Sólin Sólin Rís 04:02 • sest 22:49 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:53 • Sest 03:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:57 • Síðdegis: 15:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:24 • Síðdegis: 21:47 í Reykjavík

Af hverju eru orðin "getur ekki" og "mun aldrei" notuð svo títt á Vísindavefnum?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Spyrjandi bætir við:
Ef haft er til hliðsjónar: "...maðurinn á ALDREI eftir að fljúga..."
Þessi spurning kemur okkur óneitanlega á óvart því að hitt heyrist fullt eins oft að vísindin gefi ekki nógu afdráttarlaus svör og vísindamenn setji svör sín oft fram með miklum fyrirvörum. Ef fullyrðing spyrjanda væri rétt mætti ætla að Vísindavefurinn hefði með einhverjum hætti farið út af hefðbundnu spori!

Nú vill svo til að hér þarf ekki að láta sér nægja getsakir eða ágiskanir því að tækni nútímans gerir okkur kleift að athuga með áþreifanlegum hætti hvað hæft er í því sem spyrjandi fullyrðir. Þannig sýnir leitarvél okkar að orðalagið "getur ekki" kemur að vísu alloft fyrir í þeim 1300 svörum sem við höfum birt, en þó ekki eins oft og til dæmis "getur verið". Orðalagið um flugið sem spyrjandi tilgreinir innan gæsalappa kemur ekki fram í leitarvélum okkar og við vitum því ekki hvaðan það er tekið.

Orðalagið "mun aldrei" kemur fyrir einu sinni í birtu svari á Vísindavefnum. Þetta dæmi kann að hafa verið eitt af tilefnum spurningarinnar. Það er í svari Árdísar Elíasdóttur stærðfræðings og eðlisfræðinema við spurningunni Ef flugvél flýgur á ljóshraða, hversu lengi er hún þá að fljúga yfir Ísland frá austri til vesturs? Árdís byrjar svar sitt sem hér segir:
Til að koma í veg fyrir allan misskilning er best að taka fram að flugvél mun aldrei ná að fljúga yfir Ísland á ljóshraða eins og útskýrt er í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna er ekki hægt að ferðast á ljóshraða? Er ekki hægt að reyna að búa til vél sem getur það? (Leturbreyting okkar hér).
Árdís er hér að vísa í eina meginniðurstöðu takmörkuðu afstæðiskenningarinnar, að orka og efni geta ekki farið hraðar en ljósið fer í tómarúmi. Þessi niðurstaða er í órofa tengslum við ýmis önnur atriði í kenningunni og þar með í vísindum nútímans. Öll þessi atriði styðjast við fjöldamargar tilraunir, mælingar og athuganir. Þannig hafa menn til dæmis séð fjöldamargar öreindir nálgast ljóshraðann verulega en engin þeirra hefur farið hraðar en ljósið fer í tómarúmi.

Það er eitt af meginmarkmiðum Vísindavefsins að kynna lesendum undanbragðalaust niðurstöður nútíma vísinda, ekki síst þær sem kunna að virðast framandlegar við fyrstu sýn. Þegar Árdís og aðrir vísindamenn taka til orða eins og hér var lýst er að sjálfsögðu undirskilið að verið er að lýsa þeirri mynd sem vísindi nútímans gefa af viðfangsefnum sínum. Fullyrðingin er í rauninni sú að "samkvæmt vísindum nútímans mun flugvél aldrei ná að fljúga yfir Ísland á ljóshraða". Og hér er raunar verið að nefna eina af traustari niðurstöðunum í vísindum okkar; ef hlutir gætu náð meiri hraða takmarkalaust, þá væri býsna margt öðru vísi kringum okkur en það er!

Vísindin telja sig hins vegar ekkert endilega hafa höndlað einhvern algeran, endanlegan og óbreytanlegan sannleika. Saga vísindanna gefur okkur til dæmis glöggt til kynna að það sem við vitum best núna kunni að breytast í framtíðinni með nýjum athugunum og nýjum gögnum. Þær breytingar verða þó þannig að þær fela í sér áfram þær athuganir og gögn sem við þekkjum best. Jafnframt liggur í eðli máls að við getum að öðru leyti ekkert sagt fyrirfram um þessar breytingar og því látum við þá kyrrt liggja.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

13.3.2001

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru orðin "getur ekki" og "mun aldrei" notuð svo títt á Vísindavefnum?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2001. Sótt 18. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1376.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 13. mars). Af hverju eru orðin "getur ekki" og "mun aldrei" notuð svo títt á Vísindavefnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1376

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Af hverju eru orðin "getur ekki" og "mun aldrei" notuð svo títt á Vísindavefnum?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2001. Vefsíða. 18. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1376>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru orðin "getur ekki" og "mun aldrei" notuð svo títt á Vísindavefnum?
Spyrjandi bætir við:

Ef haft er til hliðsjónar: "...maðurinn á ALDREI eftir að fljúga..."
Þessi spurning kemur okkur óneitanlega á óvart því að hitt heyrist fullt eins oft að vísindin gefi ekki nógu afdráttarlaus svör og vísindamenn setji svör sín oft fram með miklum fyrirvörum. Ef fullyrðing spyrjanda væri rétt mætti ætla að Vísindavefurinn hefði með einhverjum hætti farið út af hefðbundnu spori!

Nú vill svo til að hér þarf ekki að láta sér nægja getsakir eða ágiskanir því að tækni nútímans gerir okkur kleift að athuga með áþreifanlegum hætti hvað hæft er í því sem spyrjandi fullyrðir. Þannig sýnir leitarvél okkar að orðalagið "getur ekki" kemur að vísu alloft fyrir í þeim 1300 svörum sem við höfum birt, en þó ekki eins oft og til dæmis "getur verið". Orðalagið um flugið sem spyrjandi tilgreinir innan gæsalappa kemur ekki fram í leitarvélum okkar og við vitum því ekki hvaðan það er tekið.

Orðalagið "mun aldrei" kemur fyrir einu sinni í birtu svari á Vísindavefnum. Þetta dæmi kann að hafa verið eitt af tilefnum spurningarinnar. Það er í svari Árdísar Elíasdóttur stærðfræðings og eðlisfræðinema við spurningunni Ef flugvél flýgur á ljóshraða, hversu lengi er hún þá að fljúga yfir Ísland frá austri til vesturs? Árdís byrjar svar sitt sem hér segir:
Til að koma í veg fyrir allan misskilning er best að taka fram að flugvél mun aldrei ná að fljúga yfir Ísland á ljóshraða eins og útskýrt er í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvers vegna er ekki hægt að ferðast á ljóshraða? Er ekki hægt að reyna að búa til vél sem getur það? (Leturbreyting okkar hér).
Árdís er hér að vísa í eina meginniðurstöðu takmörkuðu afstæðiskenningarinnar, að orka og efni geta ekki farið hraðar en ljósið fer í tómarúmi. Þessi niðurstaða er í órofa tengslum við ýmis önnur atriði í kenningunni og þar með í vísindum nútímans. Öll þessi atriði styðjast við fjöldamargar tilraunir, mælingar og athuganir. Þannig hafa menn til dæmis séð fjöldamargar öreindir nálgast ljóshraðann verulega en engin þeirra hefur farið hraðar en ljósið fer í tómarúmi.

Það er eitt af meginmarkmiðum Vísindavefsins að kynna lesendum undanbragðalaust niðurstöður nútíma vísinda, ekki síst þær sem kunna að virðast framandlegar við fyrstu sýn. Þegar Árdís og aðrir vísindamenn taka til orða eins og hér var lýst er að sjálfsögðu undirskilið að verið er að lýsa þeirri mynd sem vísindi nútímans gefa af viðfangsefnum sínum. Fullyrðingin er í rauninni sú að "samkvæmt vísindum nútímans mun flugvél aldrei ná að fljúga yfir Ísland á ljóshraða". Og hér er raunar verið að nefna eina af traustari niðurstöðunum í vísindum okkar; ef hlutir gætu náð meiri hraða takmarkalaust, þá væri býsna margt öðru vísi kringum okkur en það er!

Vísindin telja sig hins vegar ekkert endilega hafa höndlað einhvern algeran, endanlegan og óbreytanlegan sannleika. Saga vísindanna gefur okkur til dæmis glöggt til kynna að það sem við vitum best núna kunni að breytast í framtíðinni með nýjum athugunum og nýjum gögnum. Þær breytingar verða þó þannig að þær fela í sér áfram þær athuganir og gögn sem við þekkjum best. Jafnframt liggur í eðli máls að við getum að öðru leyti ekkert sagt fyrirfram um þessar breytingar og því látum við þá kyrrt liggja....