Er það rétt að Darwin hafi sett kenningu sína fram, en seinna afneitað henni á þeim grundvelli að hún sé guðlast og röng, vegna eigin trúarskoðana?Svarið er nei; þetta er ekki rétt. Þróunarkenningin eins og við þekkjum hana var upphaflega sett fram í fyrirlestri í Linné-félaginu í London árið 1858. Höfundar fyrirlestursins voru tveir, Charles Darwin (1809-1882) og Alfred Russell Wallace (1823-1913) sem hafði komist að sömu niðurstöðum óháð Darwin. Árið eftir, 1859, gerði Darwin kenningunni betri skil með bókinni Um uppruna tegundanna (On the Origin of Species). Darwin hafði getið sér gott orð sem glöggskyggn og vandvirkur náttúrufræðingur áður en þessi fræga bók hans kom út. Honum var ljóst að kenning hans mundi vekja deilur, bæði af vísindalegum og trúarlegum ástæðum. Hann vandaði því vel til bókarinnar sem var byggð á rannsóknum og ferðalögum hans sjálfs og annarra um áratugi. Engu að síður vakti kenningin andmæli af hálfu vísindamanna og sum þeirra tók Darwin nærri sér. Bókin kom út sex sinnum meðan hann var á lífi og hann breytti sumum útgáfunum talsvert, meðal annars vegna gagnrýni frá vísindamönnum. Frá sjónarmiði nútíma vísinda og þekkingar eru þessar breytingar þó yfirleitt ekki taldar til bóta. Vegna þess andbyrs sem Darwin átti von á frá málsvörum kirkjunnar steig hann skrefið ekki alveg til fulls í bókinni Um uppruna tegundanna. Hann fjallar þar yfirleitt ekki um manninn og kveður ekki upp úr um það að allt líf sé komið af einni rót. Hins vegar má lesa ýmislegt um þetta milli línanna í bókinni. Talið er að þetta hafi verið hyggindi af hálfu Darwins enda gaf hann síðar (1871) út bókina Hvernig maðurinn kom til (The Descent of Man) þar sem hann tekur til dæmis af skarið um að maðurinn hafi orðið til með þróun eins og aðrar lífverur. Ýmislegt er vitað um afstöðu Darwins til trúarbragða, meðal annars vegna þess að hann samdi á efri árum stutta sjálfsævisögu handa börnum sínum og barnabörnum. Hann segir þar hreinskilnislega bæði frá strákapörum sínum í æsku og frá viðhorfum sínum til kristni og kirkju sem breyttust talsvert með tímanum. Þegar bókin var gefin út á prenti að honum látnum voru þessi atriði strikuð út en árið 1958 kom sjálfsævisagan hins vegar út í óstyttri útgáfu. Það hafði verið venja í fjölskyldu Darwins að karlmenn væru efasemdamenn eða trúleysingjar en létu hins vegar sem minnst á því bera. Þessi viðhorf bárust þó milli kynslóðanna eftir ýmsum leiðum mannlegra samskipta. Svo mikið er víst að Darwin varð smám saman afhuga kristinni trú er á leið ævina og hann lýsir sjálfum sér undir lokin sem trúleysingja eða efasemdamanni (agnostic, en það orð er haft um þá sem telja ókleift að komast að því, hvort Guð sé til). Þannig verður ekki séð að trúarviðhorf hans hefðu átt að hafa neikvæð áhrif á afstöðu hans til þróunarkenningarinnar sem oft er kennd við hann. Sögusagnir um einhvers konar sinnaskipti Darwins eiga að minnsta kosti flestar rætur að rekja til bresku hefðarkonunnar Lafði Hope. Hún heimsótti Darwin nokkru áður en hann dó og lýsti því síðan fjálglega hvernig hann hefði játað trú sína fyrir henni. Fjölskylda Darwins andmælti þessu kröftuglega. Nýlega hefur verið skrifuð bók um málið þar sem höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að Lafði Hope hafi vissulega verið til en saga hennar um sinnaskiptin sé ekki trúleg í ljósi allra annarra aðstæðna, þar á meðal þess sem rakið var hér á undan. Meðal annars verður að telja útilokað að Darwin hafi hafnað þróunarkenningu sinni á einhvern marktækan hátt. Og að lokum er vert að nefna að hughrif eða hugsanleg sinnaskipti Darwins hafa að sjálfsögðu engin áhrif á vísindalegt gildi þróunarkenningarinnar sem er einn af máttarstólpum nútíma vísinda. Heimildir og lesefni Chancellor, John, 1981. Charles Darwin og þróunarkenningin. Steindór Steindórsson íslenskaði. Reykjavík: Örn og Örlygur. Darwin, Charles, 1976 [1859]. On the Origin of Species. Cambridge, Mass.: Harvard University Press. Darwin, Charles, 1981 [1871]. The Descent of Man, and Selection in Relation to Sex. Princeton: Princeton University Press. Darwin, Charles, 1969 [1958]. The Autobiography of Charles Darwin, 1809-1882. Ritstjóri Nora Barlow. New York: Norton. Örnólfur Thorlacius (1999-2000). "Þróun tegundanna: Tilraun til samantektar á hugmyndum manna fyrr og nú". Greinaflokkur í Náttúrufræðingnum: 68. árg., 3.-4. hefti, 1999, s. 183-195; 69. árg., 1. h., 1999, 39-49; 69. árg., 2. h., 2000, 109-123. Sagan um heimsókn Lafði Hope eins og hún er höfð eftir henni. Dæmi um andmæli við Hope á vefnum. Umsögn um bók James Moore frá 1994.
Er rétt að Darwin hafi dregið kenningu sína til baka vegna eigin trúarskoðana?
Útgáfudagur
28.12.2000
Spyrjandi
Bjarnheiður Stefanía Helgadóttir, f. 1984
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er rétt að Darwin hafi dregið kenningu sína til baka vegna eigin trúarskoðana?“ Vísindavefurinn, 28. desember 2000, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1251.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 28. desember). Er rétt að Darwin hafi dregið kenningu sína til baka vegna eigin trúarskoðana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1251
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er rétt að Darwin hafi dregið kenningu sína til baka vegna eigin trúarskoðana?“ Vísindavefurinn. 28. des. 2000. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1251>.