Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Tvennt er það sem ræður tilurð hinna ýmsu tegunda storkubergs: efnasamsetning kvikunnar sem bergið storknar úr og aðstæður við storknunina — hröð storknun eða hæg, við yfirborð, í vatni eða djúpt í iðrum jarðar. Efnafræðilega einkennast íslenskar bergtegundir af því að landið er „heitur reitur“ í miðju úthafi. Annar slíkur heitur reitur — en þeir eru alls 25-30 — er Hawaii í Kyrrahafi, og þar eru einkennisbergtegundirnar að mörgu leyti hinar sömu og hér. Þó er einn áhugaverður munur: að súrt berg (dasít og rhýólít eða líparít) er miklu algengara á Íslandi en á Hawaii, þar sem slíkt berg er nánast óþekkt, og raunar er Ísland sennilega einsdæmi að þessu leyti meðal úthafseyja.
Efnafræðilega eru íslenskar bergtegundir þannig hinar sömu og á öðrum úthafseyjum — og reyndar blágrýtissvæðum meginlandanna líka — en hins vegar eru hlutföll þeirra að sumu leyti óvenjuleg hér: langmest er af basalti (90%), næstmest af súru bergi (tæp 10%) en langminnst af ísúru bergi, sem þó nefnist „íslandít“.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmyndunninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi í Grímsvötnum, Kötlu og Surtsey (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, Bláfjöll og hryggirnir á Reykjanesskaga.
Sigurður Steinþórsson. „Hvaða bergtegundir fyrirfinnast nær eingöngu á Íslandi eða hafa séríslensk einkenni?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2001, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1410.
Sigurður Steinþórsson. (2001, 23. mars). Hvaða bergtegundir fyrirfinnast nær eingöngu á Íslandi eða hafa séríslensk einkenni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1410
Sigurður Steinþórsson. „Hvaða bergtegundir fyrirfinnast nær eingöngu á Íslandi eða hafa séríslensk einkenni?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2001. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1410>.