Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHeilbrigðisvísindiNæringarfræðiEru mjólkurvörur nauðsynlegar fyrir mannfólkið, þegar önnur spendýr hætta að neyta þeirra um leið og þau hætta á spena?
Þessari spurningu er hægt að svara neitandi, það er að vörur unnar úr mjólk annarra spendýra eru ekki nauðsynlegar fyrir mannfólkið. Reyndar er það svo að um 70% mannkyns þolir illa mjólk á fullorðinsaldri, er með svokallað mjólkursykuróþol. Slíkt fólk borðar þar af leiðandi lítið eða ekkert af mjólkurvörum þegar það hefur slitið barnsskónum. Mjólkursykuróþol er þó mjög sjaldgæft hjá fólki af norrænum uppruna eins og Íslendingum. Á Norðurlöndunum er tíðni þess hæst í Finnlandi, eða um 6% hjá ungu fullorðnu fólki.
Hvort rétt sé að bera saman mannfólkið og önnur spendýr að þessu leyti er hins vegar umdeilanlegt, en flest spendýr eru tiltölulega sérhæfð í matarvali eftir að "brjóstagjöf" eða spena sleppir; eru yfirleitt ýmist grasbítar, kjötætur eða hræætur. Maðurinn er hins vegar alæta, borðar flest það er að kjafti kemur og þá líka afurðir þeirra dýra sem hann hefur tekið í þjónustu sína sem húsdýr, svo sem egg hænunnar og mjólk grasbíta, fyrst og fremst kýrinnar.
Lífslíkur mannsins hafa aukist gríðarlega með fjölbreytni í fæðuvali og nægri næringu, og í því felst meðal annars nægileg mjólk, sérstaklega á unga aldri. Það er nokkuð erfitt að hugsa sér dýrategundir leggjast á spena eða mjólka dýr af öðrum tegundum en þær sjálfar, þó að vissulega séu um það dæmi í sögunni að til dæmis úlfynja taki að sér unga annarrar tegundar og mjólki.
Frá sjónarmiði næringarfræðinnar er ekki hægt að mæla gegn neyslu kúamjólkur, enda er þar um að ræða einstaklega næringarríka afurð. Hún er uppspretta 11 vítamína og steinefna, þar á meðal kalks, en ekki er betri kalkgjafa að finna en mjólk og afurðir hennar. Auk þessa er mjólkin mikilvæg uppspretta próteins, en inniheldur þó óheppilega gerð fitu, svokallaða harða fitu, og ættu því allir sem komnir eru af smábarnsaldri að neyta léttra mjólkurafurða í stað þeirra fullfeitu.
Eins og hér hefur komið fram er mjólk ekki nauðsynleg manninum og getur jafnvel í ákveðnum tilvikum haft neikvæð áhrif, það er hjá fólki með mjólkursykuróþol og mjólkurofnæmi. Engu að síður er mjólkin í raun bráðholl og næringarrík fyrir fyrir þá sem þola hana. Að auki er fjölbreytni afurða sem unnar eru úr mjólk gríðarleg, allt frá smjöri og ostum til súrmjólkur og mysudrykkja. Þeir sem neyta ekki mjólkurvara þurfa að gæta að mataræði sínu, sérstaklega með tilliti til kalks, en aðrar kalkríkar afurðir eru sjaldséðar. Þó má þar meðal annars nefna smáfisk með beinum, til dæmis sardínur, og einnig er svolítið kalk að finna í baunum, grænu grænmeti og víðar. Af mjólkurafurðum er hlutfallslega mest kalk í ostum og þess vegna gæti verið heppilegt að neyta þeirra, þó að annarra mjólkurvara sé ekki neytt. Sérstaklega mikilvægt er að huga að kalkneyslunni á vaxtartímabilum, til dæmis á barns- og unglingsárum, en það er mikilvægasti tími beinþroskunar og kalk gegnir einmitt veigamiklu hlutverki í henni.
Sjá einnig svar eftir sama höfund við spurningunni Er mjólk holl?
Björn Sigurður Gunnarsson. „Eru mjólkurvörur nauðsynlegar fyrir mannfólkið, þegar önnur spendýr hætta að neyta þeirra um leið og þau hætta á spena?“ Vísindavefurinn, 4. janúar 2001, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1259.
Björn Sigurður Gunnarsson. (2001, 4. janúar). Eru mjólkurvörur nauðsynlegar fyrir mannfólkið, þegar önnur spendýr hætta að neyta þeirra um leið og þau hætta á spena? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1259
Björn Sigurður Gunnarsson. „Eru mjólkurvörur nauðsynlegar fyrir mannfólkið, þegar önnur spendýr hætta að neyta þeirra um leið og þau hætta á spena?“ Vísindavefurinn. 4. jan. 2001. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1259>.