Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaMið-AusturlöndHvers vegna hafa Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir ekki viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á fyrri hluta 20. aldarinnar?
Spurningunni má svara á einfaldan hátt: Öllum er sama um Armena, nema Armenum sjálfum. Og þeir hafa ekki verið nógu áhrifamiklir til að fá ríkisstjórnir veraldar til að viðurkenna fjöldamorðin (þar sem spyrjandi talar um „þjóðir“ á hann áreiðanlega við ríki). Hitler hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Hver man eftir Armenum?“
Árið 1915 hófust aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda sem leiddu til dauða hundraða þúsunda Armena. Um var að ræða fjöldamorð, en líka flutninga á Armenum, sem flestir bjuggu kringum það svæði þar sem Armenía er nú, til svæðis þar sem Sýrland er nú og Írak. Fólkið var rekið fótgangandi þessa þúsund kílómetra vegalengd, með meðfylgjandi óhæfuverkum og mannvonsku: aftökum, pyntingum og svo framvegis. Erfitt er að gera sér grein fyrir því hve margir dóu. Tyrknesk yfirvöld tala um þrjú hundruð þúsund manns, en aðrir nefna eina og hálfa eða jafnvel tvær milljónir fórnarlamba. Líklegasta ágiskunin ku vera að fallið hafi milli sex hundruð þúsund og ein og hálf milljón manna.
Þessir atburðir hafa verið nefndir fyrsta þjóðarmorð 20. aldarinnar en þó er sjaldan minnst á þá og ríki heimsins viðurkenna yfirleitt ekki að um þjóðarmorð hafi verið að ræða. Atburðirnir voru það þó áreiðanlega samkvæmt þeirri skilgreiningu sem venjulega er höfð, að þjóðarmorð séu þau fjöldamorð sem framin eru með það fyrir augum að eyða þjóð, ættbálki eða hópi sem skilgreindur er með tilliti til trúarbragða eða kynþáttar.
Tyrknesk yfirvöld réðust einmitt á Armena vegna fordóma; hugsunin var „þú skalt deyja því að þú ert Armeni!“ Einnig kann það að hafa haft áhrif að Tyrkir óttuðust að kristnir Armenar mundu styðja kristna Rússa í stríðinu sem þeir síðarnefndu háðu við íslamska Tyrki (í fyrri heimsstyrjöldinni börðust Tyrkir, Þjóðverjar, Austurríkismenn-Ungverjar og Búlgarar við Rússa, Frakka, Breta, Ítala og seinna Bandaríkjamenn, svo að stærstu þjóðirnar séu nefndar).
En hvers vegna er sjaldan minnst á þessi fólskuverk en svo oft á þau, til að mynda, sem áttu sér stað tæpum þrjátíu árum síðar: þjóðarmorð nasista á Gyðingum? Ástæðan virðist þríþætt.
Í fyrsta lagi eru fáar menjar um þessa atburði en fjölda margt minnir hins vegar á þjóðarmorðið á Gyðingum. Einungis nokkrar sögusagnir, lýsingar og illa farnar myndir geta minnt á meðferðina á Armenum. Á hinn bóginn stendur uppi fjöldi útrýmingarbúða nasista, hægt væri að fylla bókasöfn með ritum um Gyðingamorð, gnægð ljósmynda er til af þeim og þar fram eftir götunum. Þessi skýring nægir þó ekki ein, því að sömu menjar og minna á ofsóknirnar gegn Gyðingum gætu minnt á herferðina gegn Sígaunum sem var líka þjóðarmorð en samt er ákaflega sjaldan minnst á hana.
Ber hugann þá að öðrum þættinum, sem felst í því að Gyðingar eru gríðarlega áhrifamiklir í voldugu vestrænu löndunum, sér í lagi í Bandaríkjunum og í Frakklandi. Þeir hamra á helförinni, af ástæðum sem ekki verður fjallað um hér. Þó að Armenar myndi einnig minnihlutahópa í þessum ríkjum eru áhrif þeirra ekki sambærileg. Þeim hefur þó orðið nokkuð ágengt því að ríki eins og Frakkland, Rússland, Belgía, Grikkland og Kanada hafa viðurkennt opinberlega að um þjóðarmorð hafi verið að ræða.
Í þriðja og síðasta lagi er vilji Þjóðverja til að gangast við verknaðinum ólíkur afstöðu Tyrkja. Þjóðverjar hefðu raunar ekki getað þrætt fyrir atburðina þó að þeir hefðu viljað. Eftir stríðið voru Þjóðverjar bugaðir og þá hryllti sjálfsagt flesta við þjóðarmorðunum. Þeir gengust við því sem stjórn þeirra hafði gert. Á hinn bóginn hafa Tyrkir aldrei verið brotnir á bak aftur á sama hátt og Þjóðverjar voru eftir síðari heimsstyrjöldina, og þeir hafa aldrei viljað gangast við því að um þjóðarmorð hafi verið að ræða. Þeir fylgja þessu eftir með með ýmiss konar ráðstöfunum til að hindra aðgang að gögnum og draga úr gagnrýninni umræðu.
Séu þessi þrjú atriði tekin saman má ímynda sér að Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir hafi ekki viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á fyrri hluta 20. aldarinnar vegna þess að fátt minnir á atburðina, Armenar hafa ekki getað minnt nægilega á þá og Tyrkir ekki viljað gangast við þeim. Svo að talað sé napurlega, en kannski af raunsæi, má ímynda sér eftirfarandi hugsunargang valdamanns í vestrænu stórveldi: „Hvers vegna ættum við að vera að styggja Tyrki vegna einhverra Armena sem öllum er sama um og enginn heyrir minnst á?“
Þetta kemur til að mynda fram í afstöðu núverandi Bandaríkjaforseta. Á meðan á kosningabaráttunni stóð sendi hann frá sér yfirlýsingu þar sem greinilega kom fram að umræddir atburðir hafi verið þjóðarmorð (e. genocide). Þetta var gert til að afla atkvæða frá Bandaríkjamönnum af armenskum uppruna. Síðan, eftir að hann var kosinn forseti, segist hann harma „einn mesta harmleik sögunnar: þegar um ein og hálf milljón Armenar var neydd í útlegð eða drepin á síðustu árum Ottómana-heimsveldisins...“ En hann forðast nú í lengstu lög að nota orðið „þjóðarmorð“.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Jóhann M. Hauksson. „Hvers vegna hafa Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir ekki viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á fyrri hluta 20. aldarinnar?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2001, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1567.
Jóhann M. Hauksson. (2001, 7. maí). Hvers vegna hafa Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir ekki viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á fyrri hluta 20. aldarinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1567
Jóhann M. Hauksson. „Hvers vegna hafa Bandaríkjamenn og aðrar þjóðir ekki viðurkennt þjóðarmorð Tyrkja á Armenum á fyrri hluta 20. aldarinnar?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2001. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1567>.