Sólin Sólin Rís 08:40 • sest 17:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:01 • Sest 11:04 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:09 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:03 • Síðdegis: 13:21 í Reykjavík

Af hverju eru annar og þriðji stærsti kaupstaður landsins við hliðina á höfuðborginni á Íslandi?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Þegar skoðuð er saga byggðar á Íslandi almennt og sér í lagi á Reykjavíkursvæðinu þurfa menn að byrja á að gera sér ljóst að aðstæður til þéttbýlismyndunar eru sérlega góðar kringum Reykjavík. Þar er eitt af allra bestu hafnarstæðum landsins, heitt vatn og kalt innan seilingar, nóg landrými á láglendi, hentug flugvallarstæði, milt veðurfar og svo framvegis. Staðurinn liggur auk þess vel við samgöngum á landi við sveitir Borgarfjarðar og landbúnaðarhéruð Suðurlands, sem eru annars að mestu hafnlaus frá náttúrunnar hendi. Einnig liggur Reykjavík dável við samgöngum á sjó til útlanda og þar er sjaldan hafís. Ýmsir staðir á landinu standa að sjálfsögðu betur en Reykjavíkursvæðið í einhverjum af þessum atriðum, en enginn í þeim öllum.

Auk þess má nefna að Ísland ber ekki nema eina stórborg með þeirri þjónustu sem krafist er nú á dögum.

Umhugsunarvert er að sum þeirra atriða sem nefnd voru hér á undan hafa einmitt komið við sögu þegar Ingólfur Arnarson valdi sér bústað, til dæmis höfnin og aðgengi frá sjó, heita vatnið, landrýmið og samgöngurnar. Þegar komið er upp að Suðausturlandi og siglt til vesturs með landinu dregur Reykjavíkursvæðið greinilega að sér athygli sæfarans sem hyggur á búsetu. Þannig er engan veginn víst að staðarval Ingólfs hafi verið tilviljun!

Altítt er í heiminum að tiltölulega stór sveitarfélög myndist utan við kjarnann í höfuðborgum eða stórborgum. Slíkt á sér oft sögulegar ástæður; á svæðinu hafa kannski í upphafi verið mörg þorp eða smærri byggðir en þær hafa svo stækkað og að lokum vaxið saman með meiri og þéttari byggð. Hér skulum við hafa hugfast að fólksflutningar til höfuðborga og svæða kringum þær eru ekki séríslenskt fyrirbæri.

Síðan er það mjög upp og ofan hvernig sveitarfélögin á svæðinu eru skipulögð þegar upp er staðið. Stundum haldast gömlu sveitarfélögin eða einhver þeirra, að minnsta kosti að nafninu til, þó að aðalborgin hafi kannski vaxið allt í kringum þau og sjálfstæðið sé því orðið takmarkað í reynd. Sem dæmi um slíkt má taka sveitarfélagið Frederiksberg sem er í rauninni hluti af Kaupmannahöfn og algerlega samvaxið henni en um leið eitt af stærri sveitarfélögum Danmerkur. Í stórborgum eins og London, New York og Boston eru mörg dæmi um ýmiss konar útborgir af þessum toga.

Í öðrum tilvikum verður einhvers konar sameining sveitarfélaga og stundum fer samhæfingin eftir því um hvaða verksvið er að ræða. Þá eru jafnvel myndaðar misjafnlega yfirgripsmiklar stjórneiningar á svæðinu þannig að minnstu einingar koma saman í öðrum stærri og svo framvegis. Sem dæmi um samstarf án sameiningar má nefna almenningssamgöngur þar sem algengast er í seinni tíð að sveitarfélög á stórborgarsvæðum hafi víðtækt samstarf um þær þannig að notandinn verði þess varla var að hann sé að fara úr einu bæjarfélagi í annað. Í þessu er Reykjavíkursvæðið undantekning frekar en regla, að minnsta kosti þegar þetta er skrifað.

Stundum má greina vissan tvískinnung þegar fjallað er um stórborgir af þessu tagi og stærð þeirra borin saman. Annars vegar vilja menn þá oft að borgin teljist sem stærst og taka þá allar útborgirnar með en hins vegar er sveitarfélagið sjálft alls ekki svo stórt. Úr þessu reyna menn síðan að leysa með því að tilgreina tvenns konar stærð borganna, annars vegar kjarnasveitarfélagið sjálft, stundum með einhverri viðbót, og hins vegar allt svæðið með útborgum.

Flestum Íslendingum mun vera ljóst af hverju Hafnarfjörður er, að minnsta kosti ennþá, annað sveitarfélag en Reykjavík. Við vitum til dæmis flest að Hafnarfjörður og Reykjavík eru bæði tiltölulega gamlir þéttbýliskjarnar á íslenskan mælikvarða. Mörg okkar vita líka að í eina tíð var Hafnarfjörður jafnvel stærri og mikilvægari kaupstaður en Reykjavík. En kannski vefst okkur tunga um tönn ef við eigum að svara þessari spurningu um önnur sveitarfélög Reykjavíkursvæðisins.

Varla þarf þó að skýra það sérstaklega af hverju Kópavogur var í öndverðu annað sveitarfélag en Reykjavík, því að einhvers staðar hlutu mörk Reykjavíkur að liggja. Hins vegar má auðvitað spyrja af hverju Kópavogur og Reykjavík hafi ekki sameinast einhvern tímann á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að það kom fyrst til greina. Ástæðurnar eru sjálfsagt margar, þar á meðal sams konar tilfinningalegar ástæður og við sjáum oft að verki gegn sameiningu sveitarfélaga. En einnig er vert að hafa í huga að hlutföll milli stjórnmálaflokka hafa frá öndverðu verið talsvert önnur í Kópavogi en í Reykjavík. Sameining hefði því getað raskað valdahlutföllum. Þetta atriði kann raunar að koma við sögu víðar því að svo mikið er víst að flokkahlutföll eru oft mismunandi eftir sveitarfélögum á stórborgarsvæðum.

Höfundur þakkar Trausta Valssyni góðar ábendingar um nokkur atriði svarsins.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

20.1.2001

Spyrjandi

Hilmar Gunnarsson, f. 1985

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru annar og þriðji stærsti kaupstaður landsins við hliðina á höfuðborginni á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 20. janúar 2001. Sótt 22. október 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=1284.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 20. janúar). Af hverju eru annar og þriðji stærsti kaupstaður landsins við hliðina á höfuðborginni á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1284

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru annar og þriðji stærsti kaupstaður landsins við hliðina á höfuðborginni á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 20. jan. 2001. Vefsíða. 22. okt. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1284>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru annar og þriðji stærsti kaupstaður landsins við hliðina á höfuðborginni á Íslandi?
Þegar skoðuð er saga byggðar á Íslandi almennt og sér í lagi á Reykjavíkursvæðinu þurfa menn að byrja á að gera sér ljóst að aðstæður til þéttbýlismyndunar eru sérlega góðar kringum Reykjavík. Þar er eitt af allra bestu hafnarstæðum landsins, heitt vatn og kalt innan seilingar, nóg landrými á láglendi, hentug flugvallarstæði, milt veðurfar og svo framvegis. Staðurinn liggur auk þess vel við samgöngum á landi við sveitir Borgarfjarðar og landbúnaðarhéruð Suðurlands, sem eru annars að mestu hafnlaus frá náttúrunnar hendi. Einnig liggur Reykjavík dável við samgöngum á sjó til útlanda og þar er sjaldan hafís. Ýmsir staðir á landinu standa að sjálfsögðu betur en Reykjavíkursvæðið í einhverjum af þessum atriðum, en enginn í þeim öllum.

Auk þess má nefna að Ísland ber ekki nema eina stórborg með þeirri þjónustu sem krafist er nú á dögum.

Umhugsunarvert er að sum þeirra atriða sem nefnd voru hér á undan hafa einmitt komið við sögu þegar Ingólfur Arnarson valdi sér bústað, til dæmis höfnin og aðgengi frá sjó, heita vatnið, landrýmið og samgöngurnar. Þegar komið er upp að Suðausturlandi og siglt til vesturs með landinu dregur Reykjavíkursvæðið greinilega að sér athygli sæfarans sem hyggur á búsetu. Þannig er engan veginn víst að staðarval Ingólfs hafi verið tilviljun!

Altítt er í heiminum að tiltölulega stór sveitarfélög myndist utan við kjarnann í höfuðborgum eða stórborgum. Slíkt á sér oft sögulegar ástæður; á svæðinu hafa kannski í upphafi verið mörg þorp eða smærri byggðir en þær hafa svo stækkað og að lokum vaxið saman með meiri og þéttari byggð. Hér skulum við hafa hugfast að fólksflutningar til höfuðborga og svæða kringum þær eru ekki séríslenskt fyrirbæri.

Síðan er það mjög upp og ofan hvernig sveitarfélögin á svæðinu eru skipulögð þegar upp er staðið. Stundum haldast gömlu sveitarfélögin eða einhver þeirra, að minnsta kosti að nafninu til, þó að aðalborgin hafi kannski vaxið allt í kringum þau og sjálfstæðið sé því orðið takmarkað í reynd. Sem dæmi um slíkt má taka sveitarfélagið Frederiksberg sem er í rauninni hluti af Kaupmannahöfn og algerlega samvaxið henni en um leið eitt af stærri sveitarfélögum Danmerkur. Í stórborgum eins og London, New York og Boston eru mörg dæmi um ýmiss konar útborgir af þessum toga.

Í öðrum tilvikum verður einhvers konar sameining sveitarfélaga og stundum fer samhæfingin eftir því um hvaða verksvið er að ræða. Þá eru jafnvel myndaðar misjafnlega yfirgripsmiklar stjórneiningar á svæðinu þannig að minnstu einingar koma saman í öðrum stærri og svo framvegis. Sem dæmi um samstarf án sameiningar má nefna almenningssamgöngur þar sem algengast er í seinni tíð að sveitarfélög á stórborgarsvæðum hafi víðtækt samstarf um þær þannig að notandinn verði þess varla var að hann sé að fara úr einu bæjarfélagi í annað. Í þessu er Reykjavíkursvæðið undantekning frekar en regla, að minnsta kosti þegar þetta er skrifað.

Stundum má greina vissan tvískinnung þegar fjallað er um stórborgir af þessu tagi og stærð þeirra borin saman. Annars vegar vilja menn þá oft að borgin teljist sem stærst og taka þá allar útborgirnar með en hins vegar er sveitarfélagið sjálft alls ekki svo stórt. Úr þessu reyna menn síðan að leysa með því að tilgreina tvenns konar stærð borganna, annars vegar kjarnasveitarfélagið sjálft, stundum með einhverri viðbót, og hins vegar allt svæðið með útborgum.

Flestum Íslendingum mun vera ljóst af hverju Hafnarfjörður er, að minnsta kosti ennþá, annað sveitarfélag en Reykjavík. Við vitum til dæmis flest að Hafnarfjörður og Reykjavík eru bæði tiltölulega gamlir þéttbýliskjarnar á íslenskan mælikvarða. Mörg okkar vita líka að í eina tíð var Hafnarfjörður jafnvel stærri og mikilvægari kaupstaður en Reykjavík. En kannski vefst okkur tunga um tönn ef við eigum að svara þessari spurningu um önnur sveitarfélög Reykjavíkursvæðisins.

Varla þarf þó að skýra það sérstaklega af hverju Kópavogur var í öndverðu annað sveitarfélag en Reykjavík, því að einhvers staðar hlutu mörk Reykjavíkur að liggja. Hins vegar má auðvitað spyrja af hverju Kópavogur og Reykjavík hafi ekki sameinast einhvern tímann á þeim áratugum sem liðnir eru frá því að það kom fyrst til greina. Ástæðurnar eru sjálfsagt margar, þar á meðal sams konar tilfinningalegar ástæður og við sjáum oft að verki gegn sameiningu sveitarfélaga. En einnig er vert að hafa í huga að hlutföll milli stjórnmálaflokka hafa frá öndverðu verið talsvert önnur í Kópavogi en í Reykjavík. Sameining hefði því getað raskað valdahlutföllum. Þetta atriði kann raunar að koma við sögu víðar því að svo mikið er víst að flokkahlutföll eru oft mismunandi eftir sveitarfélögum á stórborgarsvæðum.

Höfundur þakkar Trausta Valssyni góðar ábendingar um nokkur atriði svarsins....