Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:19 • sest 18:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:56 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:32 • Síðdegis: 16:49 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:44 • Síðdegis: 23:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Ef ég er ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra er þá hægt að segja að ég sé fordómafullur?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Fyrst ber að nefna að „sjónarmið samkynhneigðra” er afar óljóst hugtak. Samkynhneigðir eru jafn margbreytilegur hópur og gagnkynhneigðir eða hver annar hópur og engan veginn við því að búast að allir samkynhneigðir einstaklingar hefðu sömu sjónarmið eða væru sammála um alla hluti. Því er ekki augljóst hvað spyrjandi á við með því að vera „ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra”.

Líklegt er þó að spyrjandi eigi við það að hann styðji ekki ákveðin baráttumál samkynhneigðra sem hafa verið ofarlega á baugi á undanförnum árum, eins og þau sem lúta að rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Hvort þessar skoðanir spyrjanda fela í sér fordóma eða ekki hlýtur meðal annars að fara eftir því hvaða rökstuðningur (ef einhver) liggur þeim að baki.

Það að hafa fordóma er að mynda sér skoðun um einhvern eða eitthvað án fullnægjandi þekkingar og rökstuðnings. Fullnægjandi rökstuðningur þarf að vera byggður á áreiðanlegum upplýsingum um viðkomandi efni og ályktunum sem af þeim eru dregnar á skynsamlegan hátt (sjá svar við Hvað eru skynsamleg rök?). Fordómar eru því byggðir á vanþekkingu eða því að óréttmætar ályktanir séu dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum.

Oft er líka talað um fordóma sem neikvæð eða jafnvel fjandsamleg viðhorf sem beinast gegn ákveðnum þjóðfélagshópi eða -hópum. Þegar verst lætur eru slík viðhorf notuð til að réttlæta ofbeldi og ýmiss konar kúgun. Dæmi um fordóma í þessum skilningi er kynþáttahatur. Á grundvelli yfirborðseiginleika á borð við húðlit myndar kynþáttahatarinn sér ýmsar skoðanir á hlutum sem hafa tæpast mikið með húðlit að gera.

Fjandsamleg viðhorf gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum eru sjaldnast (ef nokkurn tíma!) byggð á fullnægjandi rökstuðningi.

Óhætt er að fullyrða að hópmiðaðir fordómar af sama tagi gagnvart samkynhneigðum eru og hafa verið til, bæði hér á landi og annars staðar. Fjölmargir samkynhneigðir einstaklingar hafa til dæmis orðið fyrir líkamsárásum vegna kynhneigðar sinnar og öll þekkjum við frásagnir af samkynhneigðu fólki sem hefur verið afneitað af fjölskyldum sínum eða úthýst af trúarsöfnuðum.

Þessar tvær hugmyndir um merkingu orðsins fordómar sem lýst er hér á undan eiga auðvitað oft báðar við í einu. Fjandsamleg viðhorf gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum eru sjaldnast (ef nokkurn tíma!) byggð á fullnægjandi rökstuðningi. Þó getur það verið umdeilanlegt nákvæmlega í hvaða tilfellum þessi hugtök eigi við og ágreiningur um réttindi samkynhneigðra virðist vera slíkt tilfelli.

Margir þeirra sem styðja baráttumál samkynhneigðra telja til dæmis að andstaða við málstað þeirra hljóti að byggjast á fjandsamlegri afstöðu gagnvart samkynhneigðum og að þessi afstaða sé illa rökstudd. Með öðrum orðum er þarna álitið að um fordóma sé að ræða. Þeir sem eru hinsvegar mótfallnir til dæmis hjónabandi samkynhneigðra telja væntanlega skoðanir sínar vel rökstuddar og vilja ekki (að minnsta kosti ekki allir) kannast við fjandsamleg viðhorf gagnvart samkynhneigðum. Þeir vilja sem sagt ekki gangast við fordómum.

Dæmi um fordóma gagnvart samkynhneigðum væri til dæmis að vilja banna þeim að ættleiða börn á þeim forsendum að þeir séu óhæfir foreldrar vegna kynhneigðar sinnar. Á meðan ekkert liggur fyrir sem bendir til þess að samkynhneigð geri fólk að slæmum foreldrum hlýtur skoðun sem þessi að fela í sér fordóma. Stundum er það tínt til að börn sem alist upp hjá samkynhneigðum séu líklegri en önnur til að verða samkynhneigð sjálf. Hvort sem eitthvað er til í því eða ekki hlýtur bann við ættleiðingum samkynhneigðra af þessari ástæðu að fela í sér þá skoðun að óæskilegt sé að börn verði samkynhneigð. Þá er auðvitað eðlilegt að spyrja hvers vegna það ætti að vera óæskilegt og hvort þarna leynist ekki fordómar líka. Aldrei heyrum við af því að einhver sé á móti því að gagnkynhneigðir ali upp börn af ótta við að börnin þeirra geti orðið gagnkynhneigð!

Þar sem spurningunni hér að ofan fylgja engar nánari upplýsingar um það hvernig spyrjandi rökstyðji skoðanir sínar á baráttumálum samkynhneigðra – eða hverjar þessar skoðanir hans yfirleitt eru – er auðvitað ómögulegt að meta á þessum vettvangi hvort þær feli í sér fordóma eða ekki. Það er nokkuð sem spyrjandi verður að gera upp við sig sjálfur með því að rýna í rökstuðning sinn. Enn síður er það ljóst hvort viðhorf spyrjanda gangvart samkynhneigðum séu fjandsamleg enda er það ekki hlutverk Vísindavefsins að leggja slík próf fyrir fólk.

Sjá einnig:

Mynd:

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

14.5.2001

Spyrjandi

NN

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Ef ég er ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra er þá hægt að segja að ég sé fordómafullur?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2001, sótt 15. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1597.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 14. maí). Ef ég er ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra er þá hægt að segja að ég sé fordómafullur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1597

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Ef ég er ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra er þá hægt að segja að ég sé fordómafullur?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2001. Vefsíða. 15. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1597>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Ef ég er ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra er þá hægt að segja að ég sé fordómafullur?
Fyrst ber að nefna að „sjónarmið samkynhneigðra” er afar óljóst hugtak. Samkynhneigðir eru jafn margbreytilegur hópur og gagnkynhneigðir eða hver annar hópur og engan veginn við því að búast að allir samkynhneigðir einstaklingar hefðu sömu sjónarmið eða væru sammála um alla hluti. Því er ekki augljóst hvað spyrjandi á við með því að vera „ekki sammála sjónarmiðum samkynhneigðra”.

Líklegt er þó að spyrjandi eigi við það að hann styðji ekki ákveðin baráttumál samkynhneigðra sem hafa verið ofarlega á baugi á undanförnum árum, eins og þau sem lúta að rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Hvort þessar skoðanir spyrjanda fela í sér fordóma eða ekki hlýtur meðal annars að fara eftir því hvaða rökstuðningur (ef einhver) liggur þeim að baki.

Það að hafa fordóma er að mynda sér skoðun um einhvern eða eitthvað án fullnægjandi þekkingar og rökstuðnings. Fullnægjandi rökstuðningur þarf að vera byggður á áreiðanlegum upplýsingum um viðkomandi efni og ályktunum sem af þeim eru dregnar á skynsamlegan hátt (sjá svar við Hvað eru skynsamleg rök?). Fordómar eru því byggðir á vanþekkingu eða því að óréttmætar ályktanir séu dregnar af fyrirliggjandi upplýsingum.

Oft er líka talað um fordóma sem neikvæð eða jafnvel fjandsamleg viðhorf sem beinast gegn ákveðnum þjóðfélagshópi eða -hópum. Þegar verst lætur eru slík viðhorf notuð til að réttlæta ofbeldi og ýmiss konar kúgun. Dæmi um fordóma í þessum skilningi er kynþáttahatur. Á grundvelli yfirborðseiginleika á borð við húðlit myndar kynþáttahatarinn sér ýmsar skoðanir á hlutum sem hafa tæpast mikið með húðlit að gera.

Fjandsamleg viðhorf gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum eru sjaldnast (ef nokkurn tíma!) byggð á fullnægjandi rökstuðningi.

Óhætt er að fullyrða að hópmiðaðir fordómar af sama tagi gagnvart samkynhneigðum eru og hafa verið til, bæði hér á landi og annars staðar. Fjölmargir samkynhneigðir einstaklingar hafa til dæmis orðið fyrir líkamsárásum vegna kynhneigðar sinnar og öll þekkjum við frásagnir af samkynhneigðu fólki sem hefur verið afneitað af fjölskyldum sínum eða úthýst af trúarsöfnuðum.

Þessar tvær hugmyndir um merkingu orðsins fordómar sem lýst er hér á undan eiga auðvitað oft báðar við í einu. Fjandsamleg viðhorf gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum eru sjaldnast (ef nokkurn tíma!) byggð á fullnægjandi rökstuðningi. Þó getur það verið umdeilanlegt nákvæmlega í hvaða tilfellum þessi hugtök eigi við og ágreiningur um réttindi samkynhneigðra virðist vera slíkt tilfelli.

Margir þeirra sem styðja baráttumál samkynhneigðra telja til dæmis að andstaða við málstað þeirra hljóti að byggjast á fjandsamlegri afstöðu gagnvart samkynhneigðum og að þessi afstaða sé illa rökstudd. Með öðrum orðum er þarna álitið að um fordóma sé að ræða. Þeir sem eru hinsvegar mótfallnir til dæmis hjónabandi samkynhneigðra telja væntanlega skoðanir sínar vel rökstuddar og vilja ekki (að minnsta kosti ekki allir) kannast við fjandsamleg viðhorf gagnvart samkynhneigðum. Þeir vilja sem sagt ekki gangast við fordómum.

Dæmi um fordóma gagnvart samkynhneigðum væri til dæmis að vilja banna þeim að ættleiða börn á þeim forsendum að þeir séu óhæfir foreldrar vegna kynhneigðar sinnar. Á meðan ekkert liggur fyrir sem bendir til þess að samkynhneigð geri fólk að slæmum foreldrum hlýtur skoðun sem þessi að fela í sér fordóma. Stundum er það tínt til að börn sem alist upp hjá samkynhneigðum séu líklegri en önnur til að verða samkynhneigð sjálf. Hvort sem eitthvað er til í því eða ekki hlýtur bann við ættleiðingum samkynhneigðra af þessari ástæðu að fela í sér þá skoðun að óæskilegt sé að börn verði samkynhneigð. Þá er auðvitað eðlilegt að spyrja hvers vegna það ætti að vera óæskilegt og hvort þarna leynist ekki fordómar líka. Aldrei heyrum við af því að einhver sé á móti því að gagnkynhneigðir ali upp börn af ótta við að börnin þeirra geti orðið gagnkynhneigð!

Þar sem spurningunni hér að ofan fylgja engar nánari upplýsingar um það hvernig spyrjandi rökstyðji skoðanir sínar á baráttumálum samkynhneigðra – eða hverjar þessar skoðanir hans yfirleitt eru – er auðvitað ómögulegt að meta á þessum vettvangi hvort þær feli í sér fordóma eða ekki. Það er nokkuð sem spyrjandi verður að gera upp við sig sjálfur með því að rýna í rökstuðning sinn. Enn síður er það ljóst hvort viðhorf spyrjanda gangvart samkynhneigðum séu fjandsamleg enda er það ekki hlutverk Vísindavefsins að leggja slík próf fyrir fólk.

Sjá einnig:

Mynd:

...