Sólin Sólin Rís 09:01 • sest 18:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:51 • Sest 10:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:59 • Síðdegis: 24:01 í Reykjavík

Hver er skilgreiningin á trúleysingja?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Trúleysingi er sá sem ekki hefur neina trú í skilningnum „traust og tilbeiðsla á goðmögnum eða vættum; trúarbrögð”. Það að vera trúlaus er sem sagt það að vera laus við trú á guði eða yfirskilvitlegar æðri verur.

Alþjóðaorðið yfir trúleysingja er aþeisti. Forskeytið a- felur í sér neitun og merkir 'ekki' eða 'án'. Gríska orðið þeos merkir 'guð' og því er bókstafleg merking orðsins aþeisti 'sá sem er án guðs' eða 'guðleysingi'. Trúleysi eða guðleysi er á sama hátt kallað aþeismi.

Stundum er gerður greinarmunur á sterku og veiku trúleysi. Þessi aðgreining felur ekki í sér að önnur útgáfan sé sterkari í þeim skilningi að hún sé betur rökstudd eða betri á einhvern hátt, heldur snýst hún um hve langt er gengið; hve miklu er haldið fram. „Veikur” trúleysingi trúir því ekki að til sé guð. „Sterkur” trúleysingi trúir því að ekki sé til guð. Þannig teljast allir þeir sem aldrei hafa heyrt talað um neina guði, til dæmis smábörn, til „veikra” trúleysingja og hið sama gildir um þá sem ekki hafa gert upp hug sinn um tilvist guða. „Sterkur” trúleysingi telur sig hins vegar geta fullyrt að ekki sé til nein vera af því tagi sem fólk kallar guð. Svar „veika” trúleysingjans við spurningunni „Eru til guðir?” er: „Ég veit það ekki.” Svar „sterka” trúleysingjans við sömu spurningu er: „Nei!”

Muninum á veiku og sterku trúleysi má líkja við muninn á því að trúa ekki að Gunna sé heima og að trúa því að Gunna sé ekki heima. Ef ég hef aldrei heyrt á Gunnu minnst hef ég auðvitað enga ástæðu til að trúa því að hún sé heima. Við getum svo líka hugsað okkur að ég þekki Gunnu en telji mig ekki hafa neinar forsendur til að meta hvort hún sé heima á þessari stundu eða ekki. Í báðum tilvikum trúi ég ekki að Gunna sé heima þar sem ég trúi hvorki einu né öðru þess efnis. Þetta er sambærilegt við veikt trúleysi. Ef ég tel mig hinsvegar geta fullyrt að Gunna sé ekki heima, til dæmis af því að ég veit að hún er ekki vön að vera heima á þessum tíma, eða af því að ég hringdi dyrabjöllunni hjá henni og enginn kom til dyra, trúi ég því að Gunna sé ekki heima. Þetta er sambærilegt við sterkt trúleysi.

Veikt trúleysi fellur stundum saman við svokallaða agnostík eða trúarlega efahyggju. Orðið agnostík er dregið af gríska orðinu agnostos sem er afbrigði af agnotos. Gnotos þýðir 'það sem er vitað' og er dregið af sagnorðinu gignoskein (= að vita). Trúarleg efahyggja er sú skoðun að ómögulegt sé að vita hvort til séu guðir eða ekki. Agnostíkerinn fullyrðir ekki aðeins „ég veit ekki hvort til eru guðir” heldur segir hann „enginn getur mögulega vitað hvort til eru guðir”. Hann telur því að bæði „sterku” trúleysingjarnir og hinir trúuðu séu að staðhæfa meira en þeir hafi forsendur til.

Til frekari fróðleiks er bent á umfjöllun um trúleysi á Religioustolerance.org.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

11.5.2001

Spyrjandi

Heiða Dögg Sigmarsdóttir

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er skilgreiningin á trúleysingja?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2001. Sótt 22. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1589.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 11. maí). Hver er skilgreiningin á trúleysingja? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1589

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Hver er skilgreiningin á trúleysingja?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2001. Vefsíða. 22. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1589>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er skilgreiningin á trúleysingja?
Trúleysingi er sá sem ekki hefur neina trú í skilningnum „traust og tilbeiðsla á goðmögnum eða vættum; trúarbrögð”. Það að vera trúlaus er sem sagt það að vera laus við trú á guði eða yfirskilvitlegar æðri verur.

Alþjóðaorðið yfir trúleysingja er aþeisti. Forskeytið a- felur í sér neitun og merkir 'ekki' eða 'án'. Gríska orðið þeos merkir 'guð' og því er bókstafleg merking orðsins aþeisti 'sá sem er án guðs' eða 'guðleysingi'. Trúleysi eða guðleysi er á sama hátt kallað aþeismi.

Stundum er gerður greinarmunur á sterku og veiku trúleysi. Þessi aðgreining felur ekki í sér að önnur útgáfan sé sterkari í þeim skilningi að hún sé betur rökstudd eða betri á einhvern hátt, heldur snýst hún um hve langt er gengið; hve miklu er haldið fram. „Veikur” trúleysingi trúir því ekki að til sé guð. „Sterkur” trúleysingi trúir því að ekki sé til guð. Þannig teljast allir þeir sem aldrei hafa heyrt talað um neina guði, til dæmis smábörn, til „veikra” trúleysingja og hið sama gildir um þá sem ekki hafa gert upp hug sinn um tilvist guða. „Sterkur” trúleysingi telur sig hins vegar geta fullyrt að ekki sé til nein vera af því tagi sem fólk kallar guð. Svar „veika” trúleysingjans við spurningunni „Eru til guðir?” er: „Ég veit það ekki.” Svar „sterka” trúleysingjans við sömu spurningu er: „Nei!”

Muninum á veiku og sterku trúleysi má líkja við muninn á því að trúa ekki að Gunna sé heima og að trúa því að Gunna sé ekki heima. Ef ég hef aldrei heyrt á Gunnu minnst hef ég auðvitað enga ástæðu til að trúa því að hún sé heima. Við getum svo líka hugsað okkur að ég þekki Gunnu en telji mig ekki hafa neinar forsendur til að meta hvort hún sé heima á þessari stundu eða ekki. Í báðum tilvikum trúi ég ekki að Gunna sé heima þar sem ég trúi hvorki einu né öðru þess efnis. Þetta er sambærilegt við veikt trúleysi. Ef ég tel mig hinsvegar geta fullyrt að Gunna sé ekki heima, til dæmis af því að ég veit að hún er ekki vön að vera heima á þessum tíma, eða af því að ég hringdi dyrabjöllunni hjá henni og enginn kom til dyra, trúi ég því að Gunna sé ekki heima. Þetta er sambærilegt við sterkt trúleysi.

Veikt trúleysi fellur stundum saman við svokallaða agnostík eða trúarlega efahyggju. Orðið agnostík er dregið af gríska orðinu agnostos sem er afbrigði af agnotos. Gnotos þýðir 'það sem er vitað' og er dregið af sagnorðinu gignoskein (= að vita). Trúarleg efahyggja er sú skoðun að ómögulegt sé að vita hvort til séu guðir eða ekki. Agnostíkerinn fullyrðir ekki aðeins „ég veit ekki hvort til eru guðir” heldur segir hann „enginn getur mögulega vitað hvort til eru guðir”. Hann telur því að bæði „sterku” trúleysingjarnir og hinir trúuðu séu að staðhæfa meira en þeir hafi forsendur til.

Til frekari fróðleiks er bent á umfjöllun um trúleysi á Religioustolerance.org.

...