Árið 391 f.Kr. gerðu Gallar innrás suður á Ítalíu og ári síðar réðust þeir inn í Rómaborg, rændu hana og brenndu. Sá atburður var Rómverjum minnugur öldum saman. Rúmlega sjö hundruð ár liðu þar til erlendur árásarher komst aftur inn fyrir borgarmúra Rómar.
Rómverjar vildu gjarnan tryggja að Gallar gætu ekki endurtekið innrásina frá 390 f.Kr. og nýttu því hvert tækifæri til að tryggja stöðu sína gagnvart nágrönnum sínum í norðri. Á árunum 125-121 f.Kr. nýttu Rómverjar tækifærið og komu borginni Massiliu (í dag Marseilles) til hjálpar. Þeir tryggðu einnig að landleiðin frá Ítalíu til Hispaniu (Spánar) væri greið. Rómverski ræðismaðurinn Gnaeus Domitius Ahenobarbus var sendur til þess að leggja til atlögu við óvini Massiliu og árið 121 f.Kr. hafði Rómverjum tekist að tryggja sér yfirráð yfir syðsta hluta Gallíu (nú Miðjarðarhafsströnd Frakklands) sem nefndist Gallía Narbonensis eða Gallía Transalpina (það er Gallía „hinum megin Alpanna“). Þremur árum síðar hófust Rómverjar handa við að leggja veg frá Ítalíu til Hispaniu sem nefndist Via Domitia eftir ræðismanninum.
- Asterix around the World. Sótt 15.6.2010.
- Wikipedia.com - Júlíus Caesar. Sótt 15.6.2010.