Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Síberíska tígrisdýrið (Panthera tigris altaica) er stærsta og öflugasta núlifandi kattardýrið. Fullvaxið karldýr getur náð allt að 350 kg þyngd og 4 metra lengd frá snoppu að rófuenda. Núverandi útbreiðslusvæði Síberíutígursins er aðallega bundið við austasta hluta hins víðlenda Rússlands, nánar tiltekið í Ussuri, en þar er talið að 80% tígrisdýra haldi til í dag. Síberísk tígrisdýr finnast enn þann dag í dag í Norðaustur-Kína og örfá dýr hafa komist af í Norður-Kóreu. Í dag er heildarstofnstærðin frá 350 til 450 dýr og um 300 þeirra lifa í Ussurilandi.
Tígrisdýr finnast einnig í öðru stjórnsýsluumdæmi í Síberiu, Khabarovsk, og er talið að í barrskógunum þar séu nú kringum 40 dýr. Óvíst er hversu mörg eru í Norður-Kóreu þar sem vísindamenn hafa lítið getað aðhafst þar vegna stjórnarhátta en menn giska á að þar séu ekki fleiri en 5 dýr. Að lokum er áætlaður fjöldi tígrisdýra í Mansjúríu í Norðaustur-Kína örfáir tugir en heppileg búsvæði tígrisdýra þar hafa verið eyðilögð á stórum svæðum.
Þó svo að stofninn í dag sé lítill hefur hann verið í talsverðri sókn undanfarin ár, eða frá 1993 þegar veiðiþjófnaður náði hámarki. Talið er að á tveimur árum hafi meira en 120 dýr verið skotin. Eftir það tóku rússnesk yfirvöld, með aðstoð bandarískra aðila, að herða eftirlit með veiðiþjófnaði á hinum stóru landsvæðum þar sem tígrisdýr er að finna.
Rannsóknir hafa sýnt að helsta fæða tígrisdýra í Ussurilandi eru villisvín en einnig éta þau ýmsar tegundir skógarhjarta og elgi. Sagnir eru til um glorsoltin tígrisdýr sem ráðast á skógarbirni en þess má geta að skógarbirnir í Ussuri eru langt í frá eins stórir og frændur þeirra á Kamtchatka-skaganum eða á sumum svæðum í Alaska.
Mynd fengin af vefsetri Cleveland-barnaskólans
í New York-ríki í Bandaríkjunum
Jón Már Halldórsson. „Hversu margir Síberíu-tígrar eru lifandi núna og á hverju lifa þeir?“ Vísindavefurinn, 7. febrúar 2001, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1325.
Jón Már Halldórsson. (2001, 7. febrúar). Hversu margir Síberíu-tígrar eru lifandi núna og á hverju lifa þeir? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1325
Jón Már Halldórsson. „Hversu margir Síberíu-tígrar eru lifandi núna og á hverju lifa þeir?“ Vísindavefurinn. 7. feb. 2001. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1325>.