Sólin Sólin Rís 03:55 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:59 • Sest 03:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:27 • Síðdegis: 16:57 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:42 • Síðdegis: 23:06 í Reykjavík

Hvers vegna byrja unglingar að drekka?

Sigurlína Davíðsdóttir

Samkvæmt skýrslum SÁÁ mun láta nærri að 16% Íslendinga fari einhvern tíma ævi sinnar í gegnum vímuefnameðferð, eða nærri einn af hverjum 6. Þess utan er vitað að ekki leita allir sér hjálpar þótt þeir lendi í vanda af völdum vímuefnaneyslu, þannig að jafnvel er hægt að búast við að enn hærra hlutfall Íslendinga sé í vandræðum eða hafi lent í vandræðum vegna eigin vímuefnanotkunar.

Með þessar staðreyndir í huga er athyglisvert að skoða niðurstöður kannana um vímuefnaneyslu unglinga. Í könnun sem gerð var árið 1996 [1] kom fram að 92% 17 ára unglinga höfðu prófað að drekka áfengi. Þarna kom einnig fram að af þeim unglingum sem nota áfengi sagði tæpur helmingur þeirra sem voru 14 ára, um 60% 15 ára og nær 70% 17 ára að þeir yrðu oftast eða næstum alltaf fullir þegar þeir neyttu áfengis. Önnur könnun sem gerð var meðal 10. bekkinga [2] leiddi í ljós að árið 1997 hafði hlutfall þeirra nemenda sem einhverntíma hafði neytt áfengis hækkað frá árinu 1990 þegar það var 69,9% upp í 81,3% árið 1997. Þótt þessi tala hafi eitthvað lækkað síðan er þó ljóst að stór hluti unglinga prófar að neyta áfengis og að margir þeirra lenda í vandræðum vegna þeirrar neyslu.

Í annarri könnuninni sem vísað var til hér að framan [1] voru unglingar sem drekka spurðir hvers vegna þeir gerðu það. Langalgengasta svarið var að þeir drykkju til að skemmta sér með vinum sínum. Það er því ljóst að hópþrýstingur skiptir verulegu máli þegar unglingar taka ákvörðun um hvort þeir byrji að drekka eða ekki. Næstflestir sögðust drekka til að láta sér líða vel, finna á sér. Þessi svör skáru sig nokkuð úr, fyrir utan að nokkuð margir 14 ára unglingar sögðust drekka til að prófa þetta, og sjá hvernig það væri.

Í hinni könnuninni [2] voru unglingar spurðir hvernig þeir verðu tómstundum sínum. Svörin voru þáttagreind þannig að nokkrir hópar unglinga fundust. Þeim hópum var síðan skipt niður í þrjá. Einn stundaði mest skemmtanir, annar félags- og æskulýðsstarf og sá þriðji stundaði mest íþróttir. Þegar reykingar og vímuefnaneysla þessara hópa voru bornar saman, varð ljóst að unglingar úr hópnum sem stundaði mest skemmtanir voru langlíklegastir til að reykja daglega, hafa orðið ölvaðir síðastliðna 30 daga og hafa notað hass eða amfetamín. Unglingar úr hópnum sem stundaði íþróttir voru ólíklegastir til alls þessa. Þarna var einnig athyglisvert að unglingar sem hanga mikið í verslanamiðstöðum og sjoppum eru mun líklegri en aðrir til að reykja og nota önnur vímuefni.

En foreldrarnir geta einnig haft áhrif í þessu sambandi. Í annarri könnunninni [1] sem nefnd var hér á undan kom fram að þótt meiri tengsl væru milli vímuefnaneyslu unglinganna og vina þeirra en milli vímuefnaneyslu unglinganna og foreldra þeirra, þá voru samt nokkur tengsl milli neyslu heimilisfólks. Því oftar sem foreldrarnir neyta vímuefna, því líklegri eru unglingarnir til að gera slíkt hið sama. Í hinni könnuninni [2] kom fram að samvera með foreldrum og fjölskyldu og aðhald og eftirlit foreldra spáði fyrir um minni vímuefnaneyslu en annars og að reykingar og ölvun foreldra spáði nokkuð vel fyrir um sömu hluti meðal unglinganna.

Vímuefnaneysla er viðurkennd í samfélaginu sem áhættuhegðun, en aðeins fullorðið fólk má taka þátt í henni. Unglingar líta því oft á það sem eins konar manndómsvígslu inn í heim hinna fullorðnu að prófa þessi efni. Margar rannsóknir hafa sýnt að aukið aðgengi að vímuefnum hækkar hlutfall þeirra sem lenda í vanda vegna neyslunnar og þar sem aðgengi að vímuefnum fer síbatnandi má reikna með að hækkandi hlutfall þeirra unglinga sem nú eru að prófa að nota þessi efni í fyrsta sinn muni lenda í vandræðum. Þetta er sérstakt áhyggjuefni vegna þess að margar kannanir, meðal annars báðar kannanirnar sem hér hefur verið vísað til, sýna að því yngri sem unglingar eru þegar þeir hefja neyslu, því meiri líkur eru til þess að þeir lendi í vandræðum seinna meir.

Af framansögðu er ljóst að margir þættir eru samverkandi þegar unglingar taka þá ákvörðun að prófa að nota vímuefni og því miður missa margir þeirra fljótlega stjórn á þeirri neyslu. Sennilega er hópþrýstingur frá jafningjahópnum sterkasti hvatinn til neyslunnar en einnig skiptir miklu máli hvernig unglingarnir verja tómstundum sínum og hvernig aðstæðurnar heima fyrir eru. Hvert árið sem hægt er að fresta því að unglingar hefji vímuefnaneyslu er mikilvægt og ætti að skoðast sem áfangasigur í baráttunni fyrir bættu mannlífi.

Heimildir:

[1] Sigrún Aðalbjarnardóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Eyrún Rúnarsdóttir (1997). Áhættuhegðun reykvískra unglinga: Tóbaksreykingar, áfengisneysla, hassneysla og neysla annarra vímuefna árin 1994-1996. Reykjavík: Félagsvísindastofnun HÍ.

[2] Þórólfur Þórlindsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Gunnar Bernburg og Viðar Halldórsson (1998). Vímuefnaneysla ungs fólks: Umhverfi og aðstæður. Reykjavík: Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

Höfundur

lektor í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ

Útgáfudagur

9.5.2001

Spyrjandi

Rúnar Ásgeirsson f. 1987

Efnisorð

Tilvísun

Sigurlína Davíðsdóttir. „Hvers vegna byrja unglingar að drekka?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2001. Sótt 20. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1580.

Sigurlína Davíðsdóttir. (2001, 9. maí). Hvers vegna byrja unglingar að drekka? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1580

Sigurlína Davíðsdóttir. „Hvers vegna byrja unglingar að drekka?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2001. Vefsíða. 20. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1580>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna byrja unglingar að drekka?
Samkvæmt skýrslum SÁÁ mun láta nærri að 16% Íslendinga fari einhvern tíma ævi sinnar í gegnum vímuefnameðferð, eða nærri einn af hverjum 6. Þess utan er vitað að ekki leita allir sér hjálpar þótt þeir lendi í vanda af völdum vímuefnaneyslu, þannig að jafnvel er hægt að búast við að enn hærra hlutfall Íslendinga sé í vandræðum eða hafi lent í vandræðum vegna eigin vímuefnanotkunar.

Með þessar staðreyndir í huga er athyglisvert að skoða niðurstöður kannana um vímuefnaneyslu unglinga. Í könnun sem gerð var árið 1996 [1] kom fram að 92% 17 ára unglinga höfðu prófað að drekka áfengi. Þarna kom einnig fram að af þeim unglingum sem nota áfengi sagði tæpur helmingur þeirra sem voru 14 ára, um 60% 15 ára og nær 70% 17 ára að þeir yrðu oftast eða næstum alltaf fullir þegar þeir neyttu áfengis. Önnur könnun sem gerð var meðal 10. bekkinga [2] leiddi í ljós að árið 1997 hafði hlutfall þeirra nemenda sem einhverntíma hafði neytt áfengis hækkað frá árinu 1990 þegar það var 69,9% upp í 81,3% árið 1997. Þótt þessi tala hafi eitthvað lækkað síðan er þó ljóst að stór hluti unglinga prófar að neyta áfengis og að margir þeirra lenda í vandræðum vegna þeirrar neyslu.

Í annarri könnuninni sem vísað var til hér að framan [1] voru unglingar sem drekka spurðir hvers vegna þeir gerðu það. Langalgengasta svarið var að þeir drykkju til að skemmta sér með vinum sínum. Það er því ljóst að hópþrýstingur skiptir verulegu máli þegar unglingar taka ákvörðun um hvort þeir byrji að drekka eða ekki. Næstflestir sögðust drekka til að láta sér líða vel, finna á sér. Þessi svör skáru sig nokkuð úr, fyrir utan að nokkuð margir 14 ára unglingar sögðust drekka til að prófa þetta, og sjá hvernig það væri.

Í hinni könnuninni [2] voru unglingar spurðir hvernig þeir verðu tómstundum sínum. Svörin voru þáttagreind þannig að nokkrir hópar unglinga fundust. Þeim hópum var síðan skipt niður í þrjá. Einn stundaði mest skemmtanir, annar félags- og æskulýðsstarf og sá þriðji stundaði mest íþróttir. Þegar reykingar og vímuefnaneysla þessara hópa voru bornar saman, varð ljóst að unglingar úr hópnum sem stundaði mest skemmtanir voru langlíklegastir til að reykja daglega, hafa orðið ölvaðir síðastliðna 30 daga og hafa notað hass eða amfetamín. Unglingar úr hópnum sem stundaði íþróttir voru ólíklegastir til alls þessa. Þarna var einnig athyglisvert að unglingar sem hanga mikið í verslanamiðstöðum og sjoppum eru mun líklegri en aðrir til að reykja og nota önnur vímuefni.

En foreldrarnir geta einnig haft áhrif í þessu sambandi. Í annarri könnunninni [1] sem nefnd var hér á undan kom fram að þótt meiri tengsl væru milli vímuefnaneyslu unglinganna og vina þeirra en milli vímuefnaneyslu unglinganna og foreldra þeirra, þá voru samt nokkur tengsl milli neyslu heimilisfólks. Því oftar sem foreldrarnir neyta vímuefna, því líklegri eru unglingarnir til að gera slíkt hið sama. Í hinni könnuninni [2] kom fram að samvera með foreldrum og fjölskyldu og aðhald og eftirlit foreldra spáði fyrir um minni vímuefnaneyslu en annars og að reykingar og ölvun foreldra spáði nokkuð vel fyrir um sömu hluti meðal unglinganna.

Vímuefnaneysla er viðurkennd í samfélaginu sem áhættuhegðun, en aðeins fullorðið fólk má taka þátt í henni. Unglingar líta því oft á það sem eins konar manndómsvígslu inn í heim hinna fullorðnu að prófa þessi efni. Margar rannsóknir hafa sýnt að aukið aðgengi að vímuefnum hækkar hlutfall þeirra sem lenda í vanda vegna neyslunnar og þar sem aðgengi að vímuefnum fer síbatnandi má reikna með að hækkandi hlutfall þeirra unglinga sem nú eru að prófa að nota þessi efni í fyrsta sinn muni lenda í vandræðum. Þetta er sérstakt áhyggjuefni vegna þess að margar kannanir, meðal annars báðar kannanirnar sem hér hefur verið vísað til, sýna að því yngri sem unglingar eru þegar þeir hefja neyslu, því meiri líkur eru til þess að þeir lendi í vandræðum seinna meir.

Af framansögðu er ljóst að margir þættir eru samverkandi þegar unglingar taka þá ákvörðun að prófa að nota vímuefni og því miður missa margir þeirra fljótlega stjórn á þeirri neyslu. Sennilega er hópþrýstingur frá jafningjahópnum sterkasti hvatinn til neyslunnar en einnig skiptir miklu máli hvernig unglingarnir verja tómstundum sínum og hvernig aðstæðurnar heima fyrir eru. Hvert árið sem hægt er að fresta því að unglingar hefji vímuefnaneyslu er mikilvægt og ætti að skoðast sem áfangasigur í baráttunni fyrir bættu mannlífi.

Heimildir:

[1] Sigrún Aðalbjarnardóttir, Sigurlína Davíðsdóttir og Eyrún Rúnarsdóttir (1997). Áhættuhegðun reykvískra unglinga: Tóbaksreykingar, áfengisneysla, hassneysla og neysla annarra vímuefna árin 1994-1996. Reykjavík: Félagsvísindastofnun HÍ.

[2] Þórólfur Þórlindsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jón Gunnar Bernburg og Viðar Halldórsson (1998). Vímuefnaneysla ungs fólks: Umhverfi og aðstæður. Reykjavík: Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála.

...