Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar?

Höskuldur Búi Jónsson

Í byrjun síðustu aldar kom Þorvaldur Thoroddsen fram með hugmyndir um myndun Vatnsdalshóla, yst í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Taldi hann að hólarnir væru af jökulrænum uppruna og hefðu myndast við það að skriða féll á jökul sem svo bar efnið fram og myndaði jökulgarða þar sem nú eru Vatnsdalshólar.

Á fjórða áratug síðustu aldar setti Jakob H. Líndal (1936: Náttúrufræðingurinn, 6) fram aðrar kenningar um myndun Vatnsdalshóla og voru þær kenningar síðar studdar af Sigurði Þórarinssyni (1954: Náttúrfræðingurinn, 24) og Ólafi Jónssyni (1976: Berghlaup).

Í stuttu máli efaðist Jakob um hugmyndir Þorvaldar og benti á að hvergi væri að finna vott af núinni möl eða steinum innan hólanna og að þeir væru ekki mengaðir af venjulegum jökulleir. Taldi hann líklegra að fell nokkurt hefði verið fyrir norðan Jörundarfell sem steypst hefði niður hlíðina. Því til stuðnings benti hann á að bergtegundir að norðanverðu í hólunum væru sömu gerðar og nyrst í skriðufarinu og sama væri upp á teningnum að sunnanverðu. Jakob áleit ennfremur að hólarnir hefðu myndast eftir ísöld og því til sönnunar benti hann á ummerki um hærri sjávarstöðu innar og utar í dalnum, en ekki fann hann neinn vott um strandlínur, fjörur né sjávarleir í hólunum sjálfum. Taldi hann að framhlaup hefði orðið í lok ísaldar, einkum vegna veikra millilaga í berggrunni.

Til skýringar á dreifingu hólanna, hélt Jakob að framhlaupið hefði verið blandað jökulstykkjum. Bergstykkin hafi síðan veðrast niður í keiluhóla og einstakir hólar jafnvel veðrast úr einu og sama bergstykkinu. Á tveimur stöðum innan hólanna fann Jakob hvalbakaðar basaltklappir með stefnu samhliða Vatnsdal og þóttist hann viss um að þær væru jökulsorfnar undirstöður hólanna.

Vorið 1997 kom Ágúst Guðmundsson (Náttúrufræðingurinn, 67) fram með nýjar hugmyndir um myndun Vatnsdalshóla. Taldi hann að miðhluti Vatnsdalshóla væri úr föstum berggrunni sem væri sundurgrafinn af vatnsfarvegum og upprótaður af jökulsporði. Því til stuðnings benti hann á heilleika bergsins og segulmögnun líparíts og bergganga í Vatnsdalshólum. Einnig benti Ágúst á fundarstaði líparíts sunnan Vatnsdalshóla. Taldi hann langsennilegast að líparítsyrpur í hlíð Vatnsdalsfjalls væru komnar niður á láglendi í vestanverðum Vatnsdal vegna sighreyfinga við höggun í berggrunni. Meginhluti hólanna væri þó úr lausum jarðlögum sem jökull hefur hreyft og mótað en ekki flutt um langan veg. Því til stuðnings benti hann á hallandi, lagskipt lausefni og ef til vill jökulruðning í hlíð Vatnsdalsfjalls.

Hugmyndir Ágústs voru hraktar í BS-ritgerð Höskuldar B. Jónssonar (1998) um Vatnsdalshóla og rök færð fyrir því að kenningar Jakobs Líndals væru enn í gildi. Það sem vegur líklega þyngst er sú staðreynd að hvalbak sem finnst við Vatnsdalshólabæinn er innan um hóla sem rísa um 20-30 m upp yfir hvalbakið. Þarna er því um að ræða sönnun þess að hólarnir séu ekki úr föstum berggrunni, enda ólíklegt að jökull hafi sorfið basaltið í hvalbakinu, en látið hólana, sem eru úr rhýólíti og mun hærra í landslaginu, ósnerta. Þá fannst ekkert sem bendir til jökulræns uppruna hólanna, hvorki silt né núnir steinar.

Ekki fundust heldur bergtegundir innskotanna við Breiðabólsstað og Hnjúk. Það styður þá kenningu að hólarnir séu ekki myndaðir af jökli, því jökull hefði átt að bera fram þær bergtegundir sem þarna eru. Þá fundust engin ummerki um hærri sjávarstöðu innan hólanna, það er hvorki núnir steinar, silt né sjávarleir. Hins vegar eru greinileg ummerki um hærri sjávarstöðu bæði utar og innar í dalnum, en þau ummerki mynduðust eftir að jökull hvarf úr dalnum. Því má draga þá ályktun að hvorki jökull né sjór hafi komið nálægt myndun hólanna og þeir því myndaðir eftir að jökull hvarf úr Vatnsdalnum.

Höfundur

jarðfræðingur á Náttúrufræðistofnun, Akureyri

Útgáfudagur

23.3.2001

Spyrjandi

Guðrún Sigurbjörnsdóttir

Tilvísun

Höskuldur Búi Jónsson. „Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2001. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1409.

Höskuldur Búi Jónsson. (2001, 23. mars). Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1409

Höskuldur Búi Jónsson. „Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2001. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1409>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig mynduðust Vatnsdalshólar?
Í byrjun síðustu aldar kom Þorvaldur Thoroddsen fram með hugmyndir um myndun Vatnsdalshóla, yst í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Taldi hann að hólarnir væru af jökulrænum uppruna og hefðu myndast við það að skriða féll á jökul sem svo bar efnið fram og myndaði jökulgarða þar sem nú eru Vatnsdalshólar.

Á fjórða áratug síðustu aldar setti Jakob H. Líndal (1936: Náttúrufræðingurinn, 6) fram aðrar kenningar um myndun Vatnsdalshóla og voru þær kenningar síðar studdar af Sigurði Þórarinssyni (1954: Náttúrfræðingurinn, 24) og Ólafi Jónssyni (1976: Berghlaup).

Í stuttu máli efaðist Jakob um hugmyndir Þorvaldar og benti á að hvergi væri að finna vott af núinni möl eða steinum innan hólanna og að þeir væru ekki mengaðir af venjulegum jökulleir. Taldi hann líklegra að fell nokkurt hefði verið fyrir norðan Jörundarfell sem steypst hefði niður hlíðina. Því til stuðnings benti hann á að bergtegundir að norðanverðu í hólunum væru sömu gerðar og nyrst í skriðufarinu og sama væri upp á teningnum að sunnanverðu. Jakob áleit ennfremur að hólarnir hefðu myndast eftir ísöld og því til sönnunar benti hann á ummerki um hærri sjávarstöðu innar og utar í dalnum, en ekki fann hann neinn vott um strandlínur, fjörur né sjávarleir í hólunum sjálfum. Taldi hann að framhlaup hefði orðið í lok ísaldar, einkum vegna veikra millilaga í berggrunni.

Til skýringar á dreifingu hólanna, hélt Jakob að framhlaupið hefði verið blandað jökulstykkjum. Bergstykkin hafi síðan veðrast niður í keiluhóla og einstakir hólar jafnvel veðrast úr einu og sama bergstykkinu. Á tveimur stöðum innan hólanna fann Jakob hvalbakaðar basaltklappir með stefnu samhliða Vatnsdal og þóttist hann viss um að þær væru jökulsorfnar undirstöður hólanna.

Vorið 1997 kom Ágúst Guðmundsson (Náttúrufræðingurinn, 67) fram með nýjar hugmyndir um myndun Vatnsdalshóla. Taldi hann að miðhluti Vatnsdalshóla væri úr föstum berggrunni sem væri sundurgrafinn af vatnsfarvegum og upprótaður af jökulsporði. Því til stuðnings benti hann á heilleika bergsins og segulmögnun líparíts og bergganga í Vatnsdalshólum. Einnig benti Ágúst á fundarstaði líparíts sunnan Vatnsdalshóla. Taldi hann langsennilegast að líparítsyrpur í hlíð Vatnsdalsfjalls væru komnar niður á láglendi í vestanverðum Vatnsdal vegna sighreyfinga við höggun í berggrunni. Meginhluti hólanna væri þó úr lausum jarðlögum sem jökull hefur hreyft og mótað en ekki flutt um langan veg. Því til stuðnings benti hann á hallandi, lagskipt lausefni og ef til vill jökulruðning í hlíð Vatnsdalsfjalls.

Hugmyndir Ágústs voru hraktar í BS-ritgerð Höskuldar B. Jónssonar (1998) um Vatnsdalshóla og rök færð fyrir því að kenningar Jakobs Líndals væru enn í gildi. Það sem vegur líklega þyngst er sú staðreynd að hvalbak sem finnst við Vatnsdalshólabæinn er innan um hóla sem rísa um 20-30 m upp yfir hvalbakið. Þarna er því um að ræða sönnun þess að hólarnir séu ekki úr föstum berggrunni, enda ólíklegt að jökull hafi sorfið basaltið í hvalbakinu, en látið hólana, sem eru úr rhýólíti og mun hærra í landslaginu, ósnerta. Þá fannst ekkert sem bendir til jökulræns uppruna hólanna, hvorki silt né núnir steinar.

Ekki fundust heldur bergtegundir innskotanna við Breiðabólsstað og Hnjúk. Það styður þá kenningu að hólarnir séu ekki myndaðir af jökli, því jökull hefði átt að bera fram þær bergtegundir sem þarna eru. Þá fundust engin ummerki um hærri sjávarstöðu innan hólanna, það er hvorki núnir steinar, silt né sjávarleir. Hins vegar eru greinileg ummerki um hærri sjávarstöðu bæði utar og innar í dalnum, en þau ummerki mynduðust eftir að jökull hvarf úr dalnum. Því má draga þá ályktun að hvorki jökull né sjór hafi komið nálægt myndun hólanna og þeir því myndaðir eftir að jökull hvarf úr Vatnsdalnum. ...