað þetta fyrirkomulag og fyrir það erum við þakklát.

Við höfum hins vegar breytt mörgum spurningum, bæði lagfært stafsetningu og málfar og reynt að gera spurningarnar styttri og hnitmiðaðri. Þegar við höfum stytt spurningar mjög mikið birtum við oft upphaflegu spurninguna í upphafi svarsins eins og menn hafa kannski séð. Með þessari aðferð reynum við að gefa til kynna í verki að hér eiga allir að geta spurt, óháð kunnáttu í stafsetningu eða ritsmíð.

Vísindavefurinn er verk sem verður til í víxlverkun milli gesta, ritstjórnar og höfunda. Við í ritstjórninni höfum haft mikla ánægju af að sjá þetta verk verða til og mótast. Við vonum að gestir okkar hafi það líka og að svo megi verða áfram.

Útgáfudagur

18.2.2000

Spyrjandi

Guðmundur Karl, Selfossi

Efnisorð

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna hverfa sumar spurningar á vefnum? Er óþægilegt að svara þeim eða er um samsæri yfirvalda að ræða?“ Vísindavefurinn, 18. febrúar 2000. Sótt 21. júlí 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=124.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 18. febrúar). Hvers vegna hverfa sumar spurningar á vefnum? Er óþægilegt að svara þeim eða er um samsæri yfirvalda að ræða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=124

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna hverfa sumar spurningar á vefnum? Er óþægilegt að svara þeim eða er um samsæri yfirvalda að ræða?“ Vísindavefurinn. 18. feb. 2000. Vefsíða. 21. júl. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=124>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Hans Tómas Björnsson

1975

Hans Tómas Björnsson er dósent í færsluvísindum og barnalækningum við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa snúið að því að skilja ástæður breytileika á utangenaerfðum.