Þetta svar er birt 10. janúar 2001. Kvöldið áður var glæsilegur og langvinnur almyrkvi á tungli og viðraði vel á Reykjavíkursvæðinu til að fylgjast með honum. Tunglmyrkvar verða á fullu tungli og sjást frá allri þeirri hlið jarðar sem þá snýr að tungli og frá sól, með öðrum orðum frá næturhliðinni. Vegna þess að jörðin snýst meðan á myrkvanum stendur sést hann frá meira en helmingi jarðarinnar.
Sólmyrkvar verða hins vegar þegar tungl er nýtt. Alskuggi tunglsins hittir þá jörðina og nær þar yfir takmarkað svæði í senn, en þetta svæði færist eftir jörðinni meðan á myrkvanum stendur. Meginatriðið er að hver sólmyrkvi nær aðeins yfir ákveðið svæði eða belti á yfirborði jarðar.
Næsti sólmyrkvi á jörðinni verður 21. júní 2001. Hann verður almyrkvi og sést á belti sem nær þvert yfir Suður-Atlantshafið, Angólu, Zambíu, Zimbabwe, Mozambique og Madagaskar. Í kringum þetta belti mun sjást deildarmyrkvi.
Í þessu svari á Vísindavefnum er sagt frá næsta sólmyrkva á Íslandi.
Mynd: High Moon