Sólin Sólin Rís 08:37 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:24 • Sest 08:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:01 • Síðdegis: 21:19 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:12 í Reykjavík

Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini?

Róbert Arnar Stefánsson

Stofnstærð villts minks á Íslandi

Stærð íslenska minkastofnsins er óþekkt. Enn hefur engin tilraun verið gerð til að mæla hana þannig að einu vísbendingar um stofnstærðina eru veiðitölur frá veiðistjóraembættinu. Lítið er þó hægt að fullyrða um stofnstærðina út frá þeim en þær geta gefið vísbendingar um breytingar á stofnstærð. Fjöldi veiddra minka hefur aukist nokkuð jafnt og þétt og hefur síðustu ár verið milli 6000 og 7000 árlega að hvolpum meðtöldum.

Aukningin bendir til að minkastofninn hafi verið og sé enn að stækka þrátt fyrir töluverðar veiðar. Því er ljóst að hefðbundnar veiðar munu ekki útrýma minknum hér á landi. Þó virðist takast að halda fjölda minka niðri á svæðum þar sem veiðiálag er sérlega mikið, til að mynda við Mývatn.

Stærð minkastofnsins er í lágmarki að vorlagi en got á sér stað í maí. Veiðar að vorlagi á svæðum sem eru talin sérlega viðkvæm fyrir afráni minks, t.d. í æðarvörpum, gagnast til þess að halda svæðinu minkalausu fram eftir sumri. Minkastofninn þrefaldast að stærð þegar hvolparnir fæðast, en meðalgotstærð minka hér á landi er u.þ.b. sex hvolpar. Rannsóknir á Líffræðistofnun Háskólans benda til að dánartíðni meðal hvolpa sé há fyrstu mánuðina, t.d. þegar þeir fara að heiman í ágúst til október til að koma sér upp óðali fyrir veturinn. Sveiflan í stofnstærð yfir árið er því að öllum líkindum mjög stór, eða þreföld, sé gert ráð fyrir að stofninn sé í jafnvægi.

Náttúrulegir óvinir minksins

Minkurinn á sér mun færri náttúrulega óvini á Íslandi en annars staðar á útbreiðslusvæði sínu í N.-Ameríku og Evrópu, þar sem samkeppni getur verið hörð við skyldar tegundir með hliðstæðar aðlaganir, t.d. otur, þefvíslu og evrópska minkinn. Minkurinn stendur sig hins vegar oft vel í samkeppni við aðrar tegundir vegna þess hversu ósérhæfður í fæðuvali hann er.

Helsti óvinur minksins á Íslandi, að manninum undanskildum, er sennilega refurinn. Mjög lítið er vitað um samskipti þessara tegunda en minkahræ hafa fundist á tófugrenjum og sést hefur til refa elta minka og hrekja frá æti. Líklega veldur refurinn nokkurri truflun fyrir minkinn á svæðum þar sem kjörlendi beggja er fyrir hendi, t.d. víða við sjávarsíðuna.

Ekki er vitað til að minkurinn eigi sér aðra óvini hérlendis en vitað er að gullernir í Rússlandi drepa minka þannig að ekki er óhugsandi að haförninn geri slíkt hið sama þótt hann sé reyndar ekki eins kræfur við veiðar á landdýrum og gullörninn.

Höfundur

forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands

Útgáfudagur

27.2.2000

Spyrjandi

Ólafur Þráinsson

Efnisorð

Tilvísun

Róbert Arnar Stefánsson. „Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini? “ Vísindavefurinn, 27. febrúar 2000. Sótt 29. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=149.

Róbert Arnar Stefánsson. (2000, 27. febrúar). Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=149

Róbert Arnar Stefánsson. „Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini? “ Vísindavefurinn. 27. feb. 2000. Vefsíða. 29. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=149>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er stofnstærð villiminks á Íslandi? Á hann sér einhverja náttúrulega óvini?
Stofnstærð villts minks á Íslandi

Stærð íslenska minkastofnsins er óþekkt. Enn hefur engin tilraun verið gerð til að mæla hana þannig að einu vísbendingar um stofnstærðina eru veiðitölur frá veiðistjóraembættinu. Lítið er þó hægt að fullyrða um stofnstærðina út frá þeim en þær geta gefið vísbendingar um breytingar á stofnstærð. Fjöldi veiddra minka hefur aukist nokkuð jafnt og þétt og hefur síðustu ár verið milli 6000 og 7000 árlega að hvolpum meðtöldum.

Aukningin bendir til að minkastofninn hafi verið og sé enn að stækka þrátt fyrir töluverðar veiðar. Því er ljóst að hefðbundnar veiðar munu ekki útrýma minknum hér á landi. Þó virðist takast að halda fjölda minka niðri á svæðum þar sem veiðiálag er sérlega mikið, til að mynda við Mývatn.

Stærð minkastofnsins er í lágmarki að vorlagi en got á sér stað í maí. Veiðar að vorlagi á svæðum sem eru talin sérlega viðkvæm fyrir afráni minks, t.d. í æðarvörpum, gagnast til þess að halda svæðinu minkalausu fram eftir sumri. Minkastofninn þrefaldast að stærð þegar hvolparnir fæðast, en meðalgotstærð minka hér á landi er u.þ.b. sex hvolpar. Rannsóknir á Líffræðistofnun Háskólans benda til að dánartíðni meðal hvolpa sé há fyrstu mánuðina, t.d. þegar þeir fara að heiman í ágúst til október til að koma sér upp óðali fyrir veturinn. Sveiflan í stofnstærð yfir árið er því að öllum líkindum mjög stór, eða þreföld, sé gert ráð fyrir að stofninn sé í jafnvægi.

Náttúrulegir óvinir minksins

Minkurinn á sér mun færri náttúrulega óvini á Íslandi en annars staðar á útbreiðslusvæði sínu í N.-Ameríku og Evrópu, þar sem samkeppni getur verið hörð við skyldar tegundir með hliðstæðar aðlaganir, t.d. otur, þefvíslu og evrópska minkinn. Minkurinn stendur sig hins vegar oft vel í samkeppni við aðrar tegundir vegna þess hversu ósérhæfður í fæðuvali hann er.

Helsti óvinur minksins á Íslandi, að manninum undanskildum, er sennilega refurinn. Mjög lítið er vitað um samskipti þessara tegunda en minkahræ hafa fundist á tófugrenjum og sést hefur til refa elta minka og hrekja frá æti. Líklega veldur refurinn nokkurri truflun fyrir minkinn á svæðum þar sem kjörlendi beggja er fyrir hendi, t.d. víða við sjávarsíðuna.

Ekki er vitað til að minkurinn eigi sér aðra óvini hérlendis en vitað er að gullernir í Rússlandi drepa minka þannig að ekki er óhugsandi að haförninn geri slíkt hið sama þótt hann sé reyndar ekki eins kræfur við veiðar á landdýrum og gullörninn....