Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ammóníak er litlaus daunill lofttegund undir venjulegum kringumstæðum (við staðalaðstæður, en þá er loftþrýstingur 105 Pa og hiti 25°C). Í sameind ammóníaks er ein köfnunarefnisfrumeind (N; einnig kallað nitur) og þrjár vetnisfrumeindir (H) og er hún táknuð með efnaformúlunni NH3. Ammóníak veldur óþægindum og áreiti í öndunarkerfi manna og augum og getur verið skaðlegt og jafnvel banvænt ef um veruleg og langvarandi áhrif er að ræða. Önnur atriði draga þó úr hættunni af því, til dæmis það að efnið er talsvert léttara en loft og leitar því upp á við ef fært er. Það er ein ástæða þess að ammóníaklykt stendur oft ekki lengi.
Almenn skýring á þessu er eftirfarandi:
Þegar ammóníak kemst í snertingu við vatn leysist það upp og gengur í efnasamband við vatnið. Hreint vatn er að mestum hluta á forminu H2O, en að örlitlu leyti klofið í jónir, H+ og OH-. Ammóníak uppleyst í vatni veldur því að vatnssameindir (H2O) rofna enn frekar í þessar jónir en H+-jónirnar tengjast ammóníaksameindunum og mynda NH4+-jónir (sjá mynd). Fyrir vikið raskast eðlilegt hlufall H+- og OH--jónanna í vatninu þannig að styrkur H+ minnkar en styrkur OH- eykst. Styrkur þessara jóna er einmitt mælikvarði á sýrustig vatnslausna (sjá einnig svar við spurningunni Hvað er sýrustig (pH)? á Vísindavefnum). Lausn með styrk OH--jóna umfram það sem gildir í hreinu vatni hefir hátt sýrustig og nefnist basísk lausn.
Dæmi um verkun ammóníakjónarinnar í vatnslausn var rætt hér á Vísindavefnum í svari Sigurjón N. Ólafssonar og Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvað er keyta? Annað dæmi er vítissódi sem er mjög sterkur hreinsivökvi vegna mikils OH--styrks. Hreinsivirkni vítisódalausnar felst í hraðvirkum niðurbrots-efnahvörfum sem verða þegar OH--jónirnar hvarfast við ýmis aðskotaefni (óhreinindi).
Virkni ammóníaksins þegar það er uppleyst í vatni má líkja við áhrif veikrar vítisódalausnar. Hæfilegur styrkur OH--jóna, líkt og í hreinu vatni, er nauðsynlegur lífríkinu vegna margvíslegra efnahvarfa sem fela í sér niðurbrot og uppbyggingu efna af ýmsu tagi, en þegar styrkurinn verður of mikill geta hin ýmsu efnaferli raskast og skaðsemi átt sér stað af völdum óeðlilegs niðurbrots lífefna.
Til fróðleiks má geta þess að ammóníaksameindin er í laginu eins og píramídi með þríhyrndum grunnfleti þar sem niturfrumeindin er í toppinum en vetnisfrumeindirnar þrjár eru í hornum grunnflatarins, samanber myndina.
Þegar ammóníakjónin myndast úr sameindinni bætist fjórða vetnisfrumeindin við og þá myndast svokallaður reglulegur fjórflötungur (regular tetrahedron) þar sem allir hliðarfletirnir eru jafnhliða þríhyrningar og allir eins. Niturfrumeindin situr þá í miðju fjórflötungsins en vetnisfrumeindirnar í hornpunktunum fjórum. Rúmmyndin er í laginu eins og mjólkurhyrnur sem voru einu sinni vinsælar umbúðir um mjólk á Íslandi og víðar. Slík rúmmynd er samhverf og því er ammóníakjónin bæði stöðug og eins er mikil tilhneiging til að hún myndist.
Ágúst Kvaran. „Á hvern hátt er ammóníak hættulegt fyrir mann, fyrir utan óþolandi lyktina?“ Vísindavefurinn, 7. maí 2001, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1568.
Ágúst Kvaran. (2001, 7. maí). Á hvern hátt er ammóníak hættulegt fyrir mann, fyrir utan óþolandi lyktina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1568
Ágúst Kvaran. „Á hvern hátt er ammóníak hættulegt fyrir mann, fyrir utan óþolandi lyktina?“ Vísindavefurinn. 7. maí. 2001. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1568>.