Í vísindaskáldskap er stundum skapað gerfiaðdráttarafl í geimskipum með því að nota miðflóttafl. Með því að láta hjól snúast um öxul og labba svo innan á veggjum þess. Glæsileg hugmynd, en einu sinni þegar ég var að ræða þetta, þá kom upp einföld spurning sem frysti umræðuna: Verkar miðflóttaaflið í þyngdarleysi?Eðlisfræðingar taka ekki svo til orða að þarna sé "miðflóttaafl" að verki heldur verkar miðsóknarkraftur frá veggjunum eins og spyrjandi lýsir þeim. Hlutirnir inni í geimfarinu leitast við að halda áfram eftir beinni línu en miðsóknarkrafturinn beinir þeim sífellt inn á við þannig að þeir fara í hringi. Orðið "miðflóttaafl" á væntanlega rætur að rekja til fyrrgreindrar tilhneigingar til að fara eftir beinni línu en er í raun og veru villandi eins og sjá má. Svarið við því sem spyrjandi ber í rauninni fyrir brjósti er JÁ: Miðsóknarkraftur verkar alltaf þegar hlutur er hindraður í að fara beint áfram og er í staðinn á hringhreyfingu um tiltekna miðju. Nánari grein er gerð fyrir þessu í svörum Þorsteins Vilhjálmssonar við eftirtöldum spurningum: Er hægt að búa til gerviþyngdarafl eða þyngdarhermi? Er hægt að sveifla pendúl í geimnum? Yrðu þá lengd hans og hraða takmörk sett, og gæti hann náð ljóshraða? Er bráðlega hægt að nota gerviþyngdarafl svo að menn geti gengið á venjulegan hátt í geimskutlum?
Verkar miðflóttaaflið í þyngdarleysi?
Útgáfudagur
2.4.2001
Spyrjandi
Friðrik Svanur Sigurðarson,
Ágúst Guðmundsson
Tilvísun
ÞV. „Verkar miðflóttaaflið í þyngdarleysi?“ Vísindavefurinn, 2. apríl 2001, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1450.
ÞV. (2001, 2. apríl). Verkar miðflóttaaflið í þyngdarleysi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1450
ÞV. „Verkar miðflóttaaflið í þyngdarleysi?“ Vísindavefurinn. 2. apr. 2001. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1450>.